Gervigreind á erindi við okkur öll - grein forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra í Morgunblaðinu 20. apríl 2021
Við erum stödd í miðri tæknibyltingu sem hefur áhrif á nánast allt daglegt líf okkar og störf. Ríkisstjórnin setti sér það markmið strax í upphafi kjörtímabilsins að íslenskt samfélag yrði vel í stakk búið til að nýta þau tækifæri og mæta þeim áskorunum sem felast í hinni margumræddu fjórðu iðnbyltingu.
Markmiðið er ekki síst að tækifærin nýtist sem flestum og innleiðing hennar byggi á grunngildum okkar um mannréttindi, lýðræði og jafnrétti. Í fyrra gáfum við út áætlun þar sem þessari hugmyndafræði var fylgt eftir með 27 tillögum að aðgerðum í þessu skyni. Tillögurnar snúa meðal annars að því hvernig við ætlum að nýta tæknina í framsæknu menntakerfi, í umgjörð atvinnulífsins, nýsköpun og inni í stjórnkerfinu.
Stafræn umbreyting hefur mikil tækifæri í för með sér, ekki bara efnahagsleg heldur líka á sviði stórra viðfangsefna á borð við umhverfis- og heilbrigðismál. Endurskipulagning á starfi vísinda- og tækniráðs, aukin áhersla á stuðning við rannsóknir og nýsköpun og ný gervigreindarstefna stjórnvalda eru nokkur skref af mörgum til að ýta undir jákvæða þróun.
Með Stafrænu Íslandi erum við svo að gjörbreyta samskiptum fólks við hið opinbera. Þjónustu sem áður kallaði á bréfpóst, símtöl og bílferðir milli lands- eða bæjarhluta má nú nálgast með nokkrum smellum. Fyrir vikið sparast tími, peningar og útblástur – auk þess sem þjónustan verður aðgengilegri fyrir alla.
Það getur hins vegar verið auðvelt að tapa áttum í nýrri tækni. Til að stuðla að því að breytingarnar verði sannarlega öllum til hagsbóta hleypum við nú af stokkunum gervigreindaráskoruninni Elemennt. Fyrir verkefninu standa forsætis- og fjármála- og efnahagsráðuneytið í samstarfi við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.
Við hvetjum alla landsmenn til að taka áskoruninnin með því að taka þátt í opnu, gjaldfrjálsu vefnámskeiði á íslensku um grunnatriði gervigreindar sem nú er aðgengilegt á vefnum island.is/elemennt. Námskeiðið er alls um 30 klukkustundur og hægt að taka það hvenær sem er, í tölvu eða síma. Það er hannað til að vera aðgengilegt sem flestum, óháð aldri, menntun eða starfsreynslu.
Það skiptir miklu máli að það séu ekki aðeins sérfræðingar á sviði tækninnar sem hafi þekkingu og skilning á tæknibreytingum fjórðu iðnbyltingarinnar. Gervigreind á erindi við okkur öll og verður sífellt tilfinnanlegri í lífi flestra. Með aukinni þekkingu tryggjum við að í breytingunum felist langtum fleiri tækifæri en áskoranir – og það sem mestu máli skiptir: að við stjórnum tækninni, frekar en að tæknin stjórni okkur.