Hoppa yfir valmynd
30. maí 2022 ForsætisráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir

Aðgerðir sem skila árangri - grein Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í Fréttablaðinu 26. maí 2022

Á skömmum tíma hafa þær efna­hags­legu á­skoranir sem við stöndum frammi fyrir tekið stakka­skiptum. Eftir að hafa glímt við sam­drátt og at­vinnu­leysi í kjöl­far heims­far­aldurs þar sem sam­eigin­legir sjóðir voru notaðir í ríkum mæli til að halda uppi gang­verki efna­hags­lífsins hefur verk­efnið breyst yfir í að takast á við þenslu og verð­bólgu með til­heyrandi vaxta­hækkunum.

Þessi staða er ekki sér­ís­lensk og ó­vissa vegna stríðs­á­taka í Úkraínu og á­hrif á að­fanga­keðjur, hrá­vöru- og orku­verð eru víða um­tals­vert meiri en hér á landi. Um margt erum við í góðri stöðu og vel í stakk búin til þess að takast á við þessar á­skoranir. Reynsla síðustu tveggja ára sýnir okkur hversu árangurs­ríkt það var að beita ríkis­fjár­málunum með skyn­sömum hætti til að verja störf og tryggja af­komu heimila og fyrir­tækja.

Þetta sjáum við meðal annars í því að störfum fjölgar og at­vinnu­leysi minnkar hratt, kaup­máttur hefur farið vaxandi, skulda­staðan er góð og fjár­hags­erfið­leikar og van­skil hafa til þessa ekki aukist. Við nú­verandi að­stæður skiptir máli að ríkis­fjár­málin og peninga­mála­stefnan togi í sömu átt en við vitum líka að það er nauð­syn­legt að horfa ekki bara á hinar stóru hag­tölur sem gefa okkur al­mennar vís­bendingar um þróunina heldur þarf að rýna í stöðu og á­hrif á mis­munandi hópa og mögu­leika þeirra til þess að bregðast við.

Við vitum að staða leigj­enda er al­mennt þrengri en þeirra sem búa í eigin hús­næði, kaup­máttur þeirra sem byggja af­komu sína á líf­eyri al­manna­trygginga hefur ekki aukist með sama hætti og þeirra sem eru á vinnu­markaði og að á­hrif hækkandi verð­lags eru mikil á barna­fjöl­skyldur með lægri tekjur og þunga fram­færslu. Stjórn­völd hafa nú þegar gripið til að­gerða til að styðja betur við þessa hópa sem hafa lítið svig­rúm til að mæta nú­verandi að­stæðum og verja þá fyrir verð­bólgunni, með hækkun á líf­eyri al­manna­trygginga, hús­næðis­bótum og sér­stökum barna­bóta­auka.

Staðan á hús­næðis­markaði er þung og verð­hækkanir miklar en við sjáum skýr merki um já­kvæð á­hrif af þeim fé­lags­legu að­gerðum á sviði hús­næðis­mála sem ráðist hefur verið í á undan­förnum árum. Upp­bygging í al­menna í­búða­kerfinu hefur til að mynda lækkað hús­næðis­kostnað og aukið hús­næðis­öryggi tekju­lægri leigj­enda sem eru í hvað verstri stöðu á hús­næðis­markaði. Á þessari reynslu þarf að byggja.

Á dögunum kynntum við hug­myndir um stór­á­tak í hús­næðis­málum. Ríkis­stjórnin ætlar í sam­starfi við sveitar­fé­lögin að tryggja upp­byggingu á í­búðar­hús­næði til lengri tíma þar sem ríki og sveitar­fé­lög leggja sitt af mörkum í gegnum stofn­fram­lög og stuðning við inn­viði, lóða­fram­boð og skipu­lagningu. Mark­miðið er nægt fram­boð af í­búðar­hús­næði fyrir alla hópa sem tryggir hús­næðis­öryggi og að sem fæstir – og helst enginn – búi við í­þyngjandi hús­næðis­kostnað. Þetta mun einnig draga úr sveiflum á hús­næðis­markaði og að hús­næðis­verð verði sá drif­kraftur verð­bólgunnar sem við höfum séð undan­farið og raunar oft áður.

Allt miðar þetta að því að bæta lífs­gæði, tryggja vel­ferð og auka jöfnuð, bæði í upp- og niður­sveiflum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta