Hoppa yfir valmynd
08. mars 2021 ForsætisráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir

Fullt jafnrétti, betra samfélag - grein eftir Katrínu Jakobsdóttur sem birtist í Morgunblaðinu 8. mars 2021

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna fögnum við þeim árangri í jafnréttismálum sem náðst hefur þökk sé kvennahreyfingunum sem á undan okkur fóru. Ég man eftir baráttukonum úr barnæsku minni, konum sem mynduðu grasrótarhreyfingar og börðust fyrir réttindum sem okkur þykja nú sjálfsögð  en voru það svo sannarlega ekki þá. Breytingar sem kvennahreyfingar síðustu áratuga hafa náð í gegn hafa bæði haft áhrif á gildismat og samfélagsgerðina á Íslandi til framtíðar.

Við stöndum um þessar mundir á tímamótum í jafnréttisbaráttunni, hér heima og á alþjóðavísu. Eftir langt framfaraskeið stöndum við frammi fyrir alvarlegu bakslagi í jafnréttismálum. Þótt það hafi enn sem komið er ekki birst með sama hætti hér á Íslandi og víða um heim verðum við að taka það alvarlega og leggja okkar af mörkum í að vinna gegn því.  Aukning á kynbundnu ofbeldi um allan heim er staðreynd, sjálfsákvörðunarrétti kvenna yfir eigin líkama er víða ógnað og heimsfaraldur Covid-19 hefur haft alvarleg áhrif þar sem konur og stúlkur komast síður til vinnu og skóla vegna faraldursins og hin ólaunuðu störf eins og umönnun, menntun barna og önnur heimilisstörf lenda frekar á herðum kvenna.

Að auki erum við stödd í miðju samfélagslegu umbreytingarferli sem við sjáum ekki fyrir endann á vegna tæknibyltingarinnar og loftslagsvárinnar. Það er ljóst að þessar breytingar hafa ólík áhrif á kynin og nýjar áskoranir sem við munum þurfa að takast á við út frá jafnréttissjónarmiðum bíða okkar þótt við sjáum þær ekki allar fyrir núna.

Þegar ég tala um jafnréttismál á erlendri grundu er ég iðulega spurð hvort það sé ekki dásamlegt að búa í jafnréttisparadísinni Íslandi sem skorar jafnan hæst samkvæmt alþjóðlegum stöðlum um kynjajafnrétti. Ég svara því jafnan til að það segi sína sögu um stöðu jafnréttis í heiminum að meira að segja á Íslandi, landi sem skorar hæst í jafnrétti samkvæmt umræddum stöðlum, sé enn verk að vinna. Og í réttindabaráttu má aldrei slaka á. Ekki í heimsfaraldri og ekki heldur þegar vel viðrar.

Kerfisbreytingar og löggjöf skipta miklu þegar sækja á fram í kynjajafnrétti. Þegar ég lít yfir kjörtímabil þessarar ríkisstjórnar er ég stolt af árangrinum sem náðst hefur í jafnréttismálum. Alþingi samþykkti í fyrra fyrstu heildstæðu stefnuna um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni hér á landi ásamt áætlun fyrir árin 2021 – 2025 sem er fullfjármögnuð. Þá hafa mörg mikilvæg lagafrumvörp í jafnréttismálum verið samþykkt.

Heildarendurskoðun jafnréttislaga var samþykkt og þar vil ég sérstaklega benda á mikilvægt ákvæði um bann við fjölþættri mismunun, en slíkt ákvæði styrkir stöðu ýmissa hópa, til að mynda kvenna með fötlun og kvenna af erlendum uppruna.  Þá voru sett lög um kynrænt sjálfræði sem færir Ísland aftur í fremstu röð ríkja hvað varðar réttindi hinsegin fólks. Þar er réttur fólks til kynhlutlausrar skráningar tryggður sem og réttindi transfólks og barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni.Ný lög voru sett um þungunarrof sem tryggja sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama og fæðingarorlof var lengt sem er risastórt jafnréttismál.

Ísland var  jafnframt valið sem eitt af forysturíkjum nýs átaksverkefnis á vegum UN Women sem ber heitið Kynslóð jafnréttis og þar höfum við dýrmætt tækifæri til að leggja okkar af mörkum. Verkefnið er það stærsta sem UN Women hefur staðið fyrir til þessa, nær til næstu fimm ára og samræmist heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun fyrir 2030 en þar er Ísland eitt af forysturíkjum bandalags um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi.

Framundan eru stór verkefni í jafnréttismálum en til allrar hamingju eigum við bæði öflugt baráttufólk og sterkar fyrirmyndir. Saman höldum við áfram að berjast fyrir breyttu gildismati, varanlegri samfélagsbreytingu, fullu jafnrétti, betra samfélagi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta