Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, á Viðskiptaþingi - 2019
Kæru þátttakendur á Viðskiptaþingi!
Óvissa er þema dagsins í dag. Og við lifum svo sannarlega á óvissu tímum. Ég þarf ekki að tíunda hér óvissuna á alþjóðavettvangi þar sem hið eina fyrirsjáanlega er hið ófyrirsjáanlega. Ég þarf ekki að tíunda óvissuna sem sprettur af tæknibreytingum sem hafa brostið á með meiri hraða en við höfum áður séð. Óvissan vegna loftslagsbreytinga er alltumlykjandi. Skógareldar og þurrkar annars staðar á Norðurlöndum síðasta sumar komu öllum í opna skjöldu. Pólitísk óvissa var orðin eitthvað sem við Íslendingar vorum orðin útlærð í en nú þarf reyndar ekki að hafa áhyggjur af því lengur! Og fyrir ykkur hér sem starfið í íslensku atvinnulífi getur allt þetta valdið aukinni óvissu í ykkar starfi.
Hvert er þá hlutverk leiðtogans á óvissutímum?
Byrjum á byrjuninni. Hvað gerir fólk að leiðtogum? Stundum þarf ekki meira til en að sá sem er viss í sinni sök taki hreinlega að sér leiðtogahlutverkið. Sú sem segir í hópi háskólanema í Kaupmannahöfn: „Það er þessi lest!!”-og teymir allan hópinn upp í lest á leið til Jótlands þegar ætlunin var að fara í miðbæ Kaupmannahafnar. (já, ég játa það var ég). En slíkur leiðtogi endist nú líklega ekki lengi ef hann ætlar alltaf að klára allt á sjálfstraustinu. Nú eða brosinu. Eitt það fyrsta sem ég heyrði þegar ég kom inn á þing var eldri þingkarl sem tilkynnti mér það í fatahenginu að ég skyldi ekki halda það að ég gæti brosað mig í gegnum þetta starf.
Mér er þetta alltaf minnisstætt því að það var vissulega rétt hjá honum að því leytinu til að það endist líklega enginn sem leiðtogi ef hann eða hún tekur aldrei slaginn. En um leið fannst mér þetta neikvætt viðhorf í garð okkar sem gleðjumst jafnvel þó að það gangi ýmislegt á og ekki allt gott.
Þannig að já, leiðtogi þarf að geta tekið slaginn og verið áræðinn þegar taka þarf af skarið (jafnvel þó að maður geti endrum og eins villst upp í rangan lestarvagn). Og hann þarf líka að geta glaðst og smitað þeirri gleði út frá sér til að fá fólkið sitt með sér. En það er ekki nóg. Á óvissutímum þarf leiðtogi að geta hlustað á og skilið raddir samstarfsfólks síns, viðskiptavina, fjárfesta. Fyrir okkur stjórnmálamenn snýst þetta um að hlusta hvert á annað, á kjósendur, á samstarfsfólk okkar í sveitarstjórnum, verkalýðshreyfingu, atvinnulífi og stofnunum.
Þannig að það skiptir máli fyrir leiðtoga að hlusta. Í öðru lagi að leitast eftir því að skilja og þar með hugsa. Í þriðja lagi skiptir líka máli að taka slaginn. En í fjórða og síðasta lagi þarf líka að gleðjast og leyfa sér að vera spenntur yfir framtíðinni.
Fyrir mér er það eitt stærsta verkefni okkar stjórnmálamanna að tryggja að Ísland verði ekki þeirri sundrungu að bráð sem við sjáum í ýmsum samfélögum í kringum okkur. Sundrungu sem skiptir fólki vestan hafs og austan í tvær fylkingar sem ekki skilja hvor aðra og vilja ekki skilja hvor aðra. Sama við hvern maður ræðir um þessi mál; ef við hlustum þá heyrum við sömu söguna, bara með ólíkum blæbrigðum. Fólk sem upplifir sig útundan í samfélaginu bregst við með því að kjósa nýtt upphaf. Eitthvað nýtt sem ber í sér fyrirheit að standa gegn kerfinu sem fólk telur að hafi brugðist.
Ef við hlustum á þessi sjónarmið er mikilvægt að reyna að skilja og hugsa. Einhver kynni að segja að það sé engin hætta á þessu á Íslandi. Hér erum við öll saman. Tekjujöfnuður mestur af öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við, almenn menntun, gott aðgengi að heilbrigðisþjónustu, mikil lýðræðisleg þátttaka. En á tímum þar sem umræðu verður ekki stjórnað, þar sem fleiri hafa fengið rödd, en líka þar sem auðvelt er að dreifa falsfréttum innan um aðrar fréttir, jafnvel í samfélagi þar sem við eigum langa sögu um að treysta hvert öðru, er slík samstaða ekki sjálfgefin.
Það finnum við nú þegar við stöndum frammi fyrir því að gera kjarasamninga þar sem uppi eru ríkar kröfur um að hækka lægstu laun. Viðbrögð atvinnurekenda hafa verið að benda á að efnahagslegt svigrúm sé lítið. Ég geri engan ágreining um að það er mikilvægt að kjarasamningar séu í takti við stöðuna í efnahagslífinu hverju sinni. En á slíkum tímum hljóta stjórnendur í atvinnulífi að vera reiðubúnir að leggja sjálfa sig undir. Að sýna ábyrgð í launastefnu. Að hugsa um heildina, frekar en sig sjálfa.
Ég hlustaði á verkalýðshreyfinguna og atvinnurekendur sem sögðu mér það að kjararáðsfyrirkomulagið gengi ekki. Sem sögðu mér að slíkt fyrirkomulag væri ógagnsætt og eilíf uppspretta átaka um kaup og kjör. Og ég hlustaði. Við settum af stað vinnu, ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins undir óháðum formanni, og fengum tillögu um nýtt fyrirkomulag sem breytir þessu fyrirkomulagi þannig að tryggt er að það er gagnsætt, og við, æðstu embættismenn landsins erum ekki leiðandi í launaþróun. Vegna nýjustu fregna af launaþróun forstjóra opinberra hlutafélaga sýnist mér augljóst að það þarf að skrifa það mun skýrar í starfskjarastefnu hins opinberra til hvers er ætlast í þeim efnum. Reynslan sýnir að stjórnvöld þurfa að taka ábyrgð og gefa mjög skýr fyrirmæli í þessum málum.
Það skiptir máli að hlusta á það sem bæði verkalýðshreyfing og atvinnurekendur hafa sagt í þessum málum. Og það skiptir máli að sýna skilning í verki. Það er ekki í boði að biðja fjöldann að hafa sig hægan. Fólkið á lægstu laununum er ekki eitt að fara að bera ábyrgð á stöðugleikanum. Það er ekki þannig. Þannig að þegar við ræðum um samkeppnishæf laun stjórnenda þá leyfi ég mér að efast um að ekki sé hægt að fylla lausar stöður stjórnenda og forstjóra bæði á almennum og opinberum markaði þó að hóflegri launastefnu sé fylgt í raun. Ef stjórnendur vilja vera leiðtogar þá hlusta þeir ekki aðeins á stjórnvöld heldur líka á samfélag sitt, enda eru þeir hluti af því sama samfélagi. Og þeir sýna skilning með því að sýna ábyrgð og ganga á undan með góðu fordæmi. Annars missa þeir hópinn sinn upp í ranga lest. Og það er ekki gott mál á óvissutímum.
Þetta var um fyrstu tvö atriðin sem ég held að skipti máli fyrir leiðtoga. Að hlusta. Og að skilja. En ég vil líka segja það að við sem viljum tryggja hér áframhaldandi velsæld fyrir landsmenn alla verðum að vera reiðubúin að taka slaginn til að tryggja hana. Hún verður ekki tryggð ef landsmenn fara að upplifa að hér búi tvær þjóðir. Við höfum átt því láni að fagna að við erum öll á sama báti. Við erum saman hér og þar. Í grunnskólanum. Í heilsugæslunni. Í sundlaugunum. Það eru nú kannski ekki margir hér sem taka oft strætó en kannski einhverjir og verða svo miklu fleiri með borgarlínunni, ekki satt. Og spurningin sem við þurfum að spyrja okkur er: Hvaða slag erum við tilbúin að taka til að halda þessum verðmætum sem um leið hafa orðið til þess að Ísland skipar sér í hóp þeirra landa þar sem almenn hagsæld og velferð er hvað mest í heiminum? Ég er tilbúin til að leggja ansi mikið undir til að viðhalda þessu samfélagi þar sem býr aðeins ein þjóð því ég veit að það er mikilvægt fyrir efnahaginn. En ég veit líka að það er bæði réttlátur og réttur slagur að taka.
Og þegar við ræðum samfélagslega ábyrgð atvinnulífsins þá skiptir máli að við séum meðvituð um að hún fjallar ekki um eitthvað eitt. Spáum í eitt.
Hvað haldið þið að séu margir stjórnendur í atvinnulífinu af erlendu bergi brotnir? Hvað haldið þið að séu margir hér inni af erlendu bergi brotnir?
Ég skal segja ykkur hvernig þetta er í Stjórnarráðinu. Það er einmitt þannig að í dag starfar enginn með erlent ríkisfang hjá Stjórnarráði Íslands og sú hefur verið raunin að minnsta kosti undanfarin þrjú ár. Af ársverkum unnum hjá ríkinu í fyrra voru aðeins 3-4% þeirra unnin af fólki með erlent ríkisfang.
Samt eru útlendingar á Íslandi 12,6% prósent og það hlutfall hefur aldrei verið hærra en 2018.
Og íslenskir ríkisborgarar af erlendu bergi brotnir eru 2,3% - rúmlega átta þúsund manns. PISA-könnunin sýnir að börnum með erlendan uppruna líður verr í skóla en börnum sem eru fædd hér og með íslenska foreldra. Mun færri þeirra halda áfram í framhaldsskóla og þá er nærtækt að velta fyrir sér hvaða áhrif þetta hefur á tækifærin í atvinnulífinu í framhaldinu.
Við getum líka velt fyrir okkur hvert hlutverk innflytjenda er almennt innan fyrirtækja og hvaða hlutverkum þau sinna helst. Hvaða möguleika til framgangs í starfi þau hafa og hvort þau tækifæri séu sambærileg þeim sem hér fæðast eru.
Í þessu samhengi verð ég líka að minnast á þá sameiginlegu ábyrgð okkar allra að taka á félagslegum undirboðum á vinnumarkaði. Það er mælikvarði á heilbrigðan vinnumarkað hvernig farið er með launafólk. Ábyrgð stjórnvalda er rík en á sama tíma er þetta samfélagslegt viðfangsefni. Þess vegna er sú sátt sem náðist um aðgerðir í starfshópi félagsmálaráðherra sem skilaði af sér tillögum nýlega algjört lykilatriði. Í hópnum komu saman fulltrúar hins opinbera, atvinnurekenda, verkalýðshreyfingarinnar, lögreglu, eftirlitsstofnana og skattayfirvalda. Ég leyfi mér að vera bjartsýn um að við náum að uppræta þessa meinsemd sem á ekki að líðast í okkar samfélagi með samhentu átaki.
Við viljum nefnilega ekki að hér verði til tvær þjóðir. Við viljum ekki að hér verði til hópar sem eru jaðarsettir í menntakerfinu, jaðarsettir á vinnumarkaði, jaðarsettir í samfélaginu. Viljum við ekki öll hlusta og skilja það sem við höfum séð gerast annars staðar og vinna að því að hér verði áfram eitt samfélag fyrir okkur öll? Er það kannski hluti af samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja? Ég held að samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja snúist um að taka slaginn fyrir samfélagið á miklu breiðari grunni en við erum kannski vön að tala um. Og ég held að þeir leiðtogar sem staddir eru hér inni í dag geti lagt gríðarlega mikið af mörkum í því að tryggja að hér verði áfram samfélag fyrir okkur öll, líka þegar það hver við öll erum er á mikilli hreyfingu. Nýir Íslendingar eru mikilvæg viðbót við okkar samfélag og efnahag og með því að tryggja þeim menntun og fulla þátttöku í atvinnulífinu, gera þeim kleift að nýta hæfileika sína og áhuga og starfsorku, munum við um leið njóta fjölbreyttara atvinnulífs og öflugri efnahags. Þetta er umfangsmikið og mikilvægt verkefni sem við verðum að forgangsraða ekki seinna en núna.
Fyrir rúmum tíu árum varð hér hrun. Ísland hefur náð ótrúlegum árangri í að ná sér á strik, með öflugum hagvexti og mikilli atvinnuþátttöku (atvinnuleysi hefur verið í algjöru lágmarki). Nýjar atvinnugreinar hafa sprottið fram og staða ríkissjóðs er góð í alþjóðlegum samanburði. Skuldir hafa verið greiddar hratt niður en nú hefur hið opinbera ákveðið að auka fjárfestingu sína enda rétti tíminn nú, þegar hægist á hagvexti. Slíkar framkvæmdir tryggja í senn atvinnustig og eru fjárfesting til framtíðar. Hjá okkur eru þó flóknar áskoranir eins og víða annars staðar, kannski þær helstar að gæta þarf að því sveiflur verði ekki of miklar og efnahagslegur og félagslegur stöðugleiki haldist í hendur. Við höfum einstakt tækifæri til að horfa til langs tíma.
Kæru gestir.
Ég stóð hér í fyrra og og grínaði svolítið svo að þið færuð nú ekki alveg á taugum yfir að vinstrimaður væri nú orðinn forsætisráðherra. En þá talaði ég líka um aðrar stórar áskoranir. Tæknibreytingar og loftslagsbreytingar. Og þá er komið að því fjórða sem ég nefndi sem mér finnst skipta máli fyrir leiðtoga.
Það er mikilvægt að leyfa sér að gleðjast og vera spenntur yfir framtíðinni. Við eigum að líta á tæknibreytingar sem stórkostlegt tækifæri sem við getum verið spennt fyrir. Þar þurfum við að hafa markmiðin á hreinu. Að fólkið njóti ávaxtanna af aukinni sjálfvirknivæðingu og að við tryggjum að hún auki ekki ójöfnuð heldur öfugt. Að tæknibreytingar sem þegar hafa gerbreytt samfélagslegri umræðu verði ekki til þess að auka sundrungu og uppnám í opinberri umræðu heldur tryggi það að allir fái að nýta sína rödd og að við hlustum eftir því við mótun samfélagsins. Ef við höldum vel á spilunum, styðjum við menntun þannig að við öll eigum jöfn tækifæri og fjárfestum með markvissum hætti í rannsóknum, þróun og nýsköpun í grænni tækni, getur tæknin þjónað okkur í mikilvægustu verkefnum samtímans, sem er að tryggja öllum velsæld og hagsæld og tryggja jafnvægi samfélags, umhverfis og efnahags.
Tækifærin eru til staðar og ég er spennt fyrir framtíðinni. Og ég get ekki annað en glaðst yfir þeim viðtökum sem aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum hefur fengið frá atvinnulífinu. Ólíkir geirar hafa talað sig saman og sýnt marktækt frumkvæði í því að finna lausnir þannig að saman getum við náð því markmiði að Ísland verði kolefnishlutlaust ekki seinna en árið 2040. Hvort sem litið er til Samtaka iðnaðarins, bænda, sjávarútvegsfyrirtækja, ferðaþjónustu eða nýsköpunar – við erum öll komin á sama spor. Ég hitti sjómann um daginn sem þakkaði mér fyrir að hafa rætt um súrnun sjávar í einhverri ræðunni einhvers staðar. Hann orðaði það svo: Við sem erum úti á sjó, við sjáum þetta gerast og við vitum að það þarf að bregðast við.
Við vitum öll hér að loftslagsbreytingar kalla á við vinnum öll saman. Og við erum komin af stað. Við endurnýjun búvörusamninga við sauðfjárbændur voru í fyrsta sinn eyrnamerktir fjármunir í kolefnisbindingu. Við munum skrifa undir nýjan samstarfsvettvang stjórnvalda og iðnaðarins um framlag Íslands í loftslagsmálum og grænar lausnir á næstunni. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar áttu fund núna nýlega með forsvarsmönnum fernra heildarsamtaka í atvinnulífinu um hvernig má móta matvælastefnu sem rímar við loftslagsstefnu stjórnvalda og að lögð verði áhersla á lýðheilsu, fæðu- og matvælaöryggi. Og samkvæmt öllum skoðanakönnunum færast loftslagsmálin ofar á forgangslista almennings og eru þegar farin að hafa áhrif á hegðun okkar og neysluvenjur.
Ég leyfi mér að gleðjast yfir þessari samheldni sem ég finn í hugum stjórnvalda, atvinnulífs og almennings. Og ég þakka atvinnulífinu fyrir að bregðast vel við. Hér í þessu herbergi eru margir leiðtogar sem munu þurfa að draga þennan vagn til að tryggja að við leggjum okkar af mörkum og tryggjum um leið gott samfélag og efnahag.
Ég sagði hér í upphafi minnar ræðu að það ríkti óvissa um margt í alþjóðlegu samstarfi. En eigi að síður hafa þjóðir heims komið sér saman um mörg mikilvæg markmið sem kalla má leiðarvísi að betri heimi fyrir alla þá sem vilja leiða sitt lið í þá átt. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru einróma samþykkt af aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna árið 2015. Heimsmarkmiðin eru stóra framkvæmdaáætlunin í átt að aukinni sjálfbærni og um leið betri heimi. Með aðild sinni hafa íslensk stjórnvöld skuldbundið sig til þess að vinna að markmiðunum fram til ársins 2030, bæði á innlendum og erlendum vettvangi. Markmiðunum verður hins vegar ekki náð nema við leggjumst öll á eitt og þar gegna fyrirtæki mikilvægu hlutverki.
Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hvernig aðalfyrirlesarar dagsins hafa tengt starf sitt við heimsmarkmiðin. „Mr. Polman and Ms. Keller, I‘m saying how greatly I appreciate how you have included the Sustainable Development Goals in your work. I know you have inspired many.“
Kæru gestir.
Ásta bað mig að segja ykkur eina persónulega sögu hér í dag og sagan átti að vera um hið ógurlega kynngimagnaða ferðalag mitt frá því að vera stigavörður í Gettu betur yfir í það embætti sem ég gegni nú. Ég hef nú eiginlega verið hálf lens yfir þessari spurningu en líklega er svarið það að þetta er nákvæmlega sama manneskjan. Það er að segja að vera sú sem segir alltaf já við öllum áskorunum af því að hún vill prófa þær og vita hvað gerist. Þess vegna hef ég ekki bara verið stigavörður og forsætisráðherra heldur líka ferðast til Búlgaríu til að tala við tuttugu og sjö manns um lýðræði, haldið aðalerindi á ráðstefnu breskra gervigreindarvísindamanna sem ég veit ekki enn af hverju báðu mig að mæta, og verið virkur félagi í Hinu íslenska töframannafélagi án þess að kunna neitt að galdra. Ætli þetta snúist ekki um að segja já – en það er einmitt það sem við þurfum að gera og vera reiðubúin að gera saman til að takast á við þessar stóru áskoranir sem aldrei hafa verið fleiri á óvissutímum. Og ef við erum reiðubúin til þess kemur eitthvað gott út úr því.