Hoppa yfir valmynd
17. mars 2021 ForsætisráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir

Markvissar aðgerðir skila árangri - grein eftir Katrínu Jakobsdóttur sem birtist í Kjarnanum 17. mars 2021

Um þessar mundir er ár liðið frá því að sam­komu­tak­mark­anir voru settar á Íslandi í fyrsta sinn í lýð­veld­is­sög­unni til að vernda líf og heilsu lands­manna gegn heims­far­aldri kórónuveirunn­ar. Í kjöl­farið kynnti rík­is­stjórnin fyrstu aðgerðir sínar til að skapa samfélagslega viðspyrnu við þeim efna­hags­legu áhrifum sem fylgdu óhjá­kvæmi­lega í kjöl­far farald­urs­ins. 

Skyggnið var ekki sér­lega gott á þeim tíma en við ákváðum að stíga strax fast til jarð­ar, gera heldur meira en minna. Nú ári síðar er tíma­bært að staldra við og líta í bak­sýn­is­speg­il­inn áður en við höldum áfram í því verk­efni að koma Íslandi áfram, út úr kóf­inu.

Staðan sem blasir við er að aðgerðir stjórn­valda hafa skilað árangri og margt hefur unnið með okkur sem skilar því að horfur eru bjart­ari en nokkur þorði að spá – eða vona. Það er gott að sjá þetta stað­fest í nýjum þjóð­hags­reikn­ingum Hag­stof­unnar fyrir síð­asta ár. Samdráttur lands­fram­leiðslu í fyrra reynd­ist ekki jafn mik­ill og spár gerðu ráð fyrir – en þær gerðu ráð fyrir 7,1% til 8,5% sam­drætti – og reyndar mátti sjá enn dekkri mynd í sviðsmynda­grein­ingum ólíkra aðila. Nið­ur­staðan varð 6,6% sam­drátt­ur. Við­brögð stjórn­valda og Seðla­bank­ans hafa reynst vel og orðið til þess að útkoman varð þessi á mjög krefj­andi tím­um. 

Hvað hefur verið gert?

Á þessu ári hefur stefnu­mótun í rík­is­fjár­málum og pen­inga­stefna Seðla­bank­ans unnið vel sam­an. Seðla­bank­inn hefur lækkað vexti og haldið þeim lágum ásamt því að auka svig­rúm fjár­mála­fyr­ir­tækj­anna til að takast á við erf­iða stöðu fólks og fyr­ir­tækja. Rík­is­stjórnin hefur gengið lengra en áður hefur verið gert í að styðja við heim­ili og fyr­ir­tæki með beinum fjárfram­lög­um. Þar má nefna um 24 millj­arða sem nýttir hafa verið til að tryggja tekjur og verja atvinnu meira en 30 þús­und manns með hluta­bótum og draga þannig úr skað­legum áhrifum atvinnu­leys­is. 

Þegar ljóst varð að far­ald­ur­inn myndi drag­ast á lang­inn og að þau fyr­ir­tæki sem orðið hefðu fyrir þyngsta högg­inu gætu ekki við­haldið starf­semi sinni greiddi rík­is­sjóður um 10 millj­arða vegna greiðslu launa á upp­sagn­ar­fresti. Því úrræði var ætlað að tryggja launa­fólki full réttindi sín; að fólk fengi greidd laun í upp­sagn­ar­fresti til að ógna ekki lífs­af­komu þeirra auk þess að styrkja stöðu fyr­ir­tækj­anna til að geta spyrnt aftur við þegar áhrif far­ald­urs­ins dvína.

Fyrirtækin hafa getað frestað skatt­greiðslum fyrir um 20 millj­arða og átt mögu­leika á stuðnings­lánum með rík­is­á­byrgð. Greiddir hafa verið lok­un­ar­styrkir til þeirra fyr­ir­tækja sem gert hefur verið að loka vegna sótt­varna­ráð­staf­ana. Þá voru kynntir í haust tekju­falls­styrkir til að mæta þeim fyr­ir­tækjum sem orðið hafa fyrir miklu tekju­falli til þess að greiða laun og halda starf­semi sinni gang­andi. Aðeins nú í jan­úar og febr­úar fengu lítil og með­al­stór fyrirtæki hátt í 10 millj­arða í tekju­falls­styrki. Nú hafa við­spyrnu­styrkir tekið við. Við leggjum áherslu á að umsóknir um þá verði afgreiddar fljótt og vel en gert er ráð fyrir allt að 20 millj­örðum í þá styrki. 

Langstærstur hluti aðgerða stjórn­valda hefur nýst litlum og með­al­stórum fyr­ir­tækjum en 97% íslenskra fyr­ir­tækja eru með færri en 50 starfs­menn. 

Vinnu­mark­að­ur­inn

Atvinnu­leysið er stærsta og mik­il­væg­asta við­fangs­efni okkar í þess­ari kreppu. Við höfum gripið til marg­þættra aðgerða til að styðja við þau sem misst hafa vinn­una. Hluta­starfa­leiðin hefur þar vegið þyngst eins og áður var nefnt. Á kjör­tíma­bil­inu hefur rík­is­stjórnin hækkað atvinnu­leys­is­bætur um 35%. Vegna heims­far­ald­urs var tíma­bil tekju­tengdra bóta lengt úr þremur mán­uðum í sex og stuðn­ingur við atvinnu­leit­endur með börn á fram­færi var auk­inn. Þá höfum við beint stuðn­ingi sér­stak­lega til félags­legra verk­efna og mála­flokka til að geta tek­ist á við afleið­ingar far­ald­urs­ins og tryggt þjón­ustu og stuðn­ing til við­kvæmra hópa.

Í lið­inni viku kynnti rík­is­stjórnin svo frek­ari úrræði til að vinna gegn atvinnu­leys­inu sem byggj­ast á þeirri skýru sýn að atvinnu­leysi megi ekki verða lang­tíma­böl í sam­fé­lagi okk­ar. Besta leiðin til þess er að styðja við fjölgun starfa og stuðla að því að fólk fái tæki­færi til þess að kom­ast aftur á vinnu­mark­að­inn. Það gerum við undir yfir­skrift­inni Hefjum störf með hærri og víð­tæk­ari ráðn­ing­ar­styrkjum sem geta skapað allt að 7.000 tíma­bundin störf. Þannig hvetjum við lítil og með­al­stór fyr­ir­tæki, sveit­ar­fé­lög, opin­berar stofn­anir og frjáls félagasamtök til að fjölga störfum – hraðar en ella – og ráða í þau fólk af atvinnu­leys­is­skrá. Víða eru ærin verk­efni sem þarf að sinna og þarna gefst tæki­færi til þess ásamt því að styðja við viðspyrnu efna­hags­lífs­ins. 

Útvíkk­aðir ráðn­ing­ar­styrkir verða mik­il­vægur liður í end­ur­reisn­inni, ásamt auknum krafti í hefð­bundnum fjár­fest­ing­ar­verk­efnum og auk­inni fjár­fest­ingu í rann­sókn­um, nýsköp­un, loftslagstengdum verk­efnum og skap­andi grein­um. Mikil aukn­ing hefur verið í fjár­fest­ingu ríkisins á kjör­tíma­bil­inu og við gerum ráð fyrir tæp­lega 20% vexti í opin­berri fjár­fest­ingu árið 2021. Á sama tíma trúum við því að ferða­þjón­ustan muni hægt og bít­andi rétta úr kútnum eftir það áfall sem greinin hefur orðið fyrir í heims­far­aldr­in­um. Þannig mun þetta allt hjálp­ast að til að þoka Íslandi áfram á réttri braut. 

Sterkt sam­fé­lag

Ein stærsta ákvörð­unin í við­brögðum stjórn­valda við þess­ari kreppu var að verja vel­ferð­ina og grunn­stoð­irn­ar. Þannig nýttum við rík­is­sjóð af fullum þunga á sama tíma og hinir sjálfvirku sveiflu­jafn­arar (sem birt­ast í auknum útgjöldum atvinnu­leys­is­trygg­inga og lægri skatt­tekj­um) virka eins og við höfum ákveðið að þeir ættu að gera. Það er ekki til­viljun að þeir séu svona sterkir hér á landi – þeir eru órjúf­an­legur hluti okkar sam­fé­lags­gerð­ar. Halli rík­is­sjóðs er umfangs­mik­ill ­vegna þess að við tókum við þá póli­tísku ákvörðun að fara ekki ein­göngu í sér­tækar stuðn­ings­að­gerðir heldur verja alla sam­fé­lags­lega inn­viði; að beita ekki nið­ur­skurði heldur verja vel­ferð­ina og afkomu fólks og tryggja þannig að áfram verði jöfnuður mik­ill á Íslandi. Þessi sam­fé­lags­gerð hefur sannað gildi sitt í heims­far­aldri: Öfl­ugt heil­brigð­is­kerfi, þar sem við öll eigum jafnan aðgang, öfl­ugt mennta­kerfi sem hefur skilað öfl­ugum rann­sóknum og nýsköpun og öfl­ugt félags­legt kerfi sem styður fólk í gegnum erf­iða tíma. Þannig sam­fé­lag eigum við nú og þannig sam­fé­lag viljum við hafa og styrkja enn betur til fram­tíðar – sam­fé­lag fyrir okkur öll.

Höf­undur er for­sæt­is­ráð­herra.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta