Efnahagslegt jafnrétti - grein Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra í Morgunblaðinu á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars 2024
Efnahagslegt jafnrétti verður umfjöllunarefni kvennanefndarfundar Sameinuðu þjóðanna sem hefst í næstu viku. Jafnrétti kynjanna er eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og því miður er það svo að heimurinn á líklega lengst í land með að ná því markmiði af öllum heimsmarkmiðunum. Þrátt fyrir árangur Íslands í jafnréttismálum og að Ísland hafi í fjórtán ár verið efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins þegar kemur að kynjajafnrétti á alþjóðavísu mælist enn kynbundinn launamunur á Íslandi eins og annars staðar í veröldinni.
Við útrýmum hvorki kynbundnum launamun né náum fram jafnrétti á vinnumarkaði með því að sitja og bíða eftir því að það gerist af sjálfu sér. Ef ekkert er að gert, þá gerist ekkert. Jafnlaunavottun, sem var lögfest hér á landi árið 2017, hefur valdið viðhorfsbreytingu á vinnumarkaði og kynbundinn launamunur hefur minnkað jafnt og þétt. En betur má ef ef duga skal.
Árum saman hefur konum verið sagt að aukin menntun sé lykill að launajafnrétti. En nú hafa erlendar rannsóknir sýnt, meðal annars rannsóknir Claudiu Goldin sem hlaut Nóbelsverðlaun í hagfræði á síðasta ári, að launamunur kynjanna eykst með aukinni menntun og hærri tekjum kvenna. Með öðrum orðum er kynbundinn launamunur mestur hjá þeim hópum kvenna sem hæstu launin hafa.
Við höfum líka heyrt því fleygt að konur hafi ekki nægan metnað, að þær vilji ekki axla ábyrgð, hafi valið ranga starfsgrein, biðji ekki um jafn há laun og karlar og fleira í þeim dúr. Það sé því þeim sjálfum að kenna ef þær fá lægri laun en karlkyns samstarfsmenn í sömu eða sambærilegum störfum. En rannsóknir bæði hérlendis og erlendis hafa leitt í ljós að launamun kynjanna má fyrst og fremst rekja til kynskipts vinnumarkaðar og kerfisbundins vanmats á störfum kvenna. Þeim störfum sem teljast til hefðbundinna kvennastarfa var lengst af sinnt af konum inni á heimilum án launa, svo sem umönnun sjúkra, aldraðra og barna. Með samfélagslegum breytingum hafa störfin flust út af heimilunum en þeim er þó enn að stærstum hluta sinnt af konum.
Á tímum heimsfaraldurs Covid-19 kom mikilvægi hinna hefðbundnu kvennastarfa skýrt í ljós þegar konur sem unnu við umönnun aldraðra og veikra, störfuðu á leikskólum og við kennslu ungra barna mættu til vinnu á meðan aðrar stéttir gátu sinnt sínum störfum að heiman í fjarvinnu. Að þessum störfum hafi verið sinnt lagði grunninn að því að halda samfélaginu okkar gangandi.
Til þess að leiðrétta skekkjuna sem felst í kynbundnum launamun þarf að skoða áhrif þess að hefðbundin kvennastörf hafa lengst af verið unnin launalaust og rýna í það félagslega samhengi sem veldur því að þau eru enn metin minna virði en önnur störf sem gera kröfu um sambærilega menntun, reynslu og hæfni.
Alþjóðavinnumálastofnunin hefur um árabil lagt áherslu á að atvinnurekendur nýti virðismatskerfi í þágu launajafnréttis þar sem gætt sé jafnvægis í kvenlægum og karllægum matsþáttum.
Aðgerðarhópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem ég skipaði 2021 hefur skilað tillögum sem miða að þvi að ná fram launajafnrétti á vinnumarkaði með áherslu á virðismat starfa. Þær snúast um að meta virði ólíkra starfa með markvissum hætti þannig að unnt sé að leiðrétta þann launamun kynja sem eftir stendur og skýrist einkum af kynskiptum vinnumarkaði.
Með heildstæðu virðismati starfa á vinnumarkaði getum við brugðist við kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum og þannig komist nær markmiði okkar um að eyða kynbundnum launamun. Það er löngu kominn tími til. Gleðilegan alþjóðlegan baráttudag kvenna!