Hoppa yfir valmynd
04. maí 2024 DómsmálaráðuneytiðGuðrún Hafsteinsd

Ávarp á aðalfundi Rauða krossins 2024

Kæru vinir.

Það er mikill heiður að fá að vera með ykkur hér í dag. Ég vil byrja á að þakka Silju Báru R. Ómarsdóttur, formanni Rauða krossins, fyrir gott ávarp. Það verður ekki deilt um þá virðingu sem Rauði krossinn nýtur fyrir öflugt starf á heimsvísu – fyrir að veita áreiðanlega aðstoð og stuðning til þeirra sem þurfa mest á því að halda í yfir 150 ár.

Það er einstakt að sjálfboðaliðasamtök hafi 14 milljónir sjálfboðaliða víðs vegar um heiminn. Meira að segja hér á Íslandi eru sjálfboðaliðarnir um 2300. Öflugt net fólks sem starfar með mannúð að leiðarljósi að hinum ýmsu verkefnum um land allt. Verkefnin eru mörg og þau hafa fest sig í sessi sem mikilvægur hluti af okkar samfélagi. Þau geta verið framúrstefnuleg og miða að því að þjónusta og aðstoða þá einstaklinga sem eru í viðkvæmri stöðu. Allt frá því að flokka fatnað sem kemur í stórum stíl, afgreiða í einni af 19 verslunum Rauða krossins, sem mynda stærstu fataverslunarkeðju landsins, vera heimsóknarvinur, taka á móti og utan um okkar minnstu bræður og systur, sinna neyðaraðstoð í hamförum, og ég gæti haldið áfram.

Það er alveg ljóst og í raun óumdeilt gildi Rauða Krossins þegar við sem þjóð tökumst á við áföll og erfiðleika. Við höfum séð mikilvægi Rauða krossins í heimsfaraldrinum og í jarðhræringunum á Reykjanesi. Skýrt dæmi eru þær fjöldahjálparmiðstöðvar sem Rauði krossinn kom upp þegar þess gerðist þörf. Þær aðgerðir hafa verið sérlega mikilvægar í að hjálpa fólki í líklega erfiðustu aðstæðum lífsins. Eins og þið eflaust vitið þá kem ég frá Hveragerði og það hefur nokkrum sinnum gerst í Hveragerði, til dæmis ef Hellisheiðin hefur lokast og eftir jarðskjálftann árið 2008, að fjöldahjálpastöðvar hafi verið settar upp í mínum heimabæ. Og fyrst ég er byrjuð að tala um Hveragerði get ég nefnt að móðir mín er ein þeirra 2300 sjálfboðaliða á Íslandi, en hún hefur starfað fyrir Rauða krossinn í mörg ár. Hún, ásamt fleiri konum úr Hveragerði, er í hannyrðahópi sem hittist einu sinni í viku til að prjóna eða sinna hannyrðum sem þær selja í Rauða kross búðinni í Hveragerði. Einnig hefur mér þótt óskaplega fallegt að mamma hefur í mörg ár útbúið svokallaðan „heimferðarpakka“ fyrir nýburamæður þar sem hún tínir saman allt sem þarf við fæðingu barns eins og til dæmis fatnað, bleyjur og fleira. Mörg þeirra verkefna sem Rauði krossinn sinnir af alúð fara ekki hátt enda unnin fyrir okkar viðkvæmustu íbúa.

Þrátt fyrir að hafa bæði fylgst með starfi Rauða krossins úr fjarska sem og í gegnum störf móður minnar, þá er mér enn í fersku minni sú dýrmæta reynsla sem ég fékk haustið 2022 á kvöldvakt með Frú Ragnheiði. Sú reynsla var ómetanleg fyrir mig og það er margt sem kom mér á óvart en fyrst og fremst ber ég mikla virðingu fyrir verkefninu og því fólki sem þar starfar.

(Um fjármögnunina ef vilji og ástæða er til:

Umræða hefur vaknað um fjármögnun lögbundinna almannavarnarverkefna og samstarf við einkaaðila á því sviði. Ég, sem talskona einkaframtaksins og sem einlægur stuðningsmaður hjálparsamtaka líkt og Rauða krossins og björgunarsveitanna, tel mikilvægt að stjórnvöld reyni eftir fremsta megni að styðja við rekstur umræddra samtaka og tel ekki æskilegt að ríkið sinni öllum verkefnum sjálft heldur nýti krafta samtaka, á borð við Rauða krossins, þegar þess er unnt. Ég mun að sjálfsögðu halda áfram að gera það og vonast til þess að samstarf okkar, stjórnvalda og Rauða krossins, verði áfram gott.

Það er hinsvegar ljóst, og það velkist í raun enginn í vafa um annað, að samtök þurfa að leita fjölbreyttra leiða til að fjármagna sig og ég ber virðingu fyrir því. Ein af þeim leiðum sem Rauði krossinn og Landsbjörg hafa valið er starfræksla spilakassa. Löngum hefur verið talað um mikilvægi þess að jafna samkeppnisstöðu á þeim markaði og ég get fullvissað ykkur um að ég mun vinna að því markmiði, eins og ég bæði sagt opinberlega og á fundum við Rauða krossinn.)

 

Með því að veita áreiðanlega aðstoð og stuðning til þeirra sem eru í neyð sýnir Rauði krossinn hvernig samstaða getur breytt lífi fólks til hins betra. Í gegnum tíðina hefur Rauði krossinn lagt áherslu á hlutleysi og óhlutdrægni. Samtökin veita hjálp án tillits til kynþáttar, trúarbragða eða pólitískra skoðana. Það eru afar mikilvægt og sjálfsögð mannréttindi. Það er fátt sem er Rauða krossinum óviðkomandi. Eitt af þeim málum sem falla undir mitt ráðuneyti eru málefni útlendinga. Við viljum að okkar kerfi tryggi að þeir einstaklingar sem nauðsynlega þurfa á vernd að halda fái hana. Við viljum einnig að málsmeðferðin sé skilvirk og fólk fái skjótt úrlausn mála sinna og verði virkir þátttakendur í okkar samfélagi. Rauði krossinn hefur látið til sín taka í þessum málaflokki og lagt áherslu á að skapa aðgengi að grunnþjónustu auk þess að veita umsjá og stuðning til einstaklinga í bágum aðstæðum.

Ég vil leggja áherslu á gagnrýna hugsun og áframhaldandi endurskoðun á útlendingalöggjöfinni. Við þurfum kerfi sem er í senn bæði mannúðlegt og skilvirkt, þar sem við stöndum vörð um réttindi og þarfir einstaklinga og samfélagið nýtur góðs af veittri aðstoð. Þannig getum við tryggt að þeir sem hingað leita og þurfi nauðsynlega aðstoð fái hana sannarlega, án þess að kerfi okkar og innviðir verði misnotaðir. Rauði krossinn spilar mikilvægt hlutverk í að þessari grundvallarstefnu verði fylgt, og að flóttamenn fái þann réttmæta og nauðsynlega stuðning sem þeir þurfa í neyð. Ég vil að lokum nota þetta tækifæri til að þakka Rauða krossinum hér á landi fyrir að standa alltaf vaktina þegar til þeirra er leitað. Eins og áður kom fram virðist ekkert vera þeim óviðkomandi og fyrir það erum við þakklát.

Kærar þakkir fyrir mig.

 

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta