Aðgerðir sem skila árangri - grein Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í Fréttablaðinu 26. maí 2022
Á skömmum tíma hafa þær efnahagslegu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir tekið stakkaskiptum. Eftir að hafa glímt við samdrátt og atvinnuleysi í kjölfar heimsfaraldurs þar sem sameiginlegir sjóðir voru notaðir í ríkum mæli til að halda uppi gangverki efnahagslífsins hefur verkefnið breyst yfir í að takast á við þenslu og verðbólgu með tilheyrandi vaxtahækkunum.
Þessi staða er ekki séríslensk og óvissa vegna stríðsátaka í Úkraínu og áhrif á aðfangakeðjur, hrávöru- og orkuverð eru víða umtalsvert meiri en hér á landi. Um margt erum við í góðri stöðu og vel í stakk búin til þess að takast á við þessar áskoranir. Reynsla síðustu tveggja ára sýnir okkur hversu árangursríkt það var að beita ríkisfjármálunum með skynsömum hætti til að verja störf og tryggja afkomu heimila og fyrirtækja.
Þetta sjáum við meðal annars í því að störfum fjölgar og atvinnuleysi minnkar hratt, kaupmáttur hefur farið vaxandi, skuldastaðan er góð og fjárhagserfiðleikar og vanskil hafa til þessa ekki aukist. Við núverandi aðstæður skiptir máli að ríkisfjármálin og peningamálastefnan togi í sömu átt en við vitum líka að það er nauðsynlegt að horfa ekki bara á hinar stóru hagtölur sem gefa okkur almennar vísbendingar um þróunina heldur þarf að rýna í stöðu og áhrif á mismunandi hópa og möguleika þeirra til þess að bregðast við.
Við vitum að staða leigjenda er almennt þrengri en þeirra sem búa í eigin húsnæði, kaupmáttur þeirra sem byggja afkomu sína á lífeyri almannatrygginga hefur ekki aukist með sama hætti og þeirra sem eru á vinnumarkaði og að áhrif hækkandi verðlags eru mikil á barnafjölskyldur með lægri tekjur og þunga framfærslu. Stjórnvöld hafa nú þegar gripið til aðgerða til að styðja betur við þessa hópa sem hafa lítið svigrúm til að mæta núverandi aðstæðum og verja þá fyrir verðbólgunni, með hækkun á lífeyri almannatrygginga, húsnæðisbótum og sérstökum barnabótaauka.
Staðan á húsnæðismarkaði er þung og verðhækkanir miklar en við sjáum skýr merki um jákvæð áhrif af þeim félagslegu aðgerðum á sviði húsnæðismála sem ráðist hefur verið í á undanförnum árum. Uppbygging í almenna íbúðakerfinu hefur til að mynda lækkað húsnæðiskostnað og aukið húsnæðisöryggi tekjulægri leigjenda sem eru í hvað verstri stöðu á húsnæðismarkaði. Á þessari reynslu þarf að byggja.
Á dögunum kynntum við hugmyndir um stórátak í húsnæðismálum. Ríkisstjórnin ætlar í samstarfi við sveitarfélögin að tryggja uppbyggingu á íbúðarhúsnæði til lengri tíma þar sem ríki og sveitarfélög leggja sitt af mörkum í gegnum stofnframlög og stuðning við innviði, lóðaframboð og skipulagningu. Markmiðið er nægt framboð af íbúðarhúsnæði fyrir alla hópa sem tryggir húsnæðisöryggi og að sem fæstir – og helst enginn – búi við íþyngjandi húsnæðiskostnað. Þetta mun einnig draga úr sveiflum á húsnæðismarkaði og að húsnæðisverð verði sá drifkraftur verðbólgunnar sem við höfum séð undanfarið og raunar oft áður.
Allt miðar þetta að því að bæta lífsgæði, tryggja velferð og auka jöfnuð, bæði í upp- og niðursveiflum.