Hoppa yfir valmynd
14. október 2023 DómsmálaráðuneytiðGuðrún Hafsteinsd

Setningarræða hjá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum 2023

Kæra sveitarstjórnarfólk og aðrir góðir gestir!

Ég þakka tækifærið að fá að ávarpa ykkur hér í dag á 47. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Mikil gróska er á Suðurnesjum og eru tækifærin hér.

Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að starfa með og fyrir ykkur síðastliðin tvö ár, frá því ég tók sæti á þingi. Það hefur heldur betur verið ævintýralegur tími. Ég þakka ykkur öllum fyrir einstaklega gott hvet ykkur til áframhaldandi góðra verka í sveitarfélagsmálum á Suðurnesjum.

Ef ég horfi til baka til þessara tveggja ára hefur svo sannarlega ýmislegt borið á fjöru Suðurnesjamanna og tækifærin eru mörg. Vöxtur sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur verið gríðarlegur en á síðastliðnum tveimur árum hefur íbúum hér fjölgað um 10%. Ekkert útlit er fyrir annað en að þessi vöxtur haldi áfram enda er gott að búa hér og starfa. Íbúafjölgun gerist þó alls ekki að sjálfu sér og er ljóst að hér þarf að tryggja stöðuga og næga uppbyggingu íbúðarhúsnæðis sem og halda vel utan um íbúa sveitarfélaganna. Það hefur heldur betur tekist vel til enda íbúðauppbygging mikil og sveitarfélögin hafa gætt þess að hafa nægt framboð lóða. Heilu hverfin rísa, eins og glöggt má sjá hér í öllum sveitarfélögum.

 

Hér er allt til alls og miðað við öll þau tækifæri sem finna má á Suðurnesjum er ómögulegt annað en að svæðið vaxi og eflist enn frekar, næstu árin. Hvergi á landinu eru viðlíka gæði. Á Suðurnesjum er ein öflugasta verstöð landsins, einn vinsælasti ferðamannastaður landsins og hliðið að Íslandi, Keflavíkurflugvöllur. Hér er orka framleidd, mikil matvælaframleiðsla, góðir skólar og frábært íþróttastarf, hlúð að skapandi greinum og svo mætti lengi telja. Atvinnulífið og sveitarfélögin öll eru í sókn.

Í apríl 2021 skrifaði ég grein sem ég nefndi „Ásbrú okkar Kísildalur“. Þar vísaði ég til þess að þetta svæði hefði alla burði til að taka forystu á landsvísu hvað varðar uppbyggingu á hugverkaiðnaði. Ég er sannfærð um að Suðurnesin hafa alla burði til að geta orðið vagga nýsköpunar og tækni hér á landi, rétt eins og Kísildalur í Bandaríkjunum.

Með sama hætti og Kísildalurinn varð til vegna byggðalegrar framsýni og einstaklingsframtaks gæti Ásbrú eflst og orðið hreiður hátækni, miðstöð sérhæfingar í hugbúnaði, gervigreindar, gagnavinnslu, tölvuleikjagerðar, matvælaframleiðslu, orkuframleiðslu og hvers sem okkur dettur í hug. Það er ótrúlegt en satt en tölvuleikir eru orðnir stærri en kvikmynda-, íþrótta og tónlistargeirarnir til samans. Bara hér á landi starfa á fjórða hundrað manns nú þegar við tölvuleikjagerð. Eins og ein stóriðja! Og hér á Suðurnesjum er eina sérhæfða námsbrautin í tölvuleikjagerð.

Á undanförnum árum hafa stórkostlegir hlutir gerst sem renna stoðum undir það að þessi framtíðarsýn er að verða að veruleika. Grænir iðngarðar eru að rísa þar sem áður stóð til að bræða málm! Í nýliðinni kjördæmaviku fórum við þingmenn kjördæmisins hér um og kynntum okkur framtíðaráætlanir grænna iðngarða í Helguvík. Það var stórkostlegt að upplifa þann kraft sem þar er að finna og heyra að nú þegar er búið að skrifa undir leigusamning við fyrsta fyrirtækið.

Tækifæri okkar til vaxtar í þessum geira eru gríðarleg. Við þurfum hér eftir sem hingað til að sýna frumkvæði, djörfung og pólitískan vilja.

Já ég nefni pólítískan vilja. Það var ánægjulegt fyrir okkur þingmenn kjördæmisins að hitta ykkur mörg á árlegum fundi okkar í síðustu viku og finna þann kraft, frumkvæði og djörfung og pólítískan vilja til að gera vel - samfélagi ykkar til heilla. Við þingmennirnir ykkar erum með ykkur í þeirri vegferð. Gleymum því aldrei að saman erum við sterkari og það er gott að finna þann jákvæða anda sem er á milli okkar allra.

Á Suðurnesjum eru jafnframt miklar áskoranir og hafa jarðhræringar síðustu ára sett svip sinn á lífið hér. Þrátt fyrir það sjáum við fram á að Suðurnesin haldi áfram að vaxa, að fólk og fyrirtæki muni vilja flytja starfsemi sína hingað í stórum stíl á komandi árum. Því verður það krefjandi verkefni fyrir ykkur sem hér stýrið að sjá til þess að allir innviðir séu góðir og að gæði búsetu og rekstrar verði framúrskarandi á heimsvísu.

Á fundi með ykkur í síðustu viku var rætt um giftusamlega niðurstöðu Suðurnesjalínu 2 og vil ég nota tækifærið og þakka hlutaðeigandi fyrir farsæla lausn í því máli. Það mun verða mikil lyftistöng fyrir svæðið hér þegar við getum farið að bjóða upp á aukna og öruggari raforku til uppbyggingar atvinnulífs.

Þá er ljóst að hér eru áhyggjur af því að á svæðinu sé ekki starfandi almannavarnafulltrúi hjá Lögreglunni á Suðurnesjum, sér í lagi í ljósi tíðra almannavarnaraðstæðna sem komið hafa upp síðustu ár. Ég hef meðtekið þær áhyggjur og deili þeim með ykkur. Ég fæ því að deila þeim ánægjulegu fregnum með ykkur að í samstarfi við lögreglustjórann á Suðurnesjum hefur málið verið leyst og til starfa mun taka almannavarnafulltrúi hjá embættinu. Er það nú þegar í ferli.

Eitt af áherslumálum okkar þingmanna suðurkjördæmis, sem við höfum unnið mikið að síðasta árið, er að tryggja og bæta heilbrigðisþjónustu á svæðinu. Það er því gleðiefni að nú hafa verið gerðar mikilvægar umbætur með opnun einkarekinnar heilsugæslu, sem hóf rekstur í september. Þá er búið að ráðast í miklar endurbætur á Sjúkradeild HSS og ný bráðamóttaka tekin í notkun með fullkomnustu tækjum sem völ er á. Er nú hægt að fullyrða að glæsilegasta bráðamóttaka landsins er nú í Reykjanesbæ.

Framangreindu til viðbótar er vinna hafin við að klára tvöföldun Reykjanesbrautar við Straumsvík og verður þá langþráður draumur um tvöföldun Reykjanesbrautar orðinn að veruleika.

Það er ljóst að margt jákvætt hefur gerst á Suðurnesjum á tiltölulega stuttum tíma. Og því ber að fagna. Vegferðin heldur áfram og verkefnin verða áfram stór og mikilvæg. Við munum takast á við þau í sameiningu. Gangi ykkur vel í öllum ykkar störfum hér eftir sem hingað til.

Ég þakka aftur fyrir tækifærið til að ávarpa ykkur í dag og framundan er einstaklega áhugaverð dagskrá. Hikið ekki við að vera í sambandi við okkur þingmennina. Saman náum við árangri.

Takk fyrir mig.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta