Réttlátt þjóðfélag - grein eftir Katrínu Jakobsdóttur sem birtist í Morgunblaðinu 1. maí 2021
Í dag fögnum við baráttudegi verkalýðsins og vinnandi fólk minnir á kröfur sínar um réttlátt þjóðfélag hringinn í kringum landið. Vitað var að vinnumarkaðsmál myndu setja svip sinn á kjörtímabilið við upphaf þess og aðdragandi kjarasamninga vorið 2019 var langur og strangur. Mörg umbótamál hafa komist til framkvæmda í kjölfar yfirlýsingar stjórnvalda sem gefin var við undirritun lífskjarasamninga. Þar ber hæst þrepaskipt skattkerfi, lengra fæðingarorlof, hærri barnabætur, aukinn stuðning við félagslegt húsnæði og ný húsnæðislán fyrir fyrstu kaupendur. Þjóðhagsráð með þátttöku fulltrúa launafólks hefur verið starfandi síðan en þar sitja fulltrúar ríkis og sveitarfélaga, Seðlabanka og heildarsamtaka á vinnumarkaði. Markmið þess er að tryggja efnahagslegan og félagslegan stöðugleika.
Stytting vinnuvikunnar
Stytting vinnuvikunnar hefur lengi verið baráttumál vinnandi fólks. Það er því fagnaðarefni að í flestum kjarasamningum sem undirritaðir voru veturinn 2019-2020 er kveðið á um heimild til að gera breytingar á skipulagi vinnutíma og stytta vinnuvikuna. Meginmarkmið breytinganna er að auka lífsgæði vinnandi fólks með því að gera því betur kleift að samræma vinnu og einkalíf. Breytingin hjá dagvinnufólki er komin til framkvæmda en útfærslan á styttingunni er misjöfn eftir samningum og hópum og getur vinnutími í fullu starfi farið allt niður í 36 virkar vinnustundir á viku. Nú um mánaðamótin bætist vaktavinnufólk í hópinn en með bættum vinnutíma í vaktavinnu er stuðlað að betri heilsu og öryggi starfsfólks og þeirra sem þurfa á þjónustunni að halda. Auk þess er breytingunum ætlað að auka jafnvægi á milli vinnu og einkalífs en fyrir þau sem hafa þyngstu vaktabyrðina getur vinnuvikan styst niður í allt að 32 stundir.
Endurmat á störfum kvenna
Til samræmis við yfirlýsingu ríkisstjórnar í tengslum við kjarasamninga aðildarfélaga BSRB, í mars 2020 skipaði forsætisráðherra starfshóp með fulltrúum forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, samtaka launafólks og samtaka atvinnurekenda, sem falið er að leggja fram tillögur að aðgerðum til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði. Þær aðgerðir skulu hafa það leiðarljós að leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta. Ég vænti mikils af þessu starfi en heimsfaraldurinn hefur svo sannarlega varpað ljósi á mikilvægi stórra kvennastétta við að vernda líf og heilsu fólks. Eins hefur faraldurinn sýnt okkur öllum hve dýrmætt það er að eiga öflugt opinbert heilbrigðis- og velferðarkerfi þar sem allir eiga jafnan aðgang.
Réttlát umskipti
Í nýlegri skýrslu sem ASÍ, BSRB og BHM gáfu út ásamt systursamtökum sínum á Norðurlöndunum er fjallað um réttlát umskipti í vegferðinni í átt að kolefnishlutlausu samfélagi. Þar eru dregnir fram mikilvægir þættir sem hafa þarf að leiðarljósi í umræðu og aðgerðum vegna þeirra miklu samfélagslegu breytinga sem hafnar eru og munu verða enn meiri á næstu árum vegna loftslagsbreytinga og aðlögunar að þeim. Samhliða þessu verða nú örar breytingar á vinnumarkaði vegna tækniþróunar. Það er grundvallar atriði að þessar breytingar auki ekki ójöfnuð og skapi ekki aðstöðumun milli hópa og svæða. Sú ríka hefð sem hér er fyrir samtali og samráði milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins mun gagnast okkur vel til að tryggja að yfirvofandi umskipti verði réttlát umskipti. réttlát umskipti.
Atvinnusköpun eftir faraldur
Atvinnuleysi sem var 12,1% í mars má ekki verða langtímaböl í samfélagi okkar. Stjórnvöld hafa brugðist við atvinnuleysinu sem er bein afleiðing heimsfaraldursins með margháttuðum aðgerðum. Nýlega kynntum við átakið Hefjum störf þar sem ríkið greiðir stofnunum, sveitarfélögum, fyrirtækjum og félagasamtökum styrk til að skapa ný störf sem ætluð eru þeim sem hafa verið atvinnulausir lengur en tólf mánuði. Nú þegar hafa tæplega 4.000 ný störf verið skráð í verkefnið og yfir 900 ráðningarsamningar undirritaðir. Í fyrrasumar sköpuðum við ennfremur störf fyrir námsmenn og það munum við gera aftur núna. Markmiðið er að skapa alls um 7.000 ný störf á næstu mánuðum. Við höfum tryggt menntatækifæri fyrir atvinnuleitendur. Þá er hlutastarfaleiðin umfangsmesta leiðin sem stjórnvöld hafa ráðist í til að styðja við afkomu launafólks en um 36.000 einstaklingar hafa fengið stuðning í gegnum þá leið sem hefur samtals numið um 28 milljörðum króna. Atvinnuleysisbætur hafa verið hækkaðar um 35% á kjörtímabilinu, ráðist var í tímabundna lengingu tekjutengdra atvinnuleysisbóta, barnagreiðslur atvinnuleysistrygginga hækkaðar tímabundið og núna fyrir helgi kynnti ríkisstjórnin sérstakan styrk til langtímaatvinnulausra og barnabótaauka fyrir tekjulægri barnafjölskyldur. Síðast en ekki síst hafa stjórnvöld staðið fyrir fjölbreyttum fjárfestingum til að skapa ný störf og auka umsvif í samfélaginu. Þar hefur bæði verið ráðist í hefðbundnar fjárfestingar í samgöngumannvirkjum og byggingaframkvæmdum en einnig í fjárfestingar í rannsóknum, nýsköpun og skapandi greinum. Allt mun þetta stuðla að því að fjölga stoðum efnahagslífsins og draga hratt og örugglega úr atvinnuleysi með hækkandi sól.
Ég óska launafólki til hamingju með baráttudag verkalýðsins!