Hoppa yfir valmynd
22. september 2021 ForsætisráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á viðburði forsætisráðuneytisins og Reykjavíkurborgar um launajafnrétti 17. september 2021

Kæru gestir,

Mikið er ánægjulegt að vera með ykkur hér á þessum sameiginlega viðburði forsætisráðuneytisins og Reykjavíkurborgar í tilefni af alþjóða jafnlaunadeginum.

Það var að frumkvæði Íslands sem tillaga var samþykkt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að halda slíkan jafnlaunadag árlega og síðar í dag mun ég ávarpa málþing sem Alþjóðlega jafnlaunabandalagið stendur fyrir í tilefni dagsins. Þar mun ég meðal annars leggja áherslu á mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu og allra aðila sem hafa með jafnlaunamál að gera. Við vitum að það er horft til okkar á Íslandi sem lands sem náð hefur miklum árangri í jafnréttismálum og við tökum því alvarlega að vera fyrirmynd á þessu sviði.

Og hver er staðan í jafnlaunamálum á Íslandi í dag? Nýleg launarannsókn sem Hagstofa Íslands vann fyrir forsætisráðuneytið sýnir okkur að launamunur kynjanna fer minnkandi.  Hvort sem horft er til atvinnutekna, á óleiðréttan eða leiðréttan launamun, þá er þróunin allsstaðar sú sama - launamunur milli karla og kvenna minnkar. Þetta eru ánægjulegar fréttir sem sýna okkur að aðgerðir stjórnvalda hafa skilað árangri. Árangurinn er þó ekki nægur, launamunur milli kynja er enn til staðar og það getur vart talist boðlegt að við skulum enn árið 2021 búa við þann veruleika að kynferði skipti máli við launasetningu.

Rannsóknin sýndi einnig skýrt að launamunur kynjanna, án tillits til eðlis starfs og starfsgreinar, svokallaður óleiðréttur launamunur, skýrist fyrst og fremst af mismunandi starfsvali og mörkuðum þ.e. kynskiptum vinnumarkaði.

Verkefnið framundan er því að skoða þennan kynskipta vinnumarkað og verðmætamat starfa. Við sjáum að hin hefðbundnu kvennastörf hafa í gegnum tíðina verið vanmetin í samanburði við hefðbundin karlastörf. Starfshópur sem ég skipaði um endurmat á störfum kvenna skilaði nýlega niðurstöðum þar sem meðal annars eru settar fram tillögur að þróunarverkefni um mat á virði starfa.

Mikilvægi hinna hefðbundnu kvennastarfa kom bersýnilega í ljós í heimsfaraldrinum. Kennsla barna, umönnunarstörf af ýmsu tagi auk framlínustarfa hafa sýnt mikilvægi sitt sem aldrei fyrr og þessi störf teljast öll til hefðbundinna kvennastarfa.

Það er vandséð að mikilvægi þessara starfa hafi áður verið dregið fram með jafn skýrum hætti og á tímum heimsfaraldursins. Starfsfólk við umönnun sjúkra og aldraðra, ræstitæknar og leikskóla- og grunnskólakennarar hafa þurft að standa vaktina á erfiðum og krefjandi tímum á meðan margar aðrar stéttir hafa getað stundað sína vinnu í öruggu umhverfi heimilis í fjarvinnu og sinnt samskiptum í gegnum fjarfundabúnað.

Þá er ljóst að heimsfaraldurinn hefur á heimsvísu haft umtalsvert meiri áhrif á konur á vinnumarkaði heldur en karla. Alþjóðavinnumálastofnunin áætlar að staða karla muni batna hratt þegar kórónuveirakreppan fer að slaka á klónni en það sama á ekki við um stöðu kvenna. Mun fleiri konur standa eftir utan vinnumarkaðar vegna afleiðinga kreppunnar og möguleikar þeirra á að endurheimta starf sitt eru mun lakari en karla að mati stofnunarinnar.

Við megum ekki gleyma því að jafnlaunamál snúast um fleira en krónur og aura. Það snýst um jafnrétti á öllum sviðum. Fjárhagslegt sjálfstæði er lykillinn að frelsi kvenna og skiptir til að mynda gríðarlega miklu þegar kemur að baráttunni gegn kynbundu ofbeldi.

Ég veit að umræðurnar hér í dag eiga eftir að verða gagnlegar og skila okkur fram á veginn. Einkunnarorð kvennahreyfingarinnar um „sömu laun fyrir sömu vinnu“ eiga enn við og nú höldum við áfram.

Til hamingju með daginn öll!

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta