Hoppa yfir valmynd
23. maí 2024 DómsmálaráðuneytiðGuðrún Hafsteinsd

Ávarp á rýnifundi vegna almannavarna 2024

Ágætu fundargestir.

Allt frá því að jarðhræringarnar hófust á Reykjanesskaga í árslok 2019 hefur almannavarnakerfið unnið að fyrirbyggjandi aðgerðum og viðbrögðum til að takmarka tjón. Markmiðið hefur verið að greina hvernig sé best að vernda íbúa og mikilvæga innviði fyrir hraunrennsli ef eldgos hefst. Þessi undirbúningur stuðlaði m.a. að því að þegar fyrsta eldgosið hófst í nóvember 2023 var íslenska viðbragðskerfið eins vel undirbúið og hægt var.

Við vissum það auðvitað ekki þá, en þetta fyrsta eldgos var einungis upphafið að ítrekuðum eldgosum á svæðinu, enda höfum við síðan tekist á við sex eldgos. Það er óhætt að segja að þær áskoranir sem við höfum staðið frammi fyrir vegna jarðhræringanna séu jafn fjölbreyttar og þær eru margar. Það sýndi sig við þessar krefjandi aðstæður að rétt fólk á réttum stöðum, smæð samfélagsins og stuttar boðleiðir gegndu lykilhlutverki við úrlausn erfiðra mála.

Almannavarnakerfið og hlutaðeigandi aðilar hafa á síðustu mánuðum unnið ötullega að ýmsum aðgerðum og viðbrögðum til að takmarka tjón og eiga mikið hrós skilið. Og það má með sanni segja að við höfum staðist prófið, og getum verið virkilega stolt af viðbragðskerfi okkar, sem er í fremstu röð í alþjóðlegum samanburði.

En nú, sex mánuðum síðar, erum við enn að kljást við jarðhræringar á Reykjanesi. Umbrotahrinunni sem hófst með landrisi við Svartsengi í október 2023 er ekki lokið og kvikusöfnun er orðin 16 milljón rúmmetrar.
Á meðan kvika heldur áfram að safnast fyrir í kvikuhólfinu má fljótlega gera ráð fyrir nýjum kvikuhlaupum sem mynda ganga og geta endað í öðru eldgosi. Mælingar og líkanaútreikningar benda til þess að talsverð óvissa sé um framhaldið en mestar líkur eru á að gos komi upp í Sundhnúkagígaröð. Almannavarnir hafa biðlað til fólks í Grindavík að vera reiðubúið undir að grípa gæti þurft til rýminga með skömmum fyrirvara ef dregur til tíðinda.
Við þekkjum þá sviðsmynd og við höfum séð hana raungerast þegar eldgos leiðir af sér hraunflæði sem á skömmum tíma nær til byggðar í Grindavík og mikilvægra innviða. Við þekkjum að fyrirvarinn á nýju eldgosi getur verið mjög stuttur og því er mikilvægt að fylgjast áfram grannt með stöðunni á gosstöðvunum með hátæknimælingum. Það er mikilvægt að miðla upplýsingum markvisst til almennings, viðbragðsaðila og ferðamanna með samhæfðum og skipulögðum hætti.

Í samræmi við stefnu stjórnvalda í almannavarna og öryggismálum stendur nú yfir heildstæð endurskoðun á almannavarnalögum í dómsmálaráðuneytinu. Almannavarnalögin voru sett 2008 og hafa sætt takmörkuðum breytingum síðan fyrir utan breytingafrumvarp sem var samþykkt á Alþingi 2022. Meðal þeirra brýnu breytinga sem þá voru samþykktar var að rannsóknarnefnd almannavarna var lögð niður og hennar í stað komið á þrepaskiptri rýni á aðgerðum viðbragðsaðila.

Við teljum að þetta fyrirkomulag nái betur utan um þetta mikilvæga ferli. En með þessu móti tekur eðli og umfang rýni mið af alvarleika þessa ástands sem rýna skal. Í fyrsta lagi er ávallt tryggt að fram fari innri rýni á viðbrögðum í almannavarnaástandi, í öðru lagi fer ytri rýni fram þegar stjórn samhæfingar og stjórnstöðvar telur það nauðsynlegt og í þriðja lagi getur ráðherra einnig óskað eftir skýrslugjöf eða ytri rýni.
Eðli málsins samkvæmt er ekki mikil reynsla komin á beitingu nýrra ákvæða um þrepaskipta rýni. En vonir okkar standa til þess að þessi nýlega breyting skili meiri árangri en fyrra fyrirkomulag sem hafði reynst þungt í vöfum.

Vegna yfirstandandi jarðhræringa á Reykjanesskaga hefur viðbragðskerfi almannavarna tekist mánuðum saman á við margvíslegar áskoranir sem ekki sér fyrir endann á. Í þessu hættuástandi hefur verið brýn þörf á að lykilaðilar taki erfiðar og stundum afdrifaríkar ákvarðanir hratt og örugglega. Slíkar ákvarðanir kunna að hafa í för með sér margvísleg áhrif á ólíka hagsmuni.
En afleiðingar slíkra ákvarðana geta til að mynda haft áhrif á fjárútgjöld úr ríkissjóði, áhrif á réttindi hins almenna borgara til búsetu og atvinnu, áhrif á réttindi atvinnurekenda til atvinnustarfsemi, og sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga o.s.frv.

Við verðum að hafa það hugfast að móðir jörð mun alltaf eiga síðasta orðið, sama hversu vel við erum undirbúin og hversu traust viðbragðskerfið okkar er. Þess vegna getum við einungis gert okkar besta til að búa í haginn fyrir óvæntar uppákomur og ófyrirséða atburði til þess að lágmarka það tjón sem getur orðið. Ég er fullviss um að með samvinnu, þekkingu og staðfestu munum við halda áfram að mæta þeim áskorunum sem framtíðin ber í skauti sér.

Við höldum áfram að rýna, aðlaga og bæta viðbragðskerfið okkar og þannig tryggjum við saman öryggi okkar allra.

Kærar þakkir fyrir mig.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta