Hátíðarræða forsætisráðherra á Skálholtshátíð
Kæru gestir á Skálholtshátíð!
Það er mér mikill heiður að fá að ávarpa ykkur hér á þessum helga stað, Skálholti, sem er flestum öðrum stöðum sögufrægari, stað sem birtist á velflestum Íslandskortum fyrri alda sem miðja landsins.
Að sögn Hungurvöku var það Teitur Ketilbjarnarson sem byggði Skálholt og þar bjó eftir hann Gissur hvíti sem heimildir frá 12. öld og síðar segja að hafa leikið lykilhlutverk í kristnitökunni í kringum árið 1000. Gissur átti soninn Ísleif og það féll í hans hlut að vera vígður fyrstur manna biskup á Íslandi af erkibiskupnum í Hamburg og Bremen árið 1056.
Þá var Skálholt ekki biskupsstóll heldur einungis jörðin þar sem biskupinn bjó fyrir tilviljun og Ísleifur var ekki heldur fyrsti biskupinn á Íslandi samkvæmt miðaldaheimildum sem greina frá því að ýmsir trúboðar og sendiboðar sem kölluðust biskupar hafi verið hér fyrir daga Ísleifs og á dögum hans, margir frá Englandi og Þýskalandi eða sendir af Noregskonungi til að efla tengsl Íslendinga við konunginn. Jafnvel eru til heimildir um ermska biskupa og ein kenning er sú að þeir hafi komið hingað alla leið frá Armeníu. En sagnaritari Hamborgarbiskups, Adam frá Brimum, samtímamaður Ísleifs, taldi að Íslendingar hefðu fljótlega orðið fylgismenn biskupsins sem bjó í Skálholti. Þeir halda biskup sinn fyrir kóng, sagði Adam, og eru honum hlýðnir í einu og öllu.
Aðra sögu sögðu yngri heimildir en sínum augum lítur hver á silfrið og enn í dag erum við ekki endilega sammála um hver séu lykilatriðin í því sem er að gerast á landinu.
Sonur Ísleifs, Gissur Ísleifsson, varð biskup eftir hans dag og það var hann sem gaf kirkjunni Skálholt til eignar. Hún varð þá ekki lengur ættarsetur Haukdæla heldur jörð í eigu kirkjunnar eða staður, eins og það var kallað. Ari fróði, sem skrifaði bók um Íslendinga skömmu eftir lát Gissurar, taldi það jartein eða kraftaverk hvað Íslendingar hefðu verið hlýðnir honum, t.d. þegar þeir tóku upp tíund, almennan skatt til þess að standa undir rekstri íslensku kirkjunnar. Þannig voru fyrstu sagnaritararnir bjartsýnismenn og sammála um það Íslendingar væru góð þjóð, a.m.k. svo lengi sem þeir hlýddu biskupum sínum. Á síðari árum hafa Íslendingar hins vegar alls ekki endilega haft orð á sér fyrir hlýðni – og þess vegna vakti bolurinn Við hlýðum Víði mikla umræðu á samfélagsmiðlum í miðjum heimsfaraldri. Við höfum heldur ekki verið þekkt fyrir að tala vel um valdhafana á hverjum tíma en – sem meiru skiptir – Íslendingar sýna ábyrgð þegar máli skiptir, t.d. þegar heimsfaraldrar skella á okkur.
En aftur að Skálholti. Skálholt hefur frá upphafi byggðar verið miðja valdabaráttu og trúarlegra og hugmyndafræðilegra átaka. Hér réðust Órækja Snorrason og Sturla Þórðarson sagnaritari til atlögu við Gissur Þorvaldsson árið 1242. Sigvarður biskup og prestar reyndu að ganga á milli og koma á sáttum en allt kom fyrir ekki. Þetta var skömmu eftir jól og helltu Gissur og hans fólk vatni á forskálann þannig að hált varð á þekjunni og þó að flestir Órækju-menn hefðu skóbrodda náðu þeir illa fram að ganga. Þetta er bardagatækni sem ég hef reynt að tileinka mér ef ske kynni að setið yrði um Dunhagann þar sem ég bý.
Bardaginn stöðvaðist þegar biskup hleypur upp á mæni söðlahússins þar sem menn Órækju láta grjótdrífuna ganga yfir húsið þannig að grjótið fló beggja vegna höfuðsins og yfir það. Þegar mennirnir þekktu biskupinn létu þeir af grjótkasti og buðu Sturla og Órækja að biskup skyldi einn gera um málið og þáði Gissur þá sætt og sór að halda hana. Gissur reyndist að lokum svikull en ekki er hægt að kenna Skálholtsbiskupi um það, markmið hans var að koma á friði og hann var að gegna hlutverki sem biskupum var ætlað, að koma í veg fyrir að barist væri á helgidögum og á helgum stöðum eins og Skálholti.
Hér sat einnig Jón Gerreksson á 15. öld, danskur prestur af göfugum ættum – frændi hans var enginn annar en Peder Jensen Lodehat sem var biskup í Hróarskeldu en eins og þið heyrið var ætt hans kennd við sérstakan hatt sem sjá má í skjaldarmerki hennar – Jón var menntaður við Kölnarháskóla en hafði gerst brotlegur við skírlífisreglur kirkjunnar og misst erkibiskupssæti í Uppsölum en verið úthlutað Skálholti í staðinn – en það hefur verið túlkað þannig að ætlunin hafi verið að efla áhrif Danakonungs á Íslandi. Þá var sagt að brot Jóns væri alvarlegt en ekki væri mikið í húfi því að íbúar biskupsdæmisins væru nánast villimenn (á latínu: inter gentes quasi barbaras). Jón náði að hagnýta sér það því að hann kom sér upp sveit af ribböldum sem fóru um með yfirgangi og ollu honum strax óvinsældum. Svo lauk að menn hans voru drepnir og hann sjálfur settur í poka og drekkt í Brúará en það hefur verið næsta fágætt bæði á Íslandi og annarstaðar að þannig væri farið með biskupa. Hólabiskup – sem var enskur – aðhafðist ekkert til að gerendunum yrði refsað og raunar hafa verið settar fram kenningar um að þetta hafi verið pólitísk aðgerð til að draga úr áhrifum Danakonungs á landinu.
Á þessum stað voru einnig Jón Arason Hólabiskup og tveir synir hans hálshöggnir 7. nóvember 1550 – með þeim orðum að öxin og jörðin geymdu þá best – afi minn var vanur að fara með þessar ljóðlínur Halldórs Laxness af þessu tilefni: „En flagglaus staung þar fagnar danskri slekt. Menn fundu hvergi trafið hvíta rauða, sem táknar Lúters kristni, kóngsins mekt, og kátast blakti yfir Arasyninum dauða, er búki sviftur saup hann hrim úr stráum, á septimi novembris morgni gráum“. Og á þeim gráa septimi novembris morgni lauk kaþólskum sið á Íslandi uns trúfrelsi kom aftur til landsins með fyrstu stjórnarskránni í ágúst árið 1874. Þá var Skálholt ekki lengur biskupssetur eða miðpunktur landsins. Staðurinn varð sem kunnugt er illa úti í jarðskjálftunum miklu árið 1784 og bar síðan ekki sitt barr fyrr en á 20. öld.
Heldur hefur orðið rórra yfir Skálholti á síðari öldum þó að samtíminn í Skálholti sé ekki átakalaus – eða hver man ekki eftir átökunum um Þorláksbúð sem ég þekki helst til vel sem fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra. Hún er vitaskuld kennd við Þorlák helga sem var fyrsti dýrlingur Íslands og var ansi fjölhæfur, gat læknað augnverki, fundið týndar kindur og bjargað fólki úr sjávarháska jafnvel í öðrum löndum. Eitt sinn prangaði maður blindum sauð á fátækan mann en heilagur Þorlákur gaf sauðnum sýn. Ein af mínum eftirlætisjarteinum Þorláks fjallar um fátækan mann sem týndi „góðum fjötri“. En viti menn, hann hét á heilagan Þorlák og fann blessað reipið.
Nú tengjum við Skálholt ekki lengur við átök heldur þann einstaka frið sem sérhver gestur finnur þegar hann stendur hér á torfunni og hlustar á náttúruna; fuglasöng, árnið, vindinn í grasinu. Skálholt er staður ígrundunar og helgi náttúrunnar þar sem leitast hefur verið við að vinna að mikilvægum verkefnum til að draga úr losun, binda meira kolefni og vernda sköpunarverkið; líffræðilega fjölbreytni. Leiðarljósin eru kærleikur og sáttagjörð, sáttagjörð manns og náttúru.
Stóru verkefnin sem blasa við okkur í samtímanum eru einmitt verkefni sem kalla á kærleika, sáttagjörð og virðingu fyrir sköpunarverkinu. Og hvar er betra að ræða slík mál en einmitt á þessum stað sem geymir þessa blóðugu sögu sem hvíslar til okkar í andvaranum hér í dag? Því að saga Skálholts er saga samfélagsins alls, allt sem gerst hefur í sögu okkar allra hefur líka gerst hér.
Kæru gestir á Skálholtshátíð.
Heimurinn sem við byggjum núna er annar en sá sem Órækja og Gissur og Sturla bjuggu í. Ein veira getur ferðast um heiminn á ógnarhraða og sett samfélög okkar á hliðina. Það er okkur erfitt að geta ekki leyst veirumálið með einföldum hætti – að það sé enn hvorki komið bóluefni eða lyf. Margir ætlast til að vísindin leysi allt þegar, eins og heilagur Þorlákur gat stundum gert samkvæmt jarteinasögum um hann. Sex mánuðir eru stuttur tími í stóra samhengi hlutanna en eigi að síður hefur okkur liðið eins og þessi tími – covid-tíminn – hafi verið endalaus. Þó má geta þess að okkur hér á Íslandi lánaðist að ná fram sóttvarnarmarkmiðum sem flestar þjóðir öfunda okkur af með minni skerðingum á frelsi og réttindum fólks en víðast hvar annars staðar í heiminum þar sem útgöngubann var í gildi mánuðum saman.
En þessi tími minnti okkur á að líf og heilsa er það mikilvægasta sem við eigum – og að maður er manns gaman, það er okkur erfitt að mega ekki umgangast þá sem okkur standa næst. Þessi tími minnti okkur líka á mikilvægi öflugrar heilbrigðisþjónustu í almannaþágu þar sem allir eiga jafnan aðgang. Hann minnti okkur á mikilvægi rannsókna og vísinda og mikilvægi þess að eiga vísindamenn sem eru reiðubúnir að vinna samfélaginu gagn í þágu heilbrigðis þjóðarinnar. Og hann minnti okkur á mikilvægi umhyggjunnar, mikilvægi þess að við hugsum hvert um annað og sýnum hvert öðru umhyggju, ekki aðeins þegar heimsfaraldur geisar heldur alla daga.
Faraldrinum er ekki lokið og veirur geta komið aftur – þær veirur sem þessi er einna skyldust koma reglulega aftur. Við höfum hægt og bítandi lært meira um veiruna og náð betri tökum en þeirri baráttu er engan veginn lokið. Lærdómurinn snýst þó ekki aðeins um veiruna heldur getum við heimfært hann upp á margar aðrar af þeim stóru áskorunum sem við stöndum frammi fyrir.
Kæru gestir!
Sáttagjörð. Friður. Kærleikur.
Um þetta snúast hinar stóru áskoranir. Loftslagsváin þar sem mannlegar athafnir valda því að við erum losa svo mikið kolefni að það getur valdið hamfarahlýnun með tilheyrandi eyðileggingu fyrir jörðina og lífið á henni. Tæknibyltingin þar sem við ferðumst með ógnarhraða inn í nýjan heim þar sem vélar taka æ fleiri ákvarðanir fyrir okkur, jafnvel án þess að við gerum okkur grein fyrir því. Og velsæld og jöfnuður sem verða æ stærri áskorun, ekki síst vegna hinna tveggja sem ég nefndi hér áðan.
Í öllum þessum málum takast á skammtímasjónarmið og langtímasjónarmið. Það virðist stundum góð lausn ýmsum vanda að kaupa sér stundargleði og staldra aldrei við. Við krefjumst snöggra lausna á öllum okkar vanda og vonbrigðin eru mikil þegar svarið kemur ekki strax. Sjálf lenti ég í því óláni að meiða mig á dögunum. Ekki uppgötvaðist strax hvað hrjáði mig en mikil voru vonbrigði mín þegar mér var tjáð að ekkert væri í stöðunni annað en að hvíla mig og bíða róleg eftir að beinið greri. Ég tjáði lækninum að ýmislegt annað hefði staðið til á þessum tíma og hvort ekki væri til einhver skyndilausn. Svarið var nei og ég neyddist því til að fara í annað sumarfrí en ég ætlaði. Skemmst er þó frá því að segja að enginn í fjölskyldunni kvartaði undan þessum rólegheitum.
Getum við dregið lærdóm af líkama okkar og horft til annarra áskorana með sama hugarfari?
Þegar covid-19 stóð sem hæst vorum við neydd til að lifa lífinu hægar. Umferðin minnkaði. Útblástur dróst saman. Það hægðist á efnahagskerfinu sem knýr allt samfélag okkar og það hægðist aðeins á lífinu. Um leið og við fögnuðum ótæpilega þegar við máttum aftur faðmast og kyssast höfðum við öðlast nýja vitneskju. Vitneskjuna um að það er hægt að lifa hægar. Vitneskjuna um að allt það sem við gerum venjulega er ekki sjálfgefið. Vitneskjuna um að lífið er meira en bara að gera – það er líka að vera.
Það bera sig allir vel – varð lag faraldursins. Allt í góðu inni hjá mér, þótt úti séu stormur og él, söng Helgi Björnsson, og miðlaði þannig innri frið til landsmanna. Því inni hjá mér snýst ekki bara um híbýli manns heldur hjarta manns.
En covid-19 hefur varpað ljósi á fleira. Víða um heim afhjúpaðist stéttskipting og misrétti sem um leið gerði samfélög veikari til að takast á við faraldurinn sem heild. Það sýnir svo ekki verður um villst að jöfnuður – til dæmis aðgengi fyrir okkur öll að heilbrigðisþjónustu – er í senn réttlætismál en líka skynsamlegasta leiðin fyrir heildina, jafnaðarsamfélög eru þau samfélög þar sem hagsæld er mest og eiga best með að takast á við áföll á borð við faraldurinn og aðrar stórar áskoranir. Jöfnuður er undirstaða friðar og sátta í hverju samfélagi. Þess vegna þurfa aðgerðir okkar til að reisa íslenskt efnahagslíf við eftir faraldurinn að miðast að því að tryggja jöfnuð og félagslegt réttlæti. Stór hluti af þeim aðgerðum munu snúast um að skapa störf, verja störf og tryggja þannig afkomu fólks og lífsviðurværi.
Ég get nefnt tvö önnur dæmi til viðbótar við heilbrigði þjóða og undanfarið hafa íslensk stjórnvöld beint sjónum sínum mjög að báðum en það eru fjórða iðnbylting og loftslagsváin.
Tæknin er að breyta því hvernig við tölum saman, breyta því um hvað við hugsum, hvernig við tökum ákvarðanir. Tæknin hefur breytt stríðsrekstri og gert hann fjarlægari. Stríðsmenn samtímans fara ekki á skóbroddum upp húsþakið hér í Skálholti til að grýta okkur – þeim nægir að stýra dróna, jafnvel frá öðru landi, þannig að stríðið verður meira eins og tölvuleikur fyrir þann sem býr yfir tækninni. Ekki þó fyrir fórnarlömbin sem aldrei sjá árásarmanninn en lifa ómældar þjáningar.
Flókin algrím stýra auglýsingunum sem við sjáum á netinu, koma með tillögur að næstu sjónvarpsþáttaröð eða næsta hlaðvarpi og hafa vaxandi áhrif á skoðanir okkar og viðhorf. Algrím stjórna því hvernig konum og körlum og öðrum kynjum maður kynnist á samskiptaforritum og hafa vaxandi áhrif á það hvaða vini maður eignast og hvernig maka. Við sjáum og heyrum fyrst og fremst þá sem eru sammála okkur á samfélagsmiðlum og erum steinhissa þegar í ljós kemur að stór hluti þjóðarinnar er ósammála. Þannig dýpkar gjáin á milli ólíkra hópa – í staðinn fyrir að tæknin auki skilning manna á milli getur hún dregið úr honum.
Tæknin er góður þjónn en afleitur húsbóndi. Þess vegna hefur aldrei verið mikilvægara en nú að við tökum völdin af tækninni. Því tæknin er komin til að vera. Það gerum við með aukinni menntun, fræðslu og rannsóknum og með því að efna til raunverulegrar umræðu um þau siðferðilegu gildi sem við viljum hafa að leiðarljósi á þessari tækniöld. Fyrir skömmu var lokið við gerð aðgerðaáætlunar um fjórðu iðnbyltinguna. Þar er ein lykilaðgerð að móta stefnu í málefnum gervigreindar. Við Íslendingar höfum markað okkur þá stefnu nú þegar að vera á móti sjálfstýrðum vopnum með gervigreind. En hvaða stefnu ætlum við að marka okkur hvað varðar lækningar með gervigreind? Eða umhyggju með aðstoð vélmenna – segjum á hjúkrunarheimilum? Þarna blasa stórar spurningar við okkur.
Tæknin setur einnig fram nýjar áskoranir hvað varðar jöfnuð og velsæld. Aukin sjálfvirknivæðing getur stytt vinnutíma og skapað aukin verðmæti og aukna velsæld allra. Hún getur líka orðið til að auka ójöfnuð. Skapað stjarnfræðilegan gróða fyrir handhafa tækni og þekkingar eins og sjá má nú þegar hjá eigendum stærstu tæknifyrirtækja í heimi og aukið enn á bilið milli þeirra sem ráða tækninni og þeirra sem eingöngu þiggja.
Þarna þurfum við að efla vald hins almenna borgara yfir tækninni og tryggja að við sem einstaklingar og við sem samfélag tökum stjórn á tækninni og hún nýtist okkur öllum. Við þurfum að gæta að því að jöfnuður sé okkar leiðarljós inn í fjórðu iðnbyltinguna og þá munu þessar tæknibreytingar geta orðið til góðs.
Jöfnuður þarf líka að vera hluti allra aðgerða okkar til að takast á við loftslagsvána. Við vitum að hún mun koma harðast niður á fátækari þjóðum og einmitt þess vegna þarf rík þjóð eins og Ísland að leggja sitt af mörkum. Við kynntum nýlega uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og erum sannfærð um að við munum ekki aðeins ná að standa við skuldbindingar okkar samkvæmt Parísarsamkomulaginu heldur gott betur. Sömuleiðis munum við ná markmiðum okkar um að kolefnishlutlaust samfélag eigi síðar en 2040. Þar veit ég að kirkjan er að leggja sitt af mörkum með því að gróðursetja skírnarskóga. Þá er spennandi verkefni framundan sem snýst um alþjóðlegt samstarf kirkjudeilda gegn loftslagsvánni – samstarf sem byggist á virðingu fyrir sköpunarverkinu sem við sjáum að hefur látið á sjá vegna taumlausrar nýtingar á náttúrunni sem mun hafa hrikalegar afleiðingar fyrir vistkerfi jarðar og mannkynið ef ekki verður tekið í tauma og nýjar brautir fetaðar, brautir þar sem við hugum að jafnvægi umhverfis, samfélags og efnahags og byggjum sjálfbært samfélag. Og þar skiptir máli að við stefnum um leið að jöfnuði, að við tryggjum velsæld og lífsgæði allra og tryggjum þannig frið og sátt – fyrir okkur öll.
Kæru gestir.
Allir stjórnmálamenn og raunar allir sem taka þátt í samfélagsumræðu verðum að einbeita okkur að framtíðaráskorunum samfélagsins. Stjórnmálaumræða samtímans snýst of sjaldan um langtímamarkmið eða framtíðaráskoranir, heldur snýst hún um málefni dagsins, stundum örsmá og léttvæg, að hafa skoðun á öllu, stóru og smáu, og þá helst að fá sem flest hjörtu eða uppréttan fingur á hinum ólíku samfélagsmiðlum. Þar snýst umræðan meira um að sýna sig en að gera – setja stöðuuppfærslu um hvað manni finnst og geta svo gengið út með góða samvisku og liðið vel yfir því að hafa sagt rétta hlutinn.
Auðvitað þarf að fjalla um málefni dagsins – en fyrir almenning skiptir ekki minna máli að hafa skýra framtíðarsýn og vinna þau verk sem þarf til að samfélagið allt geti blómstrað. Í þeim efnum líður okkur eins og við séum komin langan veg frá Sturlungaöldinni sem ég ræddi hér í upphafi en verum meðvituð um að auðveldara getur verið að glutra niður friði og sátt en byggja hana upp. Víða um heim sjáum við einmitt þjóðarleiðtoga sem virðist meira í mun að sundra en að byggja upp sátt og þá verður friðurinn rofinn. Einmitt þess vegna er svo mikilvægt að friður, kærleikur og sáttagjörð – sem byggja á réttlæti og jöfnum tækifærum fyrir okkur öll – séu leiðarljós okkar í öllum okkar verkum, ekki síst þegar við tökumst á við stórar áskoranir.