Hoppa yfir valmynd
01. maí 2024 DómsmálaráðuneytiðGuðrún Hafsteinsd

Ávarp í lögreglumessu

Kæra lögreglufólk og aðrir góðir gestir.

Það er mér mikill heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag í lögreglumessu á degi verkalýðsins. Hér eru saman steypt tvö málefni sem standa mér afar nærri. Það eru annars vegar Kirkjan, og hins vegar lögreglan. Ég hef áður sagt að vera hluti af kirkju er að eiga samfélag og ég hef átt þetta samfélag. Ég hef átt þetta samfélag alla ævi og það hefur skipt máli.

Ég á góðar æskuminningar frá samveru í kirkjunni minni í Hveragerði. Þar hef ég átt mínar mestu gleðistundir en einnig mínar þungbærustu stundir. Hvort sem er í gleði eða sorg finnst mér gott að finna friðinn og öryggið í kirkjunni. Ég sótti sunnudagaskóla alla sunnudaga langt fram á unglingsárin. Á tímabili var mesta aðdráttaraflið að safna biblíumyndum sem margir muna eftir en með hækkandi aldri breytast þarfirnar og þar með hlutverk kirkjunnar í mínu daglega lífi.

Ég man einnig vel mín fyrstu kynni af lögreglunni. Það var í sex ára bekk er löggan kom og var með umferðarfræðslu. Þar rétt eins og í kirkjunni fékk maður endurskinsmerki og annað góss en fræðslubækur hafði maður fengið sendar heim frá Umferðarskólanum og því var fylgt eftir er löggan kom í skólann. Rétt eins og gagnvart kirkjunni forðum að þá breytast þarfirnar og í stað þess að vera í umferðarskóla hefur maður reynt að halda sér á löglegum hraða á vegum landsins.

Rétt eins og maður var alin upp við að bera virðingu fyrir lögreglunni að þá var maður einnig alin upp við að bera virðingu fyrir Jesú, fyrir Guði:

„Af Guðs óttanum gefðu mér að ganga í dag svo líki þér“

Og víst er að ef við myndum fylgja barnabæninni góðu sem við öll þekkjum að þá myndi löghlýðni líklega aukast umtalsvert.

Nú er ég klæddur og kominn á ról

Kristur Jesús veri mitt skjól

Af Guðs óttanum gefðu mér

Að ganga í dag svo líki þér.

En því miður ná ekki allir í lífsins dansi að halda sér réttu megin við lögin. Það getur verið flókið fyrir okkur mannfólkið að lifa í nánu sambýli. Og þó við séum öll fólk og eins í grunninn að þá er bakgrunnur okkar ólíkur og oft þarf ekki mikið til þannig að kastist í kekki í samskiptum manna á millum.

Við þekkjum það öll að í upphafi Íslandsbyggðar var mikill ófriðartími á Íslandi.  Rétt fyrir árið 1000 var í uppsiglingu algjör upplausn í landinu þar sem þjóðin var orðin skipt á milli heiðni og kristni. Á Sturlungaöld börðust hér höfðingar landsins á banaspjótum um yfirráð og völd. Aðrir eins ófriðartímar hafa ekki verið í þessu landi síðan. Enginn var friðurinn, engin var reglan enda ritaði þá Njáll á Bergþórshvoli þá fleygu setningu sem enn stendur svo fallega fyrir sínu „Með lögum skal land vort byggja og ólögum eyða“. Það varð nauðsynlegt að koma hér á lögum og reglu svo hér gæti samfélag þrifist og samskipti milli manna gætu gengið eðlilega fyrir sig án þess að nokkur hlyti skaða eða jafnvel bana af.

Þessi allsherjarregla á enn við og hefur að mínu mati sjaldan verið mikilvægara en einmitt núna að treysta þær stoðir sem tryggja öryggi og friðinn í þessu landi. Þar skiptir lögreglan höfuðmáli. Það er lögreglan sem stuðlar að öryggi okkar samfélags. Það er lögreglan sem stillir til friðar, sem leiðbeinir og sem hlúir að og þannig má segja að kirkjan og lögreglan fléttast saman. Stofnanir sem báðar veita stuðning við suma viðkvæmustu einstaklinga í okkar samfélagi. Stuðningur við okkar minnstu bræður og systur. Stofnanir sem báðar sinna fjölmörgum mikilvægum verkefnum innan samfélagsins en oft utan þeirra skilgreinda málefnasviðs. Mæta hverri manneskju af sömu virðingu. Það eru hin eiginlegu kristnu gildi.

Í síbreytilegum heimi er mikilvægi lögreglunnar fyrir samfélagið ómælanlegt. Við sem samfélag höfum lagt áherslu á öryggi borgaranna auk umhyggju og stuðnings við þá sem mest þurfa. Lögreglan er einn af hornsteinunum sem samfélagið hvílir á, í gegnum skyldur sínar og kærleika sem þarf að vera kjarninn í starfi lögreglunnar.

Að vinna í lögreglunni er ekki einungis starf, heldur lífstíll sem krefst þrautseigju, tilfinningu og ástríðu fyrir réttlætishugsjóninni. Með lögum skal land byggja, en það getur verið erfiðara en margir átta sig á að finna kærleikann og tilganginn í starfinu. Að standa vörð um almenning og gæta laga og réttvísinnar má aldrei vera einungis á yfirborðinu – heldur djúpt í kjarna starfa lögreglu.

Í ljósi aukinnar skipulagðrar glæpastarfsemi og breyttrar lýðfræðilegar samsetningar samfélagsins hafa verkefnin orðið fjölbreyttari en nokkru sinni áður. Lögreglan hefur þurft að aðlagast nýjum áskorunum, fjölda- og menningarbreytingum sem hefur verið fylgifiskur þróunar samfélagsins. Því miður hefur álagið á lögreglunni vaxið samhliða þessum breytingum.

En þrátt fyrir vaxandi áskoranir er starfsemi lögreglunnar ómetanleg. Hún ber ekki einungis skyldur, heldur hefur lögreglan einnig mikla möguleika á að móta það samfélag sem við búum í. Með auknum samskiptum við nærsamfélagið og sterkari tengslum milli lögreglunnar og almennings skapast grundvöllur til að byggja upp öruggari og tryggari umhverfi fyrir alla. Með uppbyggingu á svæðisbundnu samráði vegna afbrotavarna fá lögreglan og hennar helstu samstarfsaðilar innsýn í áskoranir hvers svæðis. Það gildir jafnt um höfuðborgarsvæðið og á landsbyggðinni. Lögreglan er nefnilega ekki einungis vörn gegn afbrotum heldur einnig vörn gegn því niðurrifi sem afbrot geta haft á samfélagið.

Ég vil að lokum fá að lesa upp tilvitnun í Neil Basu, sem er aðstoðaryfirlögregluþjónn í bresku lögreglunni. Í viðtali við Guardian nýverið sagði hann: „Eina leiðin fyrir okkur til að koma í veg fyrir alvarlega glæpi hér á landi er að almenningur verði lögreglan og lögreglan verði almenningur. Samfélög munu sameinuð sigrast á skipulagðri glæpastarfsemi. Sterk, samheldin samfélög, hver sem trú þeirra, kynþáttur eða uppruni er. Samfélög sem vinna saman að því að halda landi okkar öruggu.“

Kæru kirkjugestir!

Ég vil fá að nota tækifærið og minnast í örfáum orðum á félaga ykkar og gjaldkera Lögreglukórsins hann Guðmund Inga Ingason sem lést snögglega fyrir aldur fram þann 14. apríl síðast liðinn. Það var Guðmundur sem sendi mér póst þann 16. febrúar og bauð mér að flytja ávarp hér í dag. Það var auðsótt mál af minni hálfu. Ekki grunaði mig að tveimur mánuðum síðar yrði hann allur.  Guðmundur helgaði lögreglunni starfskrafta sína og var framúrskarandi lögreglumaður. Ég vil votta fjölskyldu hans og ykkur öllum samúð mína og bið Guð að blessa minningu Guðmundar Inga um alla framtíð.

Já Guðmundur var stoltur kórfélagi og var búinn að nefna við mig að í mars á þessu ári fagnaði Lögreglukórinn 90 ára afmæli sínu, stofnaður 1934.

Fátt sameinar okkur meira en tónlist og söngur og það er yndislegt að hlusta hér á kórinn og ég veit það fyrir víst að fyrir ykkur sem eruð í erilsömu og krefjandi starfi að þá er það nærandi að eiga það samfélag sem kórinn er. Um leið og ég óska kórnum til hamingu með afmælið þakka ég þann heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag.

Takk fyrir mig.

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta