Stefnuræða forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, á 149. löggjafarþingi, 12. september 2018
Talað orð gildir
Virðulegi forseti, góðir landsmenn
Þó að það hafi rignt á sum okkar í sumar skartaði landið sínu fegursta. Við sem búum hér á suðvesturhorninu vorum reglulega minnt á þá staðreynd að fátt er betra en að finna lyktina af gróðrinum þegar rigningunni slotar. Og ég gat ekki orðið annað en þakklát þar sem ég sat í heitri laug í Bjarnarfirði, horfði á ána fjúka í öfuga átt í nítján metrum á sekúndu og virti fyrir mér sundlaugina sem byggð var af æskulýðsfrömuðum á norðurhjara sem aldrei misstu trúna á landið. Ég varð þakklát fyrir afrek þeirra sem trúðu á fullveldið sem við fögnum í ár, þá framsýni og þann stórhug sem þau sýndu.
Þó að veðrið hafi verið vinsælt umræðuefni í öllum landshlutum í sumar vorum við samt heppin hér á landi miðað við veðrið annars staðar á Norðurlöndum. Þar voru gífurlegir þurrkar, skógareldar og uppskerubrestur. Við Íslendingar buðum Svíum aðstoð vegna skógarelda, íslenskir bændur seldu norskum starfsbræðrum sínum hey og öll fylgdumst við með veðurfréttum sem þóttu bera vitni um áhrif loftslagsbreytinga.
Ríkisstjórnin kynnti í fyrradag fyrstu áfangana í metnaðarfullri aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Eins og kunnugt er hafa orðið straumhvörf í fjárveitingum til umhverfismála. Aðgerðaáætlunin mun útfæra hvernig þessir fjármunir verða nýttir. Þar mun landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis verða fyrirferðarmikil. Annar stór áfangi eru orkuskipti í samgöngum þar sem stórátak verður í uppbyggingu fyrir rafbíla og rafhjól og sett niður tímaáætlun um að ekki verði fluttir inn nýir bílar sem ganga fyrir bensíni eða olíu eftir 2030.
Við Íslendingar höfum sett okkur það markmið að verða kolefnishlutlaus ekki seinna en árið 2040 og þessir fyrstu áfangar sýna gjörla að okkur er full alvara með því verkefni. Ég sé fyrir mér að umhverfis- og loftslagsmál verði eitt af flaggskipum okkar utanríkisstefnu, rétt eins og kynjajafnréttismálin eru þegar orðin, og Ísland, þó að við séum ekki stór, geti þar með haft áhrif til góðs í alþjóðasamfélaginu.
Kæru landsmenn
Ísland hefur nú verið níu ár í röð í efsta sæti á lista World Economic Forum sem það land sem stendur sig best í kynjajafnrétti og er það mikið ánægjuefni. Þar megum við hins vegar hvergi slaka á. Innleiðing jafnlaunavottunar stendur yfir og þar þurfa stofnanir og fyrirtæki að slá í klárinn ef hún á að nást fyrir áramót. Sömuleiðis þurfum við að vera meðvituð um að þessi listi mælir til dæmis ekki kynbundið ofbeldi. Þess vegna hefur ríkisstjórnin sett þau mál í algjöran forgang. Fullgilding Istanbúlsáttmálans um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi var mikilvægt skref í rétta átt sem stigið var í vor. Á þessu ári hefur hópur sérfræðinga verið að störfum og greint hvað þurfi að gera og hverju þurfi að breyta til þess að hafa betur í baráttunni gegn kynferðisofbeldi. Hópurinn hefur nú skilað af sér verkáætlun sem verður hrint í framkvæmd. Og við munum halda áfram að vinna úr lærdómum #églíka-byltingarinnar, meðal annars með alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin verður hér á landi á komandi ári.
Herra forseti.
Ríkisstjórnin hefur tekið það verkefni að ráðast í nauðsynlega uppbyggingu samfélagslegra innviða föstum tökum allt frá fyrsta degi. Sú sókn sem hófst í síðustu fjárlögum og heldur áfram í nýju fjárlagafrumvarpi er langt umfram það sem nokkur stjórnmálaflokkur boðaði fyrir síðustu kosningar enda er þörfin brýn. Um leið er tíminn góður þar sem spár gera ráð fyrir minni hagvexti á komandi árum og g því tækifæri fyrir hið opinbera til að koma með innspýtingu.
Heilbrigðisþjónustan er fyrirferðarmikil enda sá málaflokkur sem landsmenn hafa forgangsraðað efst á listann samkvæmt ýmsum könnunum. Hér á landi hafa sjúklingar þurft að greiða meira fyrir heilbrigðisþjónustu en annars staðar á Norðurlöndum. Fyrstu skrefin í því að lækka þennan kostnað voru stigin nú um mánaðamótin þegar dregið var úr kostnaði aldraðra og öryrkja við tannlækningar sem er löngu tímabær og mikilvæg aðgerð. Áfram verður haldið á sömu braut allt kjörtímabilið. Hér á landi eru líka teikn á lofti um að andlegri heilsu, sérstaklega ungs fólks, hafi hrakað. Þess vegna leggur ríkisstjórnin ríka áherslu á geðheilbrigði og nú er unnið að því að auka aðgengi að sálfræðingum um land allt.
Samgöngumálin eru sömuleiðis stórmál í þessari innviðauppbyggingu enda hefur mikið mætt á vegakerfinu undanfarin ár. Þar þarf í senn að huga að vegakerfinu en líka að öflugri almenningssamgöngum. Fjórir milljarðar eru lagðir í það risavaxna verkefni að bæta framfærslu öryrkja og hefur verið starfandi samráðshópur sem ætlað er að gera tillögur um það hvernig þessum fjármunum verður sem best varið ásamt því að auka möguleika öryrkja til virkrar samfélagsþátttöku og þátttöku á vinnumarkaði.
Fjármála- og efnahagsráðherra mun í vetur leggja fram frumvarp til laga um þjóðarsjóð sem verður eitt af lykilmálum ríkisstjórnarinnar og vonandi Alþingis alls. Þar er ætlunin að setja arðgreiðslur frá orkufyrirtækjum í eigu ríkisins í sérstakan sjóð, annars vegar til að leggja fyrir til framtíðar en hins vegar til að ráðast í átak í uppbyggingu hjúkrunarheimila og til að styrkja rannsóknir og nýsköpun. Þetta má kalla kynslóðaverkefni; annars vegar hvernig við hugum að okkar elsta fólki og hins vegar hvernig við búum í haginn fyrir framtíðina.
Fyrir mér er algjört lykilatriði að íslenskt samfélag fari að byggja upp og styðja betur við nýsköpunar- og rannsóknarumhverfi. Þess vegna höfum við bætt í framlög til menntunar og stefnum á verulegar fjárfestingar í rannsóknum og nýsköpun. Það mun treysta efnahagslíf landsins til framtíðar og draga úr sveiflum en við höfum séð á síðustu vikum að veður geta skipast fljótt í lofti innan einstakra atvinnugreina. Þess vegna er fjölbreytnin svo mikilvæg; að setja ekki öll eggin í sömu körfuna. Aukin nýsköpun og þar með aukin verðmætasköpun mun styrkja allar atvinnugreinar; sjávarútveg, landbúnað, iðnað, ferðaþjónustu, hugverkageirann, skapandi greinar og svo mætti lengi telja.
Framundan er svo vinna sem mun styrkja umgjörð fjármálakerfisins enn frekar. Hvítbók um fjármálakerfið kemur út í haust þar sem greint verður hvað hefur vel verið gert í þeim málum á undanförnum árum og hvað má betur gera. Hluti af því verkefni er að greina kostnaðinn í íslenska fjármálakerfinu en vísbendingar eru um að hann sé meiri en til dæmis annars staðar á Norðurlöndum. Markmiðið er að hægt verði að lækka þann kostnað þannig að almenningur fái notið lægri vaxta og betri kjara.
Nefnd um endurskoðun peningastefnunnar skilaði af sér nú í júní síðastliðnum. Stjórnvöld hafa í framhaldinu átt fundi með Seðlabanka og Fjármálaeftirliti. Markmiðið er að styrkja rammann um peningastefnuna, meðal annars með breytingum á lögum um Seðlabankann en ég mun leggja fram frumvarp þess efnis eftir áramót.
Kæru landsmenn.
Fátt hefur verið meira í innlendum fréttum en málefni vinnumarkaðarins. Ríkisstjórnin hefur lagt á það áherslu að eiga sem best samstarf við aðila vinnumarkaðarins en alls höfum við átt tíu fundi með þessum aðilum og forsvarsmönnum Sambands sveitarfélaga. Þeir fundir hafa nú þegar skilað margvíslegum árangri. Ráðist var í þær mikilvægu breytingar að hækka atvinnuleysisbætur og greiðslur úr Ábyrgðarsjóði launa í vor. Kjararáð var lagt niður með lögum í vor. Fyrirkomulag launa æðstu embættismanna verður fært til svipaðs horfs og annars staðar á Norðurlöndum.
Í vor gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um að tekjuskattskerfið og samspil bóta og skatta yrðu endurskoðuð á kjörtímabilinu þannig að það gagnist helst lágtekju- og lægri millitekjuhópum.
Sá tekjubandormur sem nú er lagður fram gerir ráð fyrir hækkun barnabóta sem mun auka ráðstöfunartekjur tekjulágra barnafjölskyldna. Enn fremur hækkun persónuafsláttar umfram breytingar á vísitölu neysluverðs sem gagnast best þeim tekjulægri. Að auki verða efri mörk skattkerfisins fest við neysluvísitölu eins og lægri mörkin þannig að þessi mörk breytist með sambærilegum hætti eins og margoft hefur verið kallað á. Allt eru þetta mikilvægar jöfnunaraðgerðir. Að lokum er tryggingagjaldið lækkað um 0,25% sem gagnast atvinnulífinu öllu.
Þessar breytingar eiga rætur að rekja til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og sýna okkar skýra vilja til að skatt- og bótakerfin þjóni jöfnunarhlutverki. Aðrar breytingar sem þegar hafa verið gerðar, eins og hækkun á fjármagnstekjuskatti, sýna þann sama vilja. Með þessum breytingum eru stigin mikilvæg skref sem færa skattbyrði af tekjulægstu hópunum og tryggja að þau tekju- og eignamestu leggi meira af mörkum.
Herra forseti.
Nú á dögunum var birt skýrsla starfshóps sem ég skipaði um traust á stjórnmálum og stjórnsýslu. Þar eru ýmsar áhugaverðar tillögur. Meðal annars er lagt til að við þingmenn og ráðherrar uppfærum reglur um hagsmunaskráningu. Ennfremur að hagsmunaskráning aðstoðarmanna og ráðuneytisstjóra verði lögfest en skráning þeirra hagsmuna og birting þeirra er ekki lögbundin þó að allt þetta fólk hafi verið reiðubúið að skrá hagsmuni sína og birta til að auka gagnsæi. Þá er lagt til að stjórnarráðið setji sér stefnu um upplýsingagjöf samhliða endurskoðun upplýsingalaga sem stendur yfir. Auk þess að gerður verði samningur við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands til að sinni ráðgjafarhlutverki fyrir Stjórnarráðið. Allt rúmast þetta innan þess sem við getum kallað heilindaramma en alþjóðastofnanir á borð við OECD hafa unnið mikla vinnu í því að skilgreina heilindi í opinberri stjórnsýslu. Við munum sjá frekari aðgerðir í þessa veru á þessu þingi og kjörtímabilinu öllu.
Ljóst er að traust á stjórnmálum og stjórnsýslu dvínaði skarpt eftir hrun. Þetta traust hefur farið heldur vaxandi án þess að jafnast á við það sem áður var. Líklega verður traust á stjórnmálum og stjórnsýslu aldrei jafn mikið og það var skömmu fyrir hrun. Samfélagið hefur breyst, upplýsingastreymi er með allt öðrum hætti og samfélagsmiðlar hafa breytt stjórnmálaumræðu með róttækum hætti. Við sem munum þá tíð þegar mestu skipti að komast í kvöldfréttirnar með það sem sagt var um morguninn, finnst þetta vera bylting þar sem fréttir morgunsins eru oft algjörlega gleymdar um kvöldið.
Þegar slík umskipti verða á miðlaumhverfinu má rifja það upp að því hefur verið haldið fram að miðillinn sníði skilaboðin að sér. Við sjáum þetta víða í nútímanum, jafnvel á sviði alþjóðasamskipta, þar sem valdamesti maður heims, sjálfur Bandaríkjaforseti, setur fram stefnu gagnvart öðrum ríkjum með 280 bókstöfum á twitter. Eins og við þekkjum úr sögunni þá geta slík umskipti breytt miklu um valdajafnvægið í samfélaginu.
Nýir miðlar eru hluti af stærri mynd samfélagsbreytinga; fjórðu iðnbyltingunni svokölluðu, þar sem miklu máli skiptir að við verðum í fararbroddi. Við vitum að þessi tæknibylting á eftir að breyta atvinnuháttum, vinnumarkaði, menntun og samfélaginu; við vitum líka að hún á eftir að breyta okkur sjálfum og upplifun okkar á veruleikanum. Í þýskum fjölmiðlum voru fréttir af því að óvenju mörg börn hafi drukknað í Þýsklandi í ár vegna þess að foreldrar þeirra voru upptekin í símanum. Við verðum að hafa þor til að horfast í augu við þennan nýja veruleika og samband okkar við tæknina til þess að næstu skref í þróun sambands þessarar tækni og okkar mannanna verði okkur til gæfu.
Í allri þessari þróun skiptir máli að við Íslendingar verðum gerendur, ekki þiggjendur. Að við nýtum tækifærin, sköpum aukin verðmæti og nýtum þau til að byggja upp betra samfélag. Að við verðum um leið meðvituð um mennskuna og gætum að henni í þessari hröðu þróun.
Vegna alls þessa ég ákveðið að láta vinna greiningu á áskorunum vegna Fjórðu iðnbyltingarinnar. Sú greining verður á breiðum grunni og unnið með niðurstöður hennar hjá Vísinda- og tækniráði, Samráðsvettvangi um aukna hagsæld, með aðilum vinnumarkaðarins og í nýrri framtíðarnefnd Alþingis.
Og talandi um framtíðina. Formenn stjórnmálaflokkanna hafa nú fundað nokkrum sinnum um þá endurskoðun stjórnarskrárinnar sem fyrirhuguð er á þessu kjörtímabili og því næsta. Þetta hafa verið góðir fundir og ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn á að breið samstaða skapist um breytingar á stjórnarskrá sem vísa veginn til framtíðar fyrir íslenskt samfélag.
Kæru landsmenn.
Á þessu ári fögnum við fullveldinu sem hefur skipt okkur svo miklu. Fyrstu hundrað ár fullveldisins hafa verið saga framfara, bæði félagslegra og efnahagslegra. Við eigum ærin tækifæri til framfara næstu hundrað árin. Við eigum að fagna samfélagi sem er miklu fjölbreyttara nú en fyrir einni öld. Við eigum að byggja á þeirri fjölbreytni og þeim gildum lýðræðis og mannréttinda sem við höfum haft í heiðri í þessari sögu allri. Og við eigum að sækja fram, sækja fram með því að rækta hugvitið, skapa nýja þekkingu og tryggja að hér verði samheldið, fjölbreytt og kærleiksríkt samfélag þar sem við lifum fram í sátt við umhverfið og tryggjum sterkan efnahag og jöfnuð.
Ég hitti nemendur í Seyðisfjarðarskóla um daginn. Þau sögðust þurfa að ræða ýmislegt við mig. Meðal annars væri nauðsynlegt að lækka verð á ís, fá betri gangstéttir og útisundlaug. Þau bentu líka á að gengið væri helst til hátt þessa dagana og við þyrftum að hugsa miklu betur um umhverfið. Viku seinna hitti ég heimilisfólk á Grund og við ræddum saman um sögu fullveldisins, alla þá sigra sem hafa unnist á þeim hundrað árum sem liðin eru og hlutverk þeirra í að byggja upp þetta samfélag sem við eigum saman. Eftir þessa tvo fundi var ég bjartsýn á framtíð íslensks samfélags. Við erum hér vegna kynslóðanna sem á undan okkur gengu með stórhug að vopni. Og framtíðin er björt með þessa frábæru ungu kynslóð sem mun taka við landinu okkar. Við sem hér erum núna skulum vanda okkur við að skila góðu búi.
Góðar stundir