Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, á 100 ára afmæli Verkakvennafélagsins Von á Húsavík
Ágætu gestir!
Ein öld er langur tími í sögu þjóðar en Verkakvennafélagið Von er nú hundrað ára, stofnað á Húsavík 1918 og var fyrsti formaður félagsins Þuríður Björnsdóttir en af henni er kominn myndarlegur ættbogi verkalýðsleiðtoga. Þá voru aðeins fjögur önnur verkakvennafélög starfandi á landinu þannig að konurnar á Húsavík voru frumkvöðlar eins og viðeigandi er á staðnum sem stundum er talinn elsta örnefni Íslands.
Verkamannafélag Húsavíkur var stofnað árið 1911 og konurnar stofnuðu Verkakvennafélagið Von 1918. Þessi félög sameinuðust árið 1964 undir merki Verkalýðsfélags Húsavíkur. Síðar hafa komið til frekari sameiningar stéttarfélaga í Þingeyjarsýslum: Verkalýðsfélag Raufarhafnar, Verkalýðsfélag Presthólahrepps og Verslunarmannafélag Húsavíkur sameinuðust Verkalýðsfélagi Húsavíkur sem þá fékk nýtt nafn, Framsýn, stéttarfélag Þingeyinga þann 1. maí 2008.
Í ár fögnum við líka hundrað ára afmæli fullveldis á Íslandi. Sjálfstæðisbaráttan var á sínum tíma svo ríkjandi í íslenskri stjórnmálabaráttu að önnur pólitísk barátta féll í skuggann. Samt sem áður er saga verkalýðshreyfingarinnar samofin sögu fullveldisins. Fyrstu verkalýðsfélögin voru stofnuð seint á 19. öld. Alþýðusamband Íslands varð til árið 1916, stofnað fyrir tilstuðlan sjö félaga sem höfðu um 1500 meðlimi og var fjórðungur þeirra konur. Á svipuðum tíma, undir lok 19. aldar, voru fyrstu kennarafélögin stofnuð. Síðar á 20. öld, í breyttu samfélagi, voru stofnuð stéttarfélög starfsmanna ríkis og bæja og síðan stéttarfélög háskólamenntaðra. Jákvæð áhrif þessara félaga á samfélagið hafa verið gríðarleg.
Stofnun verkalýðshreyfingarinnar var samofin samfélagsbreytingum þar sem fólk var að flytja úr sveitunum og safnast saman í þéttbýlinu. Samhliða litu ljós nýjar kröfur um jafnan rétt allra, óháð stétt og stöðu en líka óháð kyni. Þannig fengu konur yfir fertugu kosningarétt árið 1915, á sömu árum og verkalýðshreyfingin er að taka á sig mynd og fullveldið verður til.
En þá eins og nú var togstreita á milli stéttabaráttu, sjálfstæðisbaráttu og kvennabaráttu. Verkakonum var ekki endilega ætlað mikið rými hjá forkólfum í verkalýðshreyfingunni. Baráttan fyrir kosningarétti varðaði kannski verkakonur ekki alltaf miklu í þeirra daglegu baráttu fyrir brauði handa börnunum. Barátta þeirra var í senn stéttabarátta og kvennabarátta en verkakarlar studdu ekki endilega við verkakonur þegar þær réðust í aðgerðir til að berjast fyrir bættum kjörum.
Hér er líka í dag fagnað útgáfu ljóðabókar Bjargar Pétursdóttur sem var ein þeirra kvenna sem vann hvað ötullegast að stofnun Verkakvennafélagsins Vonar. Saga hennar er baráttusaga konu sem hafði réttlætið að leiðarljósi en háði erfiða lífsbaráttu þar sem einungis þrjú börn af níu lifðu.
Látið í kistu barnsins míns
Geymdu litla ljóðið mitt
við liðna barminn þinn,
það er kveðja mín svo hrygg og hljóð í hinsta sinn,
hún hjúfrar sig svo hlýtt og blítt við hjarta þitt.
Þó gröfin hylji hismið þitt,
hún hjá þér vakir, barnið mitt
og bleikum vörum blítt og rótt,
hún býður góða nótt.
En hún gat líka ort á léttari nótum:
Húsavík
Hér er friðsælt föðurland, flestir önnum kafnir.
Hér þarf hvorki hjálm né brand,
hér eru allir jafnir.
En þó að á Húsavík hafi ekki endilega þurft hjálm né brand þá þurfti þess nú greinilega víða annars staðar. Fjölmörg þeirra réttinda sem vinnandi fólki þykja sjálfsögð í dag kölluðu á mikla baráttu. Það var samstaða vinnandi fólks sem skilaði árangri á borð við samningsrétt, uppsagnarfrest, fæðingarorlof, vinnuvernd, orlofsrétt og svo mætti lengi telja. Verkalýðshreyfingin hefur að sama skapi haft ómetanleg áhrif á uppbyggingu velferðarkerfisins á Íslandi. Fyrstu lögin um almannatryggingar voru sett árið 1936 eftir miklar umræður á Alþingi þar sem andstæðingar þeirra töldu þau ýta undir almenna leti í samfélaginu. Enn má heyra það viðkvæði þegar barist er fyrir réttindum atvinnulausra svo að dæmi sé tekið.
Verkalýðshreyfingin barðist ötullega fyrir félagslegu húsnæði en lög um verkamannabústaði voru sett 1929. Eins var verkalýðshreyfingin áhrifavaldur þegar Breiðholt byggðist í Reykjavík á sjöunda áratugnum eftir margra ára húsnæðiseklu þar sem fólk bjó í bröggum sem herinn hafði skilið eftir sig en þá höfðu húsnæðismálin verið hitamál í hverjum sveitarstjórnarkosningum á eftir öðrum. Þá má ekki gleyma baráttunni fyrir styttingu vinnuvikunnar sem nú er aftur komin á dagskrá, fyrst og fremst fyrir tilstuðlan verkalýðshreyfingarinnar en vökulögin voru sett 1921; fram að því voru engin takmörk hversu lengi var hægt að láta fólk vinna. Vökulögin tryggðu sex tíma lágmarkshvíld.
Verkalýðshreyfingin hefur vaxið og dafnað á þessum tíma og haft mikil áhrif. Réttindi hafa batnað stórkostlega, velferðarkerfið hefur verið byggt upp, heilbrigðiskerfið tekið stakkaskiptum og almenn menntun tekið stórstígum framförum. Um leið eru risastór viðfangsefni framundan; að draga úr kostnaði sjúklinga, byggja upp nýtt félagslegt húsnæðiskerfi, lengja fæðingarorlof og endurskoða skatt- og bótakerfi til að tryggja tekjulægri hópum aukið öryggi. Markmiðið hlýtur að vera að vinda ofan af vaxandi misskiptingu í samfélaginu seinustu áratugi og tryggja aukinn jöfnuð. Þá hlýt ég að nefna verkefni sem hafa verið ofarlega á baugi meðal annars hér hjá Stéttarfélaginu Framsýn sem tengjast réttindum erlends verkafólks og baráttunni gegn félagslegum undirboðum.
Ríkisstjórnin hefur sýnt vilja í verki til að vinna með verkalýðshreyfingunni. Eitt fyrsta skrefið var að bregðast við sanngjörnum kröfum um að hækka greiðslur atvinnuleysisbóta og greiðslur úr Ábyrgðarsjóði launa sem hækka þann 1. maí. Í nýrri fjármálaáætlun má sjá áform um að draga úr kostnaði sjúklinga, frekari eflingu heilbrigðiskerfisins, sókn í samgöngumálum, eflingu menntakerfisins, bætt kjör öryrkja og svo mætti lengi telja.
Ríkisstjórnin efndi til samráðs við aðila vinnumarkaðarins um fyrirkomulag launa æðstu embættismanna hins opinbera sem var í fyrsta sinn sem þessir aðilar komu að þeirri vinnu. Niðurstaðan varð að leggja niður kjararáð í núverandi mynd. Fyrir liggur vilji stjórnvalda til að frysta laun þeirra sem nú heyra undir kjararáð út þetta ár til að launaþróun þessara aðila verði í takt við almenna launaþróun. Framundan eru mikilvægar viðræður um þau mál sem hér voru nefnd áðan, ásamt öðrum. Þau skipta máli fyrir allt vinnandi fólk í landinu og kjör þess til langtíma. Það væri áhugavert að heyra sjónarmið verkakvennanna sem stofnuðu Von á sínum tíma til margra hitamála samtímans og hvað væri efst á þeirra borði. Kannski myndi samhengi hlutanna verða enn skýrara ef við gætum sótt slíkan fund yfir móðuna miklu. Ég hef þó þá trú að það sem ekki hefur breyst á síðustu hundrað árum er að samstaða launafólks skilar árangri og réttindin koma sjaldnast eða aldrei af sjálfu sér, fyrir þeim þarf að berjast.
Til hamingju með daginn!