Ávarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á ráðstefnu um samvinnu í heimilisofbeldismálum - Gerum betur
Ágætu ráðstefnugestir,
Það er ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag, þótt tilefni ráðstefnunnar sé ekki að öllu leyti ánægjulegt. Því auðvitað færi best á því að við þyrftum ekki að halda svona ráðstefnur, þyrftum ekki að efna til vitundarvakningar um heimilisofbeldi. Heimilið á að vera griðastaður, ekki vettvangur ofbeldis og kúgunar. Samt er það svo að hér á Íslandi bárust lögreglu um níu hundruð tilkynningar um heimilisofbeldi á síðasta ári og fjöldi kvenna og barna þurfti að leita ásjár Kvennaathvarfsins.
Og við eigum að heita best í heimi í kynjajafnréttismálum.
Það kann kannski að hljóma undarlega í eyrum einhverra að eitt af markmiðum verkefnis Jafnréttisstofu, undir yfirskriftinni Byggjum brýr, brjótum múra – samvinna í heimilisofbeldismálum, sé að fjölga tilkynningum til lögreglu um heimilisofbeldi. En staðreyndin er sú að við upprætum ekki heimilisofbeldi nema að ná ofbeldismálunum upp á yfirborðið. Aðeins þannig getum við aðstoðað þolendur og komið í veg fyrir að ofbeldið valdi frekari skaða. Og til þess að ná ofbeldinu upp á yfirborðið þurfum við að líta svo á að heimilisofbeldi varði okkur öll og það sé sameiginlegt viðfangsefni okkar að uppræta það. Þess vegna lítum við aldrei undan, við höldum glugganum opnum, eins og lagt var til með yfirskrift tilraunaverkefnis Lögreglunnar á Suðurnesjum á sínum tíma, en það verkefni hefur nú orðið að fyrirmynd fyrir verklag lögreglu í heimilisofbeldi, ekki aðeins hér á landi heldur víða um heim.
Ofbeldi gegn konum er bæði orsök og afleiðing misréttis kynjanna. #églíka eða #metoo bylgjan afhjúpaði, einu sinni enn, kerfisbundna áreitni og misrétti gegn konum í öllum lögum íslensks samfélags. Við þurfum að takast á við kynjamisréttið í öllum sínum birtingarmyndum, innan menntakerfisins, á vinnumarkaði, í almannarýminu, við ákvarðanatöku og almennt í samfélaginu. Og í þessu starfi þurfum við alltaf að huga að því hvaða áhrif fleiri breytur en kyn hafa á misrétti og afleiðingar þess, til að mynda fötlun, uppruni, kynþáttur, kynhneigð, kynvitund, aldur og svo framvegis.
Ég er stolt af því að tilheyra pólitískri hreyfingu, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, sem hefur um langa hríð haft kvenfrelsi sem einn af hornsteinum sinnar stefnu. Þessar áherslur hafa ratað inn í ríkisstjórnarsamstarfið og get ég meðal annars nefnt að aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota hefur verið fjármögnuð að fullu og Istanbúl samningurinn var fullgiltur sl. vor. Stýrihópur á mínum vegum vinnur að heildstæðum úrbótum að því er verðar kynferðislegt og kynbundið ofbeldi en þar á meðal stendur til að taka forvarnarmál föstum tökum og að móta stefnu um stafrænt kynferðisofbeldi. Það er jafnframt mín von að þegar jafnréttismálin verða flutt í forsætisráðuneytið – sem mun gerast nú um áramót – getum við nýtt samhæfingarafl forsætisráðuneytisins til að efla jafnréttismálin enn frekar þannig að öll ráðuneyti og allar stofnanir ríkisins séu meðvitaðar um sinn þátt í að stuðla að jafnrétti, frekar en að viðhalda misréttinu.
Ágætu ráðstefnugestir,
Á ráðstefnunni í dag verður fjallað um það sem vel hefur verið gert í baráttunni gegn heimilisofbeldi, þar á meðal í þjónustu við þolendur og gerendur, en líka það sem betur má fara. Það er löngu tímabært að við aukum þekkingu á eðli og afleiðingum ofbeldis gegn fötluðum konum og konum af erlendum uppruna, svo dæmi séu tekin, og bætum þjónustu við viðkvæma hópa. Í dag verður einnig opnað á samtal sem að mínu mati er afar mikilvægt, það er hvort og þá með hvaða ofbeldi maka getur haldið áfram í gegnum skilnaðar- og forsjármál og hver þáttur ríkisvaldsins er í því, þar á meðal í samhengi við lögbundna sáttameðferð vegna forsjár- og lögheimilismála. Mér finnst rétt að minna á að í langflestum tilfellum næst góð sátt í svona málum og um allt þjóðfélag vinnur fólk vel saman við uppeldi og umönnun barna þrátt fyrir sambandsslit. En það eru engu að síður mál þar sem reynir á og þá þarf að skoða ofan í kjölinn hvernig regluverkið okkar virkar og hvort réttindi og hagsmunir barna séu ekki alltaf í fyrirrúmi. Þetta er viðkvæm umræða en hún er mikilvæg og þess vegna er gott að hún sé hér á dagskrá í dag.
Ég get því miður ekki setið hér í allan dag en ég hef búið svo um hnútana að ég fái af ráðstefnunni fréttir og mun því fylgjast með úr fjarlægð. Ég vil þakka Jafnréttisstofu fyrir hennar frumkvæði og framlag í að byggja upp þetta verkefni um heimilisofbeldi og að sjálfsögðu öllum hennar samstarfsaðilum. Ég hef trú á því að samvinna sé lykillinn að því að gera betur til að uppræta heimilisofbeldi á Íslandi.
Takk fyrir.