Hoppa yfir valmynd
26. september 2018 ForsætisráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir

Sjávarútvegsdagurinn 2018 - ræða Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra

Góðan dag kæru gestir.

Á þessu afmælisári 100 ára fullveldis Íslands hafa gefist mörg tækifæri til að rifja upp söguna – hvar við vorum stödd árið 1918 þegar við öðluðumst fullveldi og hvar við stöndum nú. Það er að mörgu leyti með ólíkindum að horfa með þessum hætti yfir farinn veg og sjá hvarvetna framfarir sem hafa orðið; samfélagslegar, efnahagslegar, í lífsgæðum og í atvinnuháttum.

Sjávarútvegur er þar engin undantekning. Íslenskur sjávarútvegur er í fremstu röð á alþjóðavísu – og einmitt þess vegna er mikilvægt að við áttum okkur á framlagi þeirra sem unnið hafa að framgangi greinarinnar alla tíð.

Saga íslensks sjávarútvegs nær auðvitað mun lengra aftur en til 1918. Frá landnámi og fram á fyrsta áratug 20. aldar sóttu Íslendingar sjóinn lengst af á opnum árabátum en svo tóku opin þilskip við og að lokum skútur. Þegar vélvæðingin kom til sögunnar í upphafi 20. aldar voru Íslendingar fljótir að tileinka sér þessa nýju tækni í alþjóðlegu samhengi. Viljinn til að vera í forystu þegar kemur að nýrri tækni er eitthvað sem æ síðan hefur einkennt íslenskan sjávarútveg.

Á fullveldisárinu 1918 var stórhugur í þeim sem sóttu sjóinn á vélbátum og síðar togurum. Áratugina eftir síðari heimsstyrjöld má svo kenna við nýsköpun, en þá stóð samnefnd ríkisstjórn að kaupum á fjölda fiskiskipa. Skuttogaratímabilið hófst 1970 og markaði mikil tímamót – að einhverju leyti má segja að það standi enn. Það einkenndist í upphafi af gríðarlega miklum fjárfestingum í skipum, svo miklum að offjárfesting sligaði greinina og sókn jókst svo mikið að grípa þurfti til aukinnar stýringar, m.a. með setningu kvótakerfisins.

Tímabil sjálfbærra fiskveiða tók svo við á síðasta fjórðungi 20. aldar, og æ síðan hefur verið unnið að því að ná stöðugleika í veiðum og ná markmiðum um að fiskistofnarnir séu nýttir með sjálfbærum hætti. Á undanförnum árum má segja að að nýtt tímabil virðisaukningar hafi verið að ganga í garð, þar sem að með auknum fjárfestingum og nýsköpun er lögð áhersla á að hámarka verðmæti og nýtingu sjávarafurða samhliða því að unnið hefur verið að því að veiðarnar séu sjálfbærar.

Á undanförnum áratugum hefur sjávarútvegurinn gengið í gegnum uppgangstímabil en líka umbreytingarskeið sem hafa reynt á. Það hefur þurft að taka erfiðar ákvarðanir í íslenskum sjávarútvegi en þær hafa margar orðið okkur til gæfu.

Skemmst er að minnast umræðunnar í tengslum við fyrstu skrefin í sjálfbærum veiðum á Íslandi á áttunda áratugi síðustu aldar. Samdráttur í veiðum að því marki sem vísindamenn lögðu til var afar erfiður biti að kyngja. Þróunin sem þarna hófst var ekki sársaukalaus en er undirstaða þeirrar góðu stöðu sem sjávarútvegurinn er í nú. Þarna tókust á rök fyrir hagrænum áhrifum til skemmri tíma og rök fyrir sjálfbærni stofnsins og þar með hagsæld til lengri tíma. Það sem hefur gerst síðan er að umræða um sjálfbærni hefur orðið sífellt fyrirferðarmeiri. Neytendur gera sífellt meiri kröfur til vörunnar sem þeir kaupa – kröfurharðir neytendur vilja að fiskur sé veiddur með sjálfbærum hætti. Hér er okkar tækifæri í alþjóðlegri samkeppni - að íslenskur fiskur sé veiddur með sjálfbærum hætti. Í því felast tækifæri okkar.

Það er nefnilega iðulega þannig að umhverfisrök fara saman með bæði hagfræðilegum og samfélagslegum rökum. Það á sömuleiðis við um þá risastóru áskorun sem felst í loftslagsmálunum. Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að Ísland verði kolefnishlutlaust ekki seinna en árið 2040. Það markmið mun þó ekki nást nema við tökum öll höndum saman. Ég hef fundið fyrir ákveðinni viðhorfsbreytingu í íslensku samfélagi og atvinnulífi og er fullviss um að við séum öllum á sömu leið, með sama metnað fyrir því að ná þessu takmarki.

Þar hefur íslenskur sjávarútvegur verið í fararbroddi og hefur náð markverðum árangri í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Aðrar greinar geta lært mikið af fordæminu sem sjávarútvegurinn hefur sýnt, ekki einungis hér á Íslandi heldur er reynslan héðan mikilvægt framlag í umræðu sem á sér stað um allan heim um ábyrgð og getu atvinnulífsins til að leggja sitt af mörkum í loftslagsmálum. Og þannig hefur hann líka skapað sér mikla samkeppnishæfni í alþjóðlegu tilliti.

Og hverjar verða svo kröfur framtíðarinnar? Við erum stödd í tæknilegri umbyltingu sem mun hafa gríðarleg áhrif á alla þætti samfélagsins. Tæknivæðing íslensks sjávarútvegs hefur verið eftirtektarverð og það er ljóst að hann býr sig nú undir komandi breytingar og að mæta nýjum kröfum.

Í vor setti ég af stað vinnu við að greina áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar á íslenskt samfélag. Það sem ég hef lagt áherslu á er að við verðum gerendur í tæknibyltingunni en ekki einungis þiggjendur. Þegar kemur að íslenskum sjávarútvegi er sú sannarlega raunin, þar erum við gerendur. Það er áberandi hversu langt greinin og hátæknifyrirtæki tengd sjávarútvegi eru komin í því að kortleggja næstu skref í þróun atvinnugreinarinnar og vinnuhátta. Það forskot sem myndast hefur hér á landi vegna áherslu á tækninýjungar og hátækni í sjávarútveginum er enn eitt atriðið sem byggir undir samkeppnishæfni greinarinnar til framtíðar.

Þema dagsins er samkeppnishæfni. Ég tel að tækifærin til þess að auka samkeppnishæfnina séu sannarlega til staðar. Ég hef nefnt kolefnishlutleysi sem stórt tækifæri fyrir sjávarútveginn. Annað stórt tækifæri eru tæknibreytingar. Þriðja tækifærið er matvælalandið Ísland – en þar er sjávarútvegurinn mikilvægur. Við getum sagt heiminum frá því sem hér er í boði; ferskvara, umhverfisvæn og nýtt á sjálfbæran hátt í auðlindaríku landi.

Kæru gestir.

Að lokum langar mig að minnast á að í gær kynnti sjávarútvegsráðherra nýtt fyrirkomulag veiðigjalda. Markmiðið er gagnsærra og einfaldara fyrirkomulag þar sem álagning miðast við afkomu nær í tíma en nú er gert. Það er eftirtektarvert að smám saman hefur aukin samstaða skapast um það á hinu pólitíska sviði að það sé eðlilegt að þjóðin fái beinan og sýnilegan arð af auðlindinni og þeir sem fái að yrkja þessa sameiginlegu auðlind, sem og aðrar auðlindir, greiði fyrir það gjald. Sömuleiðis tel ég að aukin samstaða hafi skapast um það að það sé eðlilegt að það gjald taki mið af afkomu. Þetta frumvarp mun hins vegar ekki svara öllum álitamálum og þau munu áfram verða fjölmörg þegar kemur að nýtingu sjávarauðlindarinnar og annarra auðlinda. Það er mín von þó að frumvarpið leiði til aukinnar sáttar um gjaldtöku í sjávarútvegi og það er sömuleiðis mitt markmið að á þessu kjörtímabili verði gerðar breytingar á stjórnarskrá sem meðal annars feli í sér ákvæði um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum. Slíkt ákvæði tel ég nauðsynlega undirstöðu þess að skapa hér sátt til framtíðar um nýtingu auðlindanna.

Að lokum við ég segja það að íslenskur sjávarútvegur er ekki aðeins undirstöðuatvinnugrein fyrir íslenskan efnahag. Hann er líka órjúfanlegur þáttur samfélagsins og hefur mótað sjálfsmynd okkar sem þjóðar. Sá grunnur sem við byggjum á í sjávarútvegi er traustur og góður og þið sem hafið byggt upp þessa grein hafið sýnt framsýni og metnað. Um leið eru tækifærin framundan óteljandi ef við höldum vel á spilum, höfum langtímahagsmuni sem okkar leiðarljós og sækjum fram í sátt við umhverfi og samfélag. Ég efast ekki um að það mun verða okkur öllum til heilla.




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta