Hoppa yfir valmynd
17. júní 2023 ForsætisráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir

Þjóðhátíðarávarp Katrínar Jakobsdóttur á Austurvelli 17. júní 2023

Kæru landsmenn,
 
Íslensku þjóðinni hefur á ríflega 1100 árum lánast að koma sér upp einstakri veðurgleymsku sem lýsir sér í því að við munum aðeins sólardaga frá liðnum sumrum og erum ævinlega jafn hissa þegar bjartasti mánuður ársins reynist ekki sá heitasti. Þrátt fyrir margra alda þjálfun í bjartsýni verður víst ekki litið framhjá því að aldrei hafa mælst jafn fáar sólskinsstundir í maímánuði í Reykjavík og nú í ár. En mælingar vísindanna hreyfa í engu þeirri von að síðsumarið verði gjöfulla og ef ekki, nú þá verður haustið alveg örugglega gott.
 
En gusturinn er ekki aðeins í veðrinu, það gustar líka í efnahagslífinu. Verðbólga er áberandi hér sem og annars staðar á Vesturlöndum. Síðustu mánuði höfum við fundið fyrir verðhækkunum og hækkandi vöxtum en verðbólguástand bitnar alltaf verst á þeim sem síst skyldi. Þess vegna skiptir miklu máli að kveða hana niður. Þar eru engar töfralausnir á borðum en teikn eru nú á lofti um að draga muni úr verðbólgunni á næstu mánuðum og að samræmdar aðgerðir ríkisstjórnar og Seðlabanka hafi tilætluð áhrif. 
 
Ríkisstjórnin og Alþingi ákváðu undir lok þingsins að takmarka launahækkanir æðstu ráðamanna til að senda skýr skilaboð um að þeir sem betur mega sín og hærri hafa launin verða að sýna sérstaka ábyrgð í þessu ástandi. Þá tókum við líka ákvörðun um að tvöfalda framlög ríkisins til uppbyggingar á íbúðarhúsnæði sem er lykilatriði til að tryggja velsæld og bæta framboð á erfiðum húsnæðismarkaði.
 
Margar þjóðir Evrópu búa nú við lítinn sem engan hagvöxt á sama tíma og verðbólga hefur neytt Seðlabanka Evrópu til að hækka vexti. Við Íslendingar erum í annarri stöðu. Hér eru efnahagsleg umsvif mikil, atvinnuástand gott og afkoma ríkissjóðs hefur farið batnandi í stórum skrefum. Íslenskt hagkerfi hvílir á mun fjölbreyttari stoðum en áður sem eykur viðnámsþrótt þess í svona aðstæðum. Saman munum við ná verðbólgunni niður og halda áfram að bæta lífskjör allra landsmanna. 
 
Góðir Íslendingar.
 
Það er engin tilviljun að Ísland mælist meðal bestu landa í heimi þegar mæld eru lífskjör og lífsgæði. Við búum að ríkulegum auðlindum og í krafti vísinda og tækni í bland við þó nokkra vinnuhörku höfum við náð eftirtektarverðum árangri. En vaxandi efnahagur býr ekki til gott þjóðfélag þótt hann sé góður grunnur. Samfélagsgerðin, hvernig við umgöngumst hvert annað og hvernig við störfum og lifum saman, ræður því hvort samfélagið telst gott, hvort lífskjör í víðustu merkingu þess orðs séu góð. Við getum verið stolt yfir því sem vel hefur tekist en slíkt stolt þarf að hvíla á þeirri trú að alltaf megi gera betur. 
 
Jafnréttisbaráttan endurspeglar þetta vel. Ísland hefur lengi verið í fararbroddi þegar jafnrétti kynjanna er mælt á alþjóðlega mælikvarða. En er þá baráttunni lokið? Nei, við hættum ekki fyrr en fullu launajafnrétti er náð, fyrr en kynbundið ofbeldi og áreitni heyrir sögunni til og fyrr en hinni ólaunuðu vinnu er jafnt skipt. Og jafnvel þá, þegar öllu þessu er náð, þá þurfum við að viðhalda og tryggja að næstu kynslóðir varðveiti árangurinn og efli. 
 
Annað dæmi er sú staðreynd að dregið hefur marktækt úr fátækt á landinu. Kaupmáttur allra tekjutíunda hefur aukist seinustu ár. Þýðir það að verkefninu sé lokið? Nei, það breytir því ekki að við viljum gera betur og tryggja sem best að enginn búi við fátækt. Það verður verkefni okkar hér eftir sem hingað til að tryggja að hvorki börn né aðrir búi við fátækt í íslensku samfélagi.
 
Nýjar áskoranir mæta okkur hér á landi eins og heiminum öllum. Líffræðilegri fjölbreytni er ógnað, loftslagsváin lætur enga þjóð ósnortna. Við höfum sett okkur markmið og áætlanir til að takast á við þessar áskoranir. Ég er sannfærð um að mikill meirihluti landsmanna er meira en reiðubúinn til að leggja mikið á sig til að Ísland skili sínu í þessari baráttu. Á ferðum mínum um landið í vor hitti ég fólk um land allt til að ræða þetta. Samhljómur er um að við þurfum að gera meira til að ná árangri og tryggja að Ísland verði sjálfbært samfélag. Stjórnvöld þurfa að vísa veginn í þeirri baráttu – en til þess að ná árangri þurfum við öll að taka þátt til að hafa áhrif til góðs með lífsháttum okkar.
 
Önnur áskorun er þróun gervigreindar en hún og fylgifiskar hennar hafa orðið raunverulegri í hugum margra á undanförnum mánuðum. Gervigreind getur gert ótrúlega hluti. Ég get beðið hana að skrifa menntastefnu fyrir vinstri-grænan stjórnmálaflokk og fengið plagg ekki ósvipað plaggi minnar eigin hreyfingar – án þess að halda tuttugu fundi og deila um einstakar setningar. En vill fólk ekki vita hvað öðru fólki raunverulega finnst, fremur en að lesa tölvuskrifað plagg? Eins er með skáldverk, fræðirit og ræður eins og þessa. Liggur gildi þeirra ekki í að vera tjáning fólks, ófullkomin en um leið mannleg og lifandi? Höfum við í raun og veru minnsta áhuga á texta sem manneskja hefur ekki samið eða mynd málaða af vél, sama hversu tæknilega fullkomin slíkt verk kynni að vera? 
 
Gervigreindin vekur spurningar um menntun, vinnumarkað, pólitíska umræðu, neysluvenjur og margt fleira. En fyrst og síðast vekur hún spurningar um mennskuna, hver við erum og hver við viljum vera. Að sjálfsögðu þurfum við að skilja tæknina til að geta stýrt henni og tryggt að hún nýtist til góðra verka. En mestu skiptir að við skiljum okkur sjálf til að geta tryggt að mennskan lifi af allar þær umfangsmiklu breytingar sem nú eru að verða.
 
Páll Skúlason heimspekingur benti á að menntun snerist um að efla mennsku – að efla okkur sem menn og sem þátttakendur í samfélagi. Menntun væri ekki aðeins þjálfun í tiltekinni tækni eða öflun þekkingar. Hún væri þroskaferli sem leiddi að markmiði. Og til þess að ná því markmiði þyrfti að skilja mennskuna, skilja fólk. Menntun er lykilatriði til að mæta þessum stóru áskorunum. Þær byrja og enda á okkur sjálfum. 
 
Kæru landsmenn
 
Á einum af rigningardögunum mörgu í maí flykktust leiðtogar Evrópu til Íslands til þess að ræða hvernig við getum sem best tryggt þau gildi sem við viljum eiga saman: Lýðræði, mannréttindi og réttarríkið. Þar ræddum við sérstaklega innrás Rússa í Úkraínu og hvað við getum gert til að koma á réttlátum friði. En við ræddum líka þá staðreynd að lýðræðið á víða undir högg að sækja. Andlýðræðislegum öflum hefur vaxið ásmegin víða um heim vegna þess að þau þykjast bjóða upp á einfaldar lausnir við flóknum viðfangsefnum. Við þurfum að velta fyrir okkur hvers vegna slík gylliboð freista nú meira en oft áður. Eftir seinni heimsstyrjöldina var heimurinn rækilega bólusettur fyrir lýðskrumi hins sterka en vörnin sem fólst í þeirri hrikalegu reynslu virðist vera að dofna.
 
Á þessum degi fögnum við lýðveldinu. Við fögnum líka lýðræðinu sem hefur orðið sannur aflvaki framfara á Íslandi. Í sjálfstæðisbaráttunni skipti miklu sannfæringin um að okkur miðaði fram á veg. Sá maður sem við helst þökkum þennan áfanga, Jón Sigurðsson, afmælisbarn dagsins, hafði þessa einlægu sannfæringu og segir eftirfarandi í ritgerð sinni Um skóla á Íslandi: 
 
Öll framför mannkynsins er byggð á því að halda við því, sem einu sinni er numið, og láta það gánga frá einum knérunni til annars ; með því að ein kynslóð býr þannig undir fyrir aðra, verður því komið til leiðar, að mannkyninu fer alltaf fram, þegar á allt er litið, þó oft hafi verið farið afvega, og stundum sýnist það heldur reka en gánga.
 
Það getur sýnst reka þegar sólin felur sig á bak við ský um tíma en við vitum líka að saga Íslands er saga mikillar velsældar á skömmum tíma. Og þar hafa leiðbeiningar Jóns Sigurðssonar skipt máli. Menntun var eitt af því þrennu sem hann taldi lykilatriði fyrir sjálfstæði Íslands ásamt löggjafarvaldi og verslunarfrelsi. Í ritgerð sinni um skóla talaði Jón skýrt: Skólunum var ætlað að stuðla að framförum samfélagsins og mæta þörfum á hverri tíð. Hann taldi að menn mættu ekki skirrast við þeim kostnaðarauka sem kljúfandi væri – og Jón þurfti að eiga við féfast íslenskt þing – því engum peningum væri varið heppilegar en þeim sem keypt væri fyrir andleg og líkamleg framför sem mest mætti verða.
 
Til þess að stuðla að almennum samfélagslegum framförum er nauðsynlegt að hugsa samfélagið út frá fólkinu sem það byggir. Menntun, menning og mennska eru af sömu rót runnin, hið mannlega og ræktun þess, tilgangur menntunarinnar getur því aldrei verið sá einn að undirbúa einstaklinginn fyrir ákveðin störf síðar á æviskeiðinu. 
 
Til að takast á við áskoranir á sviði umhverfismála, tæknibreytinga og fjölbreyttari samfélaga mun menntun skipta sköpum. Það hefur sjaldan verið meiri þörf á öflugri menntun í landinu – meðal annars til að mæta þeirri staðreynd að hér hafa aldrei búið fleiri af erlendum uppruna. Fjölbreytninni fylgir fegurð og gróska en um leið kallar hún á aukinn kraft í íslenskukennslu og íslenskumenntun,kallar á fjölbreytta menntun til að tryggja að við öll getum fundið okkar tækifæri í samfélaginu og skilið hvert annað. Fátt tryggir félagslegan hreyfanleika betur en jafnt aðgengi að menntun. Aukin áhersla á menntun mun marka veginn til framfara og tryggja að hér á landi verði áfram gott samfélag. 
 
Kæru landsmenn.
 
17. júní er alltaf fallegur dagur, alveg óháð því hvaða veður gráglettin náttúruöflin skenkja okkur. Hann er fallegur því að hann minnir á sameiginlega sögu okkar aftur í aldir. Á þessum fallega degi munum við af hverju við erum þjóð, að við eigum saman samfélag – við stöndum ekki ein á berangri heldur saman; erum öll hluti af stærri heild. Við eigum gildi sem hafa fylgt okkur í allri sögu okkar sem fullvalda þjóð: lýðræði, jöfnuð og mannréttindi. Þessi gildi eru ekki til að stæra sig af heldur nauðsyn sem nærir okkur og veitir kraft til að halda áfram því verki sem við höfum fengið í arf frá forfeðrum okkar. 
Til hamingju með daginn. 
 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta