Hoppa yfir valmynd
16. maí 2024 DómsmálaráðuneytiðGuðrún Hafsteinsd

Framsöguræða með útlendingafrumvarpi - styttri útgáfa

Virðulegi forseti,

Ég vil þakka þingheimi fyrir góðar og málefnalegar umræður sem við höfum átt hér í dag um þann viðkvæma málaflokk sem málefni útlendinga er.

Það er ljóst að þessi málaflokkur er krefjandi og löngu ljóst að við verðum að gera betur en við erum að gera í dag.

Við erum ekki eyland að þessu leiti og hafa aðrar þjóðir Evrópu þurft að takast á við verulega aukinn fjölda flóttamanna. En ekkert þeirra hefur tekist á við þann fjölda sem við höfum þurft að takast á við! Á rúmum áratug hefur því umsóknarfjöldi um alþjóðlega vernd aukist hér á landi um rúmlega 3700%.

Þetta þekkist hvergi annars staðar. Ef við berum okkur saman við Norðurlöndin sem eru þó að takast á við miklar áskoranir að þá erum við að taka á móti hlutfallslega langflestum umsækjendum um alþjóðlega vernd hvort sem er með eða án fjöldaflótta frá Úkraínu. Án Úkraínu erum við árlega að taka á móti 580 manns á hverja 100þ íbúa á meðan Danir taka á móti 43, Svíar 159, Noregur 75 og Finnar 84.

Hefur þessi mikla aukning umsókna reynt mikið á alla okkar innviði.

Flóttamannakerfið er neyðarkerfi ætlað fólki sem óttast um líf sitt og frelsi. Það er nauðsynlegt að fólk sem hingað kemur og þarfnast raunverulegrar verndar gegn ofsóknum og stríði að það fái vandaða og skjóta úrlausn sinna mála.

Alþjóðleg vernd er ekki dvalarleyfisflokkur fyrir einstaklinga sem eru í leit að betri lífskjörum

Því er brýnt að við horfum með raunsæjum og skynsamlegum hætti á málaflokkinn í heildi sinni og það hefur ríkisstjórnin nú gert.

Þann 20. febrúar síðastliðinn samþykkti ríkisstjórnin heildarsýn í málaflokknum. Þar kom fram það skýra markmið að fækka umsóknum frá einstaklingum sem eru ekki í þörf fyrir alþjóðlega vernd þar á meðal einstaklingum sem þegar hafa hlotið alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki, með lagabreytingum og skýrum skilaboðum stjórnvalda út á við. Einnig var lögð áhersla á að auka skilvirkni, draga úr kostnaði, og tryggja aðlögun þeirra sem hér setjast að.

Frumvarpið sem hér er rætt uppfyllir öll markmið þessarar heildarsýnar.

Þær breytingar sem við erum að leggja til í þessu frumvarpi miða meðal annars að því að samræma lög um útlendinga við löggjöf í öðrum Evrópuríkjum þá einkum Norðurlöndunum og taka þessar breytingar  fyrst og fremst á málsmeðferðarreglunum. Þá er einnig stefnt að því að auka skilvirkni innan stjórnsýslunnar, tryggja hagræðingu við nýtingu fjármagns og jafnframt fækka tilhæfulausum umsóknum um vernd.

Það er mjög mikilvægt að við komum þessum breytingum í gegn vegna þess að með breyttu regluverki náum við best stjórn á málaflokknum, veitum betri þjónustu og stuðlum að jöfnum tækifærum og þátttöku í samfélaginu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta