Hoppa yfir valmynd
21. júní 2021 ForsætisráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir

Fyrir samfélagið allt - grein Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í Morgunblaðinu 19. júní 2021

Nú þegar hillir undir lok kjörtímabilsins er ekki úr vegi að staldra aðeins við og líta um öxl áður en við höldum inn í sumarið og kosningabaráttu í framhaldinu. Ríkisstjórnarsamstarfið þótti frá upphafi óvenjulegt langt út fyrir landsteinana enda ekki á hverjum degi sem flokkar þvert á hið pólitíka litróf taka höndum saman. Ástæðan var einföld; endurteknar óvæntar kosningar 2016 og 2017 kölluðu á að stjórnmálamenn hugsuðu í lausnum og væru reiðubúnir að leggja töluvert á sig til að mynda ríkisstjórn sem gæti tekist á við þau krefjandi uppbyggingarverkefni sem þurfti að ráðast í fyrir samfélagið.

Að sjálfsögðu kallar slík breið stjórn á annars konar nálgun en ríkisstjórn flokka sem standa nærri hver öðrum hugmyndafræðilega. Hins vegar er það aldrei einfalt verkefni að sitja í ríkisstjórn og mestu skiptir að þar ráði traust og heilindi för.

Fyrir okkur Vinstri-græn var þetta ekki sjálfgefin ákvörðun en yfirgnæfandi meirihluti félaga samþykkti stjórnarsamstarfið vegna þess málefnalega árangurs sem við töldum það geta skilað fyrir samfélag okkar. Enda einkenndist kjörtímabilið af stórum framfaramálum. Þar má nefna réttlátara tekjuskattskerfi, aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, lækkun á kostnaði sjúklinga við heilbrigðisþjónustu, uppbyggingu heilsugæslunnar, ný upplýsingalög og lög um vernd uppljóstrara, hækkun barnabóta og atvinnuleysisbóta, 18 friðlýst landsvæði, dregið var úr skerðingum í örorkukerfinu og hækkað frítekjumark atvinnutekna aldraðra. Fæðingarorlof var lengt úr níu mánuðum í tólf og umgjörð þjónustu við börn var umbylt til hins betra. Almannaheillafélög búa nú við mun hagstæðara skattaumhverfi og aukinn var stuðningur við uppbyggingu á félagslegu húsnæði. Mikilvæg mannréttindamál voru samþykkt, þar á meðal lög um kynrænt sjálfræði og ný lög um þungunarrof sem styrkja ákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama. Stjórnvöld gegndu lykilhlutverki þegar lífskjarasamningarnir náðust en þeir hafa tryggt áframhaldandi kaupmáttaraukningu og stöðugleika á vinnumarkaði.

Allt eru þetta framfaramál fyrir samfélag okkar, mál sem miða að því að auka velsæld okkar allra og gera líf okkar allra sem hér búum betra. Hugmyndafræði velsældarhagkerfa hefur verið okkar leiðarljós þar sem við getum ekki mælt árangur samfélagsins úr frá einföldum efnahagslegum mælikvörðum heldur horfum á samfélagið í víðara samhengi þar sem við metum félagslega, umhverfislega og efnahagslega þætti í samhengi. Í fjármálaáætlun höfum við lagt áherslu á umbætur í tilteknum málaflokkum – til dæmis geðheilbrigðismálum þar sem við höfum aukið framlög um rúman milljarð á kjörtímabilinu. Þar er hins vegar enn mikið verk óunnið og því verða þau áfram áherslumál. Annað verkefni er aukið jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Þar munar mest um styttingu vinnuvikunnar sem er mikið umbótamál, ekki síst fyrir vaktavinnufólk. Stytting vinnuvikunnar er þannig mikilvægt skref til að bæta stöðu stórra kvennastétta sem eru meirihluti vaktavinnufólks.

En kjörtímabilið snerist ekki eingöngu um áherslumál þessarar ríkisstjórnar. Á miðju kjörtímabilinu skall á heimsfaraldur kórónuveiru. Hann yfirskyggði öll önnur verkefni þar sem bæði þurfti að bregðast við með sóttvarnaráðstöfunum og síðar bólusetningu en einnig með markvissum efnahagslegum og félagslegum aðgerðum til að draga úr áhrifum faraldursins. Frá upphafi setti ríkisstjórnin sér skýr markmið. Að vernda líf og heilsu fólks, lágmarka samfélagsleg og efnahagsleg áhrif faraldursins og leggja grunn að tækifærum til framtíðar.

Stjórnvöld hafa í þessum efnum notið þess að vinna með ómetanlegu fagfólki og frábærum vísindamönnum. Allar ákvarðanir byggðust á bestu þekkingu og gögnum en um leið þeirri staðreynd að ekki var hægt að vita allt um veiruna sem hafði sett tilveru okkar allra á hliðina. Árangur okkar Íslendinga á þessu sviði er hins vegar fyrst og fremst að þakka almenningi í landinu sem kynnti sér málin og tók upplýstar og skynsamlegar ákvarðanir. Segja má að allir hafi þurft að laga sig hratt að nýjum aðstæðum og það gerðu allir; almannaþjónustan og atvinnulífið umbyltu starfsháttum og allir lögðu mikið á sig til að ná þessum árangri.

Stjórnvöld ákváðu einnig frá upphafi að beita fullum krafti ríkisfjármálanna til að lágmarka hin samfélagslegu og efnahagslegu áhrif. Of langt mál væri að telja hér upp allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar en allar snerust þær um að styðja við almenning og atvinnulíf, tryggja afkomu fólks og gera fyrirtækjum það kleift að geta spyrnt hratt við þegar faraldrinum linnti. Þá var ráðist í aukna opinbera fjárfestingu sem jókst um 19% á fyrsta fjórðungi þessa árs og þess gætt að tryggja fjölbreytni með því að leggja aukna fjármuni í rannsóknir og nýsköpun, grænar lausnir og skapandi greinar auk þess að fjárfesta í hefðbundnari innviðum; byggingum og samgöngumannvirkjum. Allt voru þetta þarfar fjárfestingar sem munu skila aukinni verðmætasköpun og fjölbreytni til lengri tíma og hjálpa okkur að ná árangri í loftslagsmálum. Þessar fjárfestingar byggðust á undirbúningi á fyrri hluta kjörtímabilsins þannig að unnt var að ganga hratt og örugglega til verka.

Ekki leikur neinn vafi á því að aðgerðir stjórnvalda hafa mildað áhrif efnahagsáfallsins verulega. Framundan er það verkefni að fjölga störfum á ný svo draga megi hratt og örugglega úr atvinnuleysi en ríkisstjórnin hefur ráðist í umfangsmestu vinnumarkaðsaðgerðir í seinni tíð með hlutabótaleiðinni, menntunartækifærum og síðan ráðningarstyrkjum. Alls hafa ríflega 3.200 manns fengið vinnu í gegnum átakið Hefjum störf og atvinnuleysi hefur minnkað jafnt og þétt á árinu, var 12,8% í janúar en var komið í 10% í maí og allt bendir til þess að það fari áfram minnkandi.

Framundan blasa við stór verkefni og mikil tækifæri. Öllu mun skipta hvernig við byggjum upp að loknum heimsfaraldri. Þar höfum við Vinstri-græn þá skýru sýn að byggja áfram á þeim árangri sem hefur náðst í uppbyggingu heilbrigðis- og velferðarkerfis og menntakerfis. Að halda áfram að fjárfesta í fjölbreyttri atvinnusköpun sem mun skila samfélaginu okkar auknum verðmætum og velsæld. Við eigum að fjárfesta í grænum lausnum og leggja okkar af mörkum í baráttunni við loftslagsvána. Við eigum að tryggja réttlæti og sjálfbærni í öllum þeim verkefnum sem eru framundan.

Þegar litið er um öxl hefur kjörtímabilið verið álagspróf á íslenskt samfélag og ber vitni um styrkleika þess. Ríkisstjórnin hefur haft hagsmuni íslensks samfélags að leiðarljósi og náð miklum árangri, hvort sem litið er til þeirra verkefna sem sett voru á dagskrá í upphafi kjörtímabils eða þeirra verkefna sem skullu á okkur af fullum þunga með heimsfaraldrinum. Ný verkefni blasa nú við og ný tækifæri en eftir erfiða tíma geta komið mikil framfaraskeið. Þá skiptir máli að hafa stjórnmálafólk sem er reiðubúið að leggja mikið á sig fyrir hag samfélagsins alls.

Höfundur er forsætisráðherra.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta