Hoppa yfir valmynd
09. júní 2021 ForsætisráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir

Skýr áhersla skilar árangri - grein eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem birtist í Fréttablaðinu 9. júní 2021

Þær góðu fréttir bárust í síðustu viku að hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum hefði á árinu 2020 náð 11,4%. Þar með hefur markmiði stjórnvalda um 10% hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum fyrir árið 2020 verið náð og gott betur en það. Markmiðið sem sett var fram í þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi fyrir réttum tíu árum markaði tímamót og var fyrsta markmið stjórnvalda í orkuskiptum í samgöngum.  En þar var sett fram sú sýn að stefna ætti að orkuskiptum í samgöngum og leysa ætti jarðefnaeldsneyti  af hólmi með innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum.

Þessi þróun hefur tekið stökk á undanförnum árum en árið 2020 var hlutfall nýskráðra nýorkubíla 45% hér á landi sem er næsthæsta hlutfall í nýskráningum slíkra bíla í heiminum á eftir Noregi samkvæmt nýbirtum tölum. Orkuskipti í samgöngum voru einn af burðarásum fyrstu aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum sem sett var fram árið 2018 og voru útfærð nánar í þeirri uppfærðu áætlun sem stjórnvöld settu fram í fyrrasumar. Áætlunin vísar okkur veginn um hvernig markmiðum Íslands um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030 verður náð. Losun frá vegasamgöngum nemur um þriðjungi allrar losunar á beinni ábyrgð Íslands og því brýnt að árangur náist á þessu sviði. 

Ný orkustefna markar einnig leiðina framávið í þessum málum en í henni er skýr framtíðarsýn um að hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa verði orðin 40% árið 2030 og að Ísland verði alfarið óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2050. Aðgerðir stjórnvalda á síðustu árum hafa markvisst beinst að því að tryggja árangur á þessu sviði. Meðal þeirra helstu má nefna skattalegar ívilnanir fyrir vistvæn ökutæki, hleðslustöðvar og virka ferðamáta ss. reiðhjól, rafmagnsreiðhjól og rafmagnshlaupahjól sem námu um 5,8 milljörðum í fyrra og áætlað er að þær verði um svipaðar á þessu ári.

Við þetta styðja einnig framlög til að stuðla að breyttum ferðavenjum, einkum til að efla almenningssamgöngur og byggja upp innviði fyrir virka ferðamáta, s.s. göngu og hjólastíga, en þau hafa einnig aukist umtalsvert á liðnum árum og nema nú tæpum fimm milljörðum króna árlega. Þá hafa beinir styrkir til orkuskiptaverkefna í gegnum Orkusjóð einnig farið vaxandi á liðnum árum auk þess sem settar hafa verið reglur um söluskyldu endurnýjanlegs eldsneytis.

Meðal þeirra viðbótaraðgerða sem kynntar voru í tengslum við hert loftslagsmarkmið stjórnvalda í desembe voru aukinn stuðningur við orkuskipti, m.a. á sviði ferðaþjónustu og í þungaflutningum og enn frekari stuðningur við umhverfisvænar almenningssamgöngur og betri innviði fyrir virka ferðamáta.

Allar þessar aðgerðir endurspegla þá skýru áherslu sem ríkisstjórnin hefur lagt á að setja loftslagsmálin í forgang. Sú áhersla er að skila árangri. Loftslagsáætlun stjórnvalda byggist á raunhæfum aðgerðum og öflugu samstarfi við ólíka geira samfélagsins. Nú þarf að halda áfram á sömu braut, tryggja að loftslagsmálin verði áfram í fyrsta sæti á komandi kjörtímabili og varða leiðina að kolefnishlutlausu Íslandi með réttlátum umskiptum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta