Markvissar aðgerðir skila árangri - grein eftir Katrínu Jakobsdóttur sem birtist í Kjarnanum 17. mars 2021
Um þessar mundir er ár liðið frá því að samkomutakmarkanir voru settar á Íslandi í fyrsta sinn í lýðveldissögunni til að vernda líf og heilsu landsmanna gegn heimsfaraldri kórónuveirunnar. Í kjölfarið kynnti ríkisstjórnin fyrstu aðgerðir sínar til að skapa samfélagslega viðspyrnu við þeim efnahagslegu áhrifum sem fylgdu óhjákvæmilega í kjölfar faraldursins.
Skyggnið var ekki sérlega gott á þeim tíma en við ákváðum að stíga strax fast til jarðar, gera heldur meira en minna. Nú ári síðar er tímabært að staldra við og líta í baksýnisspegilinn áður en við höldum áfram í því verkefni að koma Íslandi áfram, út úr kófinu.
Staðan sem blasir við er að aðgerðir stjórnvalda hafa skilað árangri og margt hefur unnið með okkur sem skilar því að horfur eru bjartari en nokkur þorði að spá – eða vona. Það er gott að sjá þetta staðfest í nýjum þjóðhagsreikningum Hagstofunnar fyrir síðasta ár. Samdráttur landsframleiðslu í fyrra reyndist ekki jafn mikill og spár gerðu ráð fyrir – en þær gerðu ráð fyrir 7,1% til 8,5% samdrætti – og reyndar mátti sjá enn dekkri mynd í sviðsmyndagreiningum ólíkra aðila. Niðurstaðan varð 6,6% samdráttur. Viðbrögð stjórnvalda og Seðlabankans hafa reynst vel og orðið til þess að útkoman varð þessi á mjög krefjandi tímum.
Hvað hefur verið gert?
Á þessu ári hefur stefnumótun í ríkisfjármálum og peningastefna Seðlabankans unnið vel saman. Seðlabankinn hefur lækkað vexti og haldið þeim lágum ásamt því að auka svigrúm fjármálafyrirtækjanna til að takast á við erfiða stöðu fólks og fyrirtækja. Ríkisstjórnin hefur gengið lengra en áður hefur verið gert í að styðja við heimili og fyrirtæki með beinum fjárframlögum. Þar má nefna um 24 milljarða sem nýttir hafa verið til að tryggja tekjur og verja atvinnu meira en 30 þúsund manns með hlutabótum og draga þannig úr skaðlegum áhrifum atvinnuleysis.
Þegar ljóst varð að faraldurinn myndi dragast á langinn og að þau fyrirtæki sem orðið hefðu fyrir þyngsta högginu gætu ekki viðhaldið starfsemi sinni greiddi ríkissjóður um 10 milljarða vegna greiðslu launa á uppsagnarfresti. Því úrræði var ætlað að tryggja launafólki full réttindi sín; að fólk fengi greidd laun í uppsagnarfresti til að ógna ekki lífsafkomu þeirra auk þess að styrkja stöðu fyrirtækjanna til að geta spyrnt aftur við þegar áhrif faraldursins dvína.
Fyrirtækin hafa getað frestað skattgreiðslum fyrir um 20 milljarða og átt möguleika á stuðningslánum með ríkisábyrgð. Greiddir hafa verið lokunarstyrkir til þeirra fyrirtækja sem gert hefur verið að loka vegna sóttvarnaráðstafana. Þá voru kynntir í haust tekjufallsstyrkir til að mæta þeim fyrirtækjum sem orðið hafa fyrir miklu tekjufalli til þess að greiða laun og halda starfsemi sinni gangandi. Aðeins nú í janúar og febrúar fengu lítil og meðalstór fyrirtæki hátt í 10 milljarða í tekjufallsstyrki. Nú hafa viðspyrnustyrkir tekið við. Við leggjum áherslu á að umsóknir um þá verði afgreiddar fljótt og vel en gert er ráð fyrir allt að 20 milljörðum í þá styrki.
Langstærstur hluti aðgerða stjórnvalda hefur nýst litlum og meðalstórum fyrirtækjum en 97% íslenskra fyrirtækja eru með færri en 50 starfsmenn.
Vinnumarkaðurinn
Atvinnuleysið er stærsta og mikilvægasta viðfangsefni okkar í þessari kreppu. Við höfum gripið til margþættra aðgerða til að styðja við þau sem misst hafa vinnuna. Hlutastarfaleiðin hefur þar vegið þyngst eins og áður var nefnt. Á kjörtímabilinu hefur ríkisstjórnin hækkað atvinnuleysisbætur um 35%. Vegna heimsfaraldurs var tímabil tekjutengdra bóta lengt úr þremur mánuðum í sex og stuðningur við atvinnuleitendur með börn á framfæri var aukinn. Þá höfum við beint stuðningi sérstaklega til félagslegra verkefna og málaflokka til að geta tekist á við afleiðingar faraldursins og tryggt þjónustu og stuðning til viðkvæmra hópa.
Í liðinni viku kynnti ríkisstjórnin svo frekari úrræði til að vinna gegn atvinnuleysinu sem byggjast á þeirri skýru sýn að atvinnuleysi megi ekki verða langtímaböl í samfélagi okkar. Besta leiðin til þess er að styðja við fjölgun starfa og stuðla að því að fólk fái tækifæri til þess að komast aftur á vinnumarkaðinn. Það gerum við undir yfirskriftinni Hefjum störf með hærri og víðtækari ráðningarstyrkjum sem geta skapað allt að 7.000 tímabundin störf. Þannig hvetjum við lítil og meðalstór fyrirtæki, sveitarfélög, opinberar stofnanir og frjáls félagasamtök til að fjölga störfum – hraðar en ella – og ráða í þau fólk af atvinnuleysisskrá. Víða eru ærin verkefni sem þarf að sinna og þarna gefst tækifæri til þess ásamt því að styðja við viðspyrnu efnahagslífsins.
Útvíkkaðir ráðningarstyrkir verða mikilvægur liður í endurreisninni, ásamt auknum krafti í hefðbundnum fjárfestingarverkefnum og aukinni fjárfestingu í rannsóknum, nýsköpun, loftslagstengdum verkefnum og skapandi greinum. Mikil aukning hefur verið í fjárfestingu ríkisins á kjörtímabilinu og við gerum ráð fyrir tæplega 20% vexti í opinberri fjárfestingu árið 2021. Á sama tíma trúum við því að ferðaþjónustan muni hægt og bítandi rétta úr kútnum eftir það áfall sem greinin hefur orðið fyrir í heimsfaraldrinum. Þannig mun þetta allt hjálpast að til að þoka Íslandi áfram á réttri braut.
Sterkt samfélag
Ein stærsta ákvörðunin í viðbrögðum stjórnvalda við þessari kreppu var að verja velferðina og grunnstoðirnar. Þannig nýttum við ríkissjóð af fullum þunga á sama tíma og hinir sjálfvirku sveiflujafnarar (sem birtast í auknum útgjöldum atvinnuleysistrygginga og lægri skatttekjum) virka eins og við höfum ákveðið að þeir ættu að gera. Það er ekki tilviljun að þeir séu svona sterkir hér á landi – þeir eru órjúfanlegur hluti okkar samfélagsgerðar. Halli ríkissjóðs er umfangsmikill vegna þess að við tókum við þá pólitísku ákvörðun að fara ekki eingöngu í sértækar stuðningsaðgerðir heldur verja alla samfélagslega innviði; að beita ekki niðurskurði heldur verja velferðina og afkomu fólks og tryggja þannig að áfram verði jöfnuður mikill á Íslandi. Þessi samfélagsgerð hefur sannað gildi sitt í heimsfaraldri: Öflugt heilbrigðiskerfi, þar sem við öll eigum jafnan aðgang, öflugt menntakerfi sem hefur skilað öflugum rannsóknum og nýsköpun og öflugt félagslegt kerfi sem styður fólk í gegnum erfiða tíma. Þannig samfélag eigum við nú og þannig samfélag viljum við hafa og styrkja enn betur til framtíðar – samfélag fyrir okkur öll.
Höfundur er forsætisráðherra.