Ávarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á málþingi í tilefni 80 ára afmælis Ólafs Ragnars Grímssonar - 14. maí 2023
Kæru gestir.
Það er mikill heiður að fá að ávarpa þessa samkundu þar sem við fögnum áttræðisafmæli fyrrverandi forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar. Ég man vel eftir Ólafi Ragnari frá bernskuárum mínum, aðallega úr lokaumræðum formanna flokkanna fyrir kosningar, en skýrasta minningin er Áramótaskaupið 1989 og frægt atriði um þáverandi fjármálaráðherra – Ólaf Ragnar Grímsson – sem birtist sem Skattmann – svona Batman opinberra fjármála. Þetta atriði er sígilt og raunar eru þau ansi mörg, atriðin úr skaupum ýmissa ára þar sem Ólafur Ragnar hefur verið í aðalhlutverki. Og stjórnmálamenn vita að það eru bestu meðmæli sem maður getur fengið – og við upplifum sterka höfnunartilfinningu á gamlárskvöld ef við erum ekki hluti af skaupinu.
Samkvæmt mínum heimildum hefur Ólafur Ragnar ævinlega verið kallaður báðum nöfnum sínum, öfugt við margt annað þekkt fólk sem gekk undir einu nafni áður en það varð þekkt. En þegar litið er yfir feril hans er kannski engin furða að fólki hafi fundist rétt að nota tvö nöfn um Ólaf Ragnar því að tveir menn mættu auðveldlega vera sáttir við helming af því sem Ólafur Ragnar hefur gert á sinni ævi. Upphaf þess sem nú er kallað félagsvísindasvið Háskóla Íslands og er nú fjölmennasta svið Háskólans er árið 1970 þegar Ólafur Ragnar Grímsson var ráðinn lektor í stjórnmálafræði, þá aðeins 27 ára. Sama ár lauk hann doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Manchesterháskóla, einna fyrstur Íslendinga (kannski fyrstur) til að leggja það fag fyrir sig.
En Ólafur Ragnar var ekki aðeins frumkvöðull á sviði háskólamenntunar heldur líka í sjónvarpsþáttagerð. Hinn nýi lektor byrjaði þegar að reyna að innleiða hina snörpu ensku umræðuþáttamenningu á Íslandi og strax haustið 1970 er hann orðinn frægur á Íslandi sem sjónvarpsmaður. Þetta tvennt hefði ef til vill nægt einhverjum öðrum en mér skilst að þegar árið 1971 hafi verið umræða um þingframboð Ólafs Ragnars, þá fyrir Framsóknarflokkinn. Árið 1974 er hann efsti maður Samtaka frjálslyndra og vinstrimanna í Austurlandskjördæmi og árið 1978 er hann kosinn á þing fyrir Alþýðubandalagið, verður brátt formaður þingflokksins og er leiðandi í flokknum næstu átján árin. Það var talsverð andstaða við að Ólafur Ragnar yrði formaður Alþýðubandalagsins árið 1987 en hann vann góðan sigur og var formaður í átta ár og á þeim tíma fjármálaráðherra. Á þeim tíma blés oft ekki byrlega fyrir Alþýðubandalaginu í skoðanakönnunum en fylgi flokksins árið 1991 kom á óvart.
Í október árið 1995 nefndu 1,4% Ólaf Ragnar sem vænlegan forseta í könnun DV en á átta mánuðum náði hann að auka fylgi sitt og var í júní kosinn forseti Íslands með góðum meirihluta – eftir að m.a. ég hafði komið fram í stuðningsmannablaði. Þetta segir kannski eitthvað um samband þjóðarinnar við Ólaf Ragnar, hann hefur ekki alltaf verið óumdeildur en hefur samt ítrekað náð að höfða til þjóðarinnar og jafnvel fornir andstæðingar hafa að lokum greitt honum atkvæði.
Ég ferðaðist mikið um landið seinustu ár 20. aldar og hvarvetna voru myndir af forsetahjónunum. Eftir aldarfjórðung í stjórnmálum, þar af 19 ár í Alþýðubandalaginu sem Morgunblaðið kallaði enn „kommúnista“ þegar hann gekk í flokkinn, var hann kannski óvænt orðinn sameiningartákn þjóðarinnar. Alþýðubandalagið fékk ríflega 14% fylgi undir forystu Ólafs Ragnars en sjálfur var hann kjörinn forseti Íslands með ríflega 41%. Burtséð frá veru minni í stuðningsmannaliði hans árið 1996 – við Ólafur Ragnar höfum sannarlega ekki alltaf verið sammála æ síðan – er þetta sláandi persónulegt afrek og sýnir í hversu góðu sambandi þessi maður – sem menntaði sig á Englandi og vann alla tíð í Háskóla Íslands eða á Alþingi – er við íslenskan almenning. Hann var síðan sjálfkjörinn forseti tvisvar og hafði þar að auki betur í tvennum forsetakosningum, í bæði skiptin umdeildur fyrir störf sín en hafði að lokum öruggan sigur, jafnvel eftir 16 ár í embætti.
Það er margt sögulegt við forsetatíð Ólafs Ragnars og flestum kemur eflaust í hug 26. grein stjórnarskrárinnar sem hann virkjaði með eftirminnilegum hætti, oftar en einu sinni. Þau sem glöddust kannski mest yfir fyrsta skiptinu fögnuðu mögulega minna í hin síðari. Sú saga – alveg óháð hvað hverjum fannst hvenær – minnir okkur á hvað stjórnmálamenn – líka á forsetastóli – geta áorkað miklu með því að láta hugrekkið för. Og eins og ég nefndi í stuttri ræðu þegar ég fékk þann heiður að afhjúpa brjóstmynd af Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir nokkrum árum þá er ekki annað hægt en að dást að Ólafi Ragnari fyrir óttaleysið – hann hefur oft og iðulega látið sig litlu skipta hvað öðrum finnst og þannig sýnt kjark.
En mig langar samt að nefna aðra þætti en þá sem Ólafur Ragnar er þekktastur fyrir í forsetatíð sinni. Ólafur Ragnar var lengi formaður samtakanna Parliamentarians for Global Action, ferðaðist víða á þeim árum og vann m.a. með þjóðarleiðtogum eins og Rajiv Gandhi. Hann barðist þá ekki síst fyrir afvopnun, máli sem aldrei hefur verið mikilvægara en nú. Það er stundum sláandi hversu sjónarhorn allra sem mest ber á í íslenskum fjölmiðlum og samfélagi er bundið við Evrópu og Bandaríkin en þar hefur Ólafur Ragnar lengi verið mikilvæg undantekning. Þó að hugmynd hans um „útflutningsleiðina“ hafi ekki slegið í gegn í alþingiskosningum árið 1995 er hún í samræmi við þessa víðu sýn hans sem hefur ekki verið aðeins tímabundin og aldrei fylgt veðrabrigðum heldur hefur hún sett svip á allan feril Ólafs Ragnars og er ein ástæða þess að margir leggja við eyrun þegar hann tjáir sig um alþjóðamál. Ólafur Ragnar hefur ræktað samband við fjölmarga þjóðarleiðtoga og hugsuði utan okkar næstu nágranna og mig grunar að þetta verði eitt af því sem síðar mun einna hæst halda merki hans á lofti.
Sama má segja um verkefni Ólafs Ragnars að lokinni forsetatíð en stærst þeirra er Hringborð Norðurslóða – Arctic Circle. Þar koma saman þjóðarleiðtogar, stjórnmálamenn, forystufólk úr atvinnulífi, menningarlífi og frá frjálsum félagasamtökum, fræðimenn, námsmenn og fréttamenn og ræða saman um Norðurslóðir – ekki síst áhrif loftslagsvárinnar. Ólafi Ragnari hefur tekist á þeim vettvangi að leiða saman ólíka aðila á jafnréttisgrundvelli og ekki síst vakið athygli fyrir að leyfa spurningar úr sal sem stundum hafa nánast orðið til að kveikja í húsinu. Þar birtist enn sami andinn sem færði nútímann í sjónvarpssal fyrir hálfri öld en allt er það í anda lýðræðislegrar umræðu, þar sem fólk á að mætast á jafnréttisgrundvelli. Og gleymum því ekki að hér í Hörpu talaði þáverandi forseti Frakklands, Francois Hollande fyrir fullu húsi í aðdraganda Parísarráðstefnunnar þar sem náðist merkt samkomulag – innblásinn af ferð að Sólheimajökli í fylgd Ólafs Ragnars. Þá sat ég í salnum með Árna Páli Árnasyni vini mínum og við gátum ekki annað en brosað í kampinn yfir því hvernig okkar manni hefði enn og aftur tekist að stela senunni.
Við fögnum í dag áttræðisafmæli. Ísland hefur tekið mjög miklum breytingum síðan árið 1943 og er kannski allt annað samfélag. Bók Ólafs Ragnars, Bréfin hennar mömmu, sem kom út í fyrra og lýsir í senn þjóðfélagi þess tíma og rekur fallega erfiða glímu við skelfilegan sjúkdóm, berklana, minnir okkar á það. Kynslóð Ólafs Ragnars hefur sannarlega lifað tímana tvenna og hann sjálfur hefur flestum fremur sett svip á samtíma sinn, meðal annars með einstakri hæfni sinni til að bregðast við breyttum aðstæðum og vera stundum flestum öðrum fyrri að átta sig á hvað klukkan slær. Hann hefur oft staðið frammi fyrir mjög erfiðum aðstæðum og iðulega komið á óvart, aldrei siglt lygnan sjó en þó stýrt skipinu gegnum margan boðann og enn er það á góðri siglingu. Þar hefur einstök geta til að greina stöðuna komið sér vel ásamt því að hafa stundum sýnt einstakan kjark til að stökkva en ekki hrökkva.
Til hamingju með daginn kæri Ólafur Ragnar.