Virk og öflug vernd mannréttinda - grein Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í Fréttablaðinu 7. júlí 2022
Við á Íslandi höfum borið gæfu til að samþykkja mörg framfaramál sem varða réttindi fólks á undanförnum árum á sama tíma og sjá má bakslag víða í heiminum. Í þessum málum er barátta hagsmunahópa mikilvæg en að sjálfsögðu ræður vilji stjórnvalda á hverjum stað í raun úrslitum um hver staðan verður, eins og mörg dæmi eru um nýverið. Hér á landi verður áfram unnið í slíkum framfaramálum.
Í stjórnarsáttmála er kveðið á um að sett verði á stofn öflug, óháð mannréttindastofnun sem þarf að uppfylla ákveðin almenn skilyrði sem sett eru fram í viðmiðunarreglum Sameinuðu þjóðanna. Viðmiðin gera ráð fyrir sjálfstæði slíkra stofnana frá stjórnvöldum. Við myndun nýrrar ríkisstjórnar voru mannréttindamál færð til forsætisráðuneytis frá dómsmálaráðuneyti og hófst í kjölfarið vinna við grænbók um mannréttindi.
Við vinnu við grænbók er upplýsingum safnað um mannréttindi, þróun, tölfræði, samanburð við önnur lönd og teknar saman mismunandi leiðir til að mæta þeim áskorunum sem við blasa í mannréttindamálum.
Í hvívetna verður lögð áhersla á víðtækt samráð við vinnslu grænbókarinnar og í haust er ætlunin að standa fyrir samráðsfundum í öllum landshlutum um stöðu mannréttindamála. Í byrjun árs 2023 verða drög að grænbók kynnt í samráðsgátt stjórnvalda og gera áætlanir ráð fyrir að frumvarp um stofnunina verði lagt fram á Alþingi haustið 2023.
Mannréttindastofnanir skipta máli til að tryggja virka og öfluga vernd mannréttinda. Ég hef lagt á það áherslu að Ísland sé leiðandi þegar kemur að mannréttindum og verður tilvist mannréttindastofnunar veigamikið skref í þá átt. Mikilvægt er í þessu sambandi að tilvist slíkrar stofnunar er forsenda þess að hægt verði að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks líkt og kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Allt miðar þetta að því að við eigum öll jafnan rétt til að njóta mannréttinda án mismununar.