Göngum út! - grein eftir Katrínu Jakobsdóttur sem birtist í Fréttablaðinu 24. október 2018
Margt hefur áunnist síðan 1975 þegar konur lögðu niður störf í fyrsta sinn og margar konur af minni kynslóð eiga sinn pólitíska feril undir almennum leikskólum og lögum um fæðingarorlof. Enn er þó langt í land. Ekki hefur tekist að útrýma launamun kynjanna og konur vinna jafnframt stærstan hluta ólaunaðrar vinnu, svo sem við barnauppeldi og heimilisstörf. #églíka bylgjan afhjúpaði kerfisbundið ofbeldi og áreitni sem konur í öllum lögum samfélagsins hafa mátt búa við. Ofbeldi gegn konum er í senn orsök og afleiðing kynjamisréttis og ein orsök þess hversu hægt gengur að byggja upp samfélag jafnréttis.
Samstaða kvenna er áhrifaríkasta baráttutækið til að knýja á um raunverulegar breytingar, því kvenfrelsisbaráttan krefst róttækrar skoðunar á menningu okkar. Ég mun því fara úr vinnunni kl. 14:55 og taka þannig þátt í baráttunni fyrir betri heimi. Til þess að snúa aftur á morgun og halda áfram að vinna að kvenfrelsismálum í mínu starfi.
Kæru konur, leggjum niður launuð og ólaunuð störf í dag og sameinumst á útifundum um allt land. Höldum síðan áfram því þrotlausa starfi að breyta samfélaginu.