Það er hægt að leysa húsnæðisvandann - Grein eftir Katrínu Jakobsdóttur sem birtist í Morgunblaðinu 24. janúar 2019
Það er hægt að leysa húsnæðisvandann
Húsnæðismál hafa lengi verið í eldlínunni í pólitískri umræðu. Braggahverfi Reykjavíkur voru til umræðu í hverjum kosningunum á fætur öðrum um miðbik aldarinnar og á forsíðum blaðanna mátti reglulega lesa fréttir um húsnæðisvandann með stríðsletri. Þessi vandi hefur varað árum og áratugum saman.
Þó að braggahverfin heyri nú sögunni til þá viljum við öll búa við öryggi og fyrirsjáanleika í húsnæðismálum og að þau séu ekki of íþyngjandi. Því miður hafa mörg átt í vanda með að tryggja sér þak yfir höfuðið á undanförnum árum og því undrar engan að úrbætur á húsnæðismarkaði hafa verið ein af aðaláherslum verkalýðshreyfingarinnar.
Átakshópur um húsnæðismál skilaði tillögum sínum í byrjun vikunnar. Tillögurnar eru 40 talsins í sjö flokkum og eru mikilvægt og jákvætt innlegg. Hópurinn var skipaður fulltrúum þriggja ráðuneyta, sveitarfélaga, launafólks á almennum og opinberum vinnumarkaði og atvinnurekenda. Vinna hópsins var umfangsmikil og markmiðið að leggja til fjölbreyttar lausnir á húsnæðisvandanum.
Nú liggur fyrir greining á umfanginu þegar kemur að húsnæðisframboði. Mikil uppbygging íbúðarhúsnæðis er fyrirhuguð á næstu árum og áætlað er að um 10.000 íbúðir verði byggðar á árunum 2019 til 2021. Niðurstöður hópsins eru að eftir muni standa íbúðaþörf upp á um 2000 íbúðir í lok tímabilsins og leggur til leiðir til þess að hægt sé að brúa þetta bil.
Tillögur hópsins til að hraða þessari uppbyggingu eru meðal annars þær að styrkja þurfi grundvöll almenna íbúðakerfisins með áframhaldandi stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og draga þannig úr húsnæðiskostnaði tekjulágs fólks og tryggja um leið betur öruggan húsnæðismarkað. Þá er lagt til að leitað verði eftir samstarfi stéttarfélaga, SA og lífeyrissjóða um fjármögnun húsnæðisfélagsins Blæs.
Fjölgun á hagkvæmum íbúðum á viðráðanlegu verði fyrir tekjulága þannig að dregið verði úr húsnæðiskostnaði og húsnæðisöryggi verði betur tryggt er leiðarljós tillagnanna. Liður í því eru tillögur um að efla vernd leigjenda og tryggja betur réttindi þeirra.
Til þess að hraða uppbyggingu eru lagðar til aðgerðir sem miða að því að stytta byggingartíma. Margar þeirra snúast fyrst og fremst um aukna rafræna stjórnsýslu og að einfalda aðgengi að upplýsingum og gögnum. Slík einföldun á þó ekki að koma niður á gæðum. Aukin áhersla á að halda miðlægt utan um öll gögn, bæði hvað varðar húsnæðismarkaðinn almennt og allt sem lýtur að byggingaframkvæmdum, mun skila betri yfirsýn yfir húsnæðismarkaðinn, einfalda stjórnvöldum ákvarðanir og stefnumótun til lengri tíma, og gera öllum aðilum auðveldara um vik sem tengjast skipulags- og byggingarmálum.
Þá fjallaði hópurinn sérstaklega um samgöngumál í tengslum við uppbyggingu á nýju húsnæði enda mikilvægt að við sköpum ekki nýjan vanda þegar við leysum úr öðrum. Lögð er áhersla á greiðar samgöngur, ekki síst almenningssamgöngur, og að öll uppbygging sé í samhengi við uppbyggingu í samgöngumálum.
Samstaða var um tillögurnar og í þeim felast skýr leiðarljós fyrir ríki, sveitarfélög, samtök launafólks og atvinnurekenda.
Stjórnvöld hafa lýst yfir einbeittum vilja sínum á undanförnum mánuðum til að finna lausnir á því ástandi á húsnæðismarkaði sem hefur ríkt og hefur reynst mörgum þungt. Það hafa heildarsamtök launafólks og samtök atvinnurekenda einnig gert. Öryggi og fyrirsjáanleiki í húsnæðismálum er forgangsmál og það er nauðsynlegt að taka markviss skref til að lækka hlutfall húsnæðiskostnaðar hjá fólki, sérstaklega þeim sem lægri tekjur hafa.
Með niðurstöðum átakshópsins hefur vandinn verið skilgreindur og færar leiðir til úrbóta sömuleiðis. Nú verður vinnunni haldið áfram. Látum þennan vanda ekki verða til umræðu í mörgum kosningum í viðbót eins og braggahverfin voru á sínum tíma. Tökum höndum saman og leysum hann.