Ræða Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, á loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna
Við erum saman komin hér í dag af brýnni nauðsyn. Við velkjumst ekki í neinum vafa um það lengur að við stöndum frammi fyrir neyðarástandi á jörðinni og þess vegna erum við saman komin til að ræða aðgerðir gegn loftslagsvánni.
Við þurfum að bregðast við núna ef við ætlum að tryggja komandi kynslóðum bjarta framtíð. Ef okkur tekst ekki að snúa blaðinu við og tryggja að aðgerðir okkar skili árangri til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda munum við sjá jökla bráðna, kóralrif deyja og regnskóga hverfa. Það eru engar ýkjur að segja að loftslagsváin sé ógn við siðmenninguna.
Auðvitað getur slík umræða valdið ótta. Og ótti leiðir ekki alltaf til góðra ákvarðana. Þess vegna þurfum við von. Því þó að ógnin sé raunveruleg þá eru lausnirnar það líka.
Verður erfitt að komast hjá hamförum? Já. Verður það dýrt? Já. En aðgerðir sem byggjast á skynsemi og vísindum geta haldið kostnaði við aðgerðir gegn loftslagsvánni niðri ásamt því að hafa í för með sér margs konar ávinning fyrir samfélag og efnahag.
Raforka og húshitun á Íslandi byggist alfarið á endurnýjanlegum orkugjöfum. Var sú umbreyting umfangsmikið verkefni? Já. Kostaði hún fjármuni ? Að sjálfsögðu. En við hefðum líklega ekki getað tekið betri ákvörðun fyrir bæði samfélag og efnahag. Ég er sannfærð um að orkuskipti í samgöngum muni skipta sköpum í baráttunni við loftslagsvána og einnig koma samfélaginu okkar til góða.
Á Íslandi eru 95% þess skóglendis sem þakti landið við landnám horfin og sama á við um helming jarðvegarins. En við erum að snúa vörn í sókn. Eyjan okkar er að verða grænni. Ríkisstjórnin hefur ýtt úr vör nýjum verkefnum á þessu ári sem ætlað er að græða landið og binda kolefni úr andrúmsloftinu. Samtímis notum við nýjar tæknilausnir til að dæla koltvísýringi niður í jörðina og umbreytum honum í stein. Lausnirnar eru því til staðar. Ísland hefur sett sér það markmið að verða kolefnishlutlaust árið 2040.
Á heimsvísu þurfum við að gera meira til að græða land, planta trjám og berjast gegn eyðimerkurmyndun. Það þarf að kosta að nota kolefni. Það þarf að hætta að nota skattfé til að niðurgreiða kola- og olíuvinnslu. Það þarf að efla möguleika almennings á að velja græna valkosti og auka grænar fjárfestingar. Við þurfum að styrkja Græna loftslagssjóðinn og þess vegna hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að tvöfalda framlag sitt til hans.
Kæru gestir,
Í síðasta mánuði tók ég þátt í kveðjuathöfn fyrir jökulinn Ok sem nú er horfinn. Margir jöklar eiga eftir að fara sömu leið og Ok.
Skilaboðin frá hverfandi jöklum eru alvarleg viðvörun. En þau mega ekki vekja örvæntingu. Við vitum að mennirnir geta farið til tunglsins ef þeir vilja. Ef mennirnir vilja bjarga jörðinni geta þeir það. En til þess þurfum við von, samvinnu, græna tækni og einbeittan vilja til að segja skilið við mengandi venjur og taka upp nýja siði.
Við þurfum öll að gera betur. Vísindin segja okkur það. Og skilaboð ungu kynslóðarinnar eru skýr. Við höfum enga afsökun fyrir því að bregðast ekki við strax.
Við erum stödd hér í New York til að strengja heit inn í framtíðina. Heit um að standa okkur betur. Setjum raunhæfar grænar lausnir á borðið og lærum hvert af öðru. Vekjum ungu kynslóðinni von um að við ætlum okkur að sigra í þessari baráttu og gleymum því aldrei að allar aðgerðir okkar gegn loftslagsvánni verða um leið að tryggja réttlæti.