Hoppa yfir valmynd
28. október 2023 DómsmálaráðuneytiðGuðrún Hafsteinsd

Opnunarávarp á Kirkjuþingi 2023

Biskup Íslands, forseti kirkjuþings og aðrir kirkjuþingsfulltrúar.

Það er mér mikill heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag við setningu Kirkjuþings í Grensáskirkju.

Að vera hluti af kirkju er að eiga samfélag og ég hef átt þetta samfélag. Ég hef átt þetta samfélag alla ævi og það hefur skipt mig máli.

Það hefur skipt mig máli að tilheyra og eiga hlutdeild í kristnum gildum sem við öll sem hér erum höfum sammælst um að séu okkar gildi í lífinu. Það er hverri manneskju mikilvægt að tilheyra.

Í bleikri messu í kirkjunni minni, Hveragerðiskirkju, um síðustu helgi minntum við okkur á að enginn fer einn í gegnum lífið og í alvarlegum áföllum eins og veikindum og missi en einnig í gleði og kærleik er gott að eiga það samfélag sem kirkjan okkar er.

Að fá tækifæri til að fylgja samfélagi kirkjunnar frá vöggu til grafar er einstakt.

Já, ég sagði ykkur að ég kirkjan hefði verið hluti af mínu lífi alla ævi. Ég er alin upp í Hveragerðiskirkju. Ég var nemandi í sunnudagaskólanum alla mína grunnskólagöngu. Þá voru einstök hjón sem sáu um sunnudagaskólann ásamt Sr. Tómasi Guðmundssyni, þau Sævar og Klara. Þessi einstöku hjón náðu því að nánast fylla kirkjuna á hverjum sunnudegi. Þau höfðu sérstakt lag á að glæða biblíusögurnar lífi og svo söfnuðum við biblíumyndum og maður vildi alls ekki missa af þeim.

Ég hef stundum sagt í gríni að við systurnar vorum svo duglegar að mæta í sunnudagaskólann líklega vegna þess að þetta voru  einu skiptin sem okkur var skutlað eitthvert. Pabbi hafði það fyrir sið að keyra okkur alltaf í sunnudagaskólann síðan fór hann niður á gamla hótelið og settist niður með eigandanum þar honum Eiríki blinda og spjallaði um pólítík við Eirík þennan klukkutíma sem sunnudagaskólinn var. Síðan hlupum við systurnar alltaf niður á hótel og báðum til Guðs að pabbi væri ekki búin að tala því þá fengum við stundum Appelsín í gleri á meðan við biðum og ef við vorum extra heppnar að þá fengum við lakkrísrör með og þá signdum við okkur og þökkuðum Guði og Jesú fyrir að hafa bænheyrt okkur.

Þegar maður elst upp í litlu og nánu samfélagi úti á landi verður kirkjan óhjákvæmilega miðpunktur samfélagsins. Þar koma bæjarbúar saman á gleði- sem og sorgarstundum. Kirkjan verður sálgæsluhús, tónleikahús, menningarhús og svo margt fleira.

Kirkjan, sem áður fyrr varðveitti sameiginleg gildi og tengdi saman samfélagið hefur er ekki lengur þessi sameinandi þáttur samfélagsins. Kirkjan, sem á að vera tengiliður milli kynslóða, flytja niður foreldrahefðir og siði til yngri kynslóða og tryggja samfellt flæði dýrmætrar þekkingar og siðferðislegra stefna, getur ekki uppfyllt það hlutverk sitt á meðan það stendur styrr um kirkjuna. Þess vegna þurfum við nauðsynlega frið um kirkjuna. Bæði að utan en ekki síst innan kirkjunnar sjálfrar. Það tapa allir á umræðunni eins og hún er í dag.

Með lögum um þjóðkirkjuna frá árinu 1997 var sjálfstæði kirkjunnar aukið verulega og ákvörðunarvald um skipan mála í þjóðkirkjunni fært í ríkari mæli til kirkjuþings. Sú þróun hélt áfram með frekari breytingum sem urðu á þeim lögum og kirkjuþing setti í auknum mæli starfsreglur um fjölmörg atriði í stjórnskipan kirkjunnar sem áður voru bundin í lög. Þannig hefur stjórnsýsla kirkjunnar hægt og rólega breyst og eflst auk þess sem mikil reynsla hefur verið byggð upp í starfi kirkjuþings. Með nýjum heildarlögum um þjóðkirkjuna árið 2021 fékk kirkjan enn meira sjálfstæði auk þess sem flest þeirra ákvæða sem lutu að starfsemi kirkjunnar voru færð úr lögum og í starfsreglur frá kirkjuþingi.

Í lögunum kemur skýrt fram að „Kirkjuþing hafi æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar“ og að „Um biskupskjör fari samkvæmt starfsreglum kirkjuþings.“ Það hefur því legið fyrir frá árinu 2021 að ríkisvaldið myndi ekki og ætli ekki að hlutast frekar til um biskupskjör enda tók þjóðkirkjan stjórn á eigin málefnum samkvæmt lögunum og hætti að vera stofnun ríkisins. Það hefur því legið fyrir í rúmlega tvö ár að kirkjuþings bíði það verkefni að setja starfsreglur um biskupskjör og staðfesta umboðs biskups, eða kjósa nýjan. Ég leyfi mér að binda vonir við að það verði gert á því kirkjuþingi sem nú er sett.

Þegar ég tók við embætti dómsmálaráðherra og þar með málefnum kirkjunnar fékk ég jafnframt sama verkefni og margir dómsmálaráðherrar á undan mér; að greiða úr áralöngum ágreiningi ríkis og kirkju um fjárveitingar ríkisins. Með Kirkjujarðasamkomulaginu frá 1997 og viðbótarsamningi frá 1998 var mörkuð sú skylda ríkisins til að greiða þjóðkirkjunni fjárhæð sem samsvarar árslaunum ákveðins starfsmannahóps kirkjunnar. Samningarnir voru undirritaðir af fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra og var skyldan til að efna þá lögfest með eldri lögum um þjóðkirkjuna frá 1997. Fram til ársins 2010 efndi ríkið þetta samkomulag að fullu en frá því ári hafa framlög ríkisins verið skorin niður með því að setja árlega lögfesta bráðabirgðarákvæði þess efnis. Í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 var framlagið samkvæmt Kirkjujarðasamkomulaginu skert enn frekar auk þess sem sóknargjöld voru einnig skert með bráðabirgðaákvæðum við fjárlög hverju sinni. Þessar skerðingar hafa haldið áfram fram til dagsins í dag þrátt fyrir að fyrirkomulag á greiðslum ríkisins til þjóðkirkjunnar hafi verið einfaldað til muna með lögum nr. 153/2019 og lögfest að þjóðkirkjan beri fulla ábyrgð á eigin fjármálum og ákveði sjálf fjölda starfsmanna sinna.

Í mínum huga liggur ljóst fyrir að sú staða sem nú er uppi, og hefur verið uppi um langa hríð, er óforsvaranleg og því er aðkallandi að gera breytingar á. Ég hef í því skyni ákveðið að setja á fót stýrihóp með það hlutverk að endurskoða fyrirkomulag sóknargjalda til frambúðar og sem tryggir fjárhagslegt öryggi og þar með sjálfstæði kirkjunnar.

Við þurfum að ná sáttum um fyrirkomulagið á fjárhagslegum samskiptum ríkis og kirkju og sú umræða er auðvitað samofin umræðunni um fullan aðskilnað ríkis og kirkju. Það getur aldrei orðið þannig að ríkið hætti algjörlega að hafa nokkur afskipti af fjármálum trúfélaga. Sú umræða fer hvergi og margir geta ekki viðurkennt að þjóðkirkjan hafi hlutverk eða eigi erindi við samtímann. Deilur innan kirkjunnar hjálpa lítið í þessari umræðu, svo að það sé sagt, og fellir skugga á veigamikinn þátt kirkjunnar í okkar velferðarsamfélagi. Það er vegna þessa sem það er afar brýnt að ríkið og kirkjan nái saman um að styrkja samband sitt og einnig sjálfstæði kirkjunnar og víðtæka sátt þar um.

Ágætu gestir á kirkjuþingi,

Fram undan er þing sem ég vona innilega að verði bæði eljusamt og heilladrjúgt fyrir þjóðkirkjuna. Það skiptir miklu máli að störf ykkar verði farsæl og því óska ég ykkur blessunar og velgengni í ykkar störfum.

Þegar ég er spurð að því af hverju ég er trúuð þá fer ég gjarnan með ljóð eftir Steingrím Thorsteinsson og ég vil gjarnan ljúka ávarpi mínu þannig.

Trúðu á tvennt í heimi.
Tign sem æðsta ber.
Guð í alheims geimi.
Guð í sjálfum þér.

 

Kærar þakkir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta