Hoppa yfir valmynd
05. júní 2024 DómsmálaráðuneytiðGuðrún Hafsteinsd

Lögreglukonur 50 ára - ávarp

Kæru lögreglukonur og aðrir góðir gestir.

Það er mér heiður að fá að ávarpa ykkur í dag og fagna með ykkur þessum sögulega áfanga. Þrátt fyrir að staða kvenna innan lögreglunnar sé í dag bæði óumdeild og sjálfsögð hefur það ekki alltaf verið svo. Við undirbúning þessa ávarps skoðaði ég sögu kvenna í löggæslu og komst að því að fyrsta tillagan um að fá konu til starfa í lögreglunni kom frá Vilmundi Jónssyni landlækni árið 1933. Hann fékk þessa róttæku hugmynd og lagði til að ráðin yrði vel menntuð og skörugleg hjúkrunarkona sem myndi sinna konum og börnum í ört vaxandi borgarsamfélagi. Einnig skyldi hún sinna heilbrigðismálum með eftirliti með lauslátu kvenfólki, hvorki meira né minna.

Það var þó ekki fyrr en tuttugu árum síðar að konur voru fyrst ráðnar til lögreglunnar og þá án einkennisbúninga. Árið 1971 var samþykkt að auglýsa eftir kvenlögreglumönnum og árið 1973 voru tvær konur teknar inn í lögregluskólann fyrstar kvenna.

Við þetta má þó bæta að árið 1941 var danski hjúkrunarfræðingurinn Jóhanna Knudsen ráðin af lögreglustjóranum í Reykjavík til að sinna ungmennaeftirliti og fylgjast með „ástandinu“. Hún njósnaði um stúlkur sem hún taldi tengjast hermönnum og yfirheyrði þær og skráði niður upplýsingar. Þetta eru af sumum taldar einhverjar umfangsmestu njósnir sem framkvæmdar hafa verið á Íslandi. Á þessum tíma þurfti enga Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra til að færa lögreglunni nauðsynlegar lagaheimildir.

Fyrsta íslenska lögreglukonan var Vilhelmína Þorvaldsdóttir sem var ráðin í kvenlögregluna síðari hluta ársins 1954. Þann 30. júní 1974 fengu Dóra Hlín Ingólfsdóttir og Katrín Þorkelsdóttir fyrstar kvenna að klæðast nýjum einkennisfatnaði kvenlögreglunnar og því fögnum við hér í dag.

Lögreglan var á þessum tíma ekki fjölskylduvænn vinnustaður. Laun lögreglumanna voru mjög lág og menn sóttust því mjög í yfirvinnu og því voru ýmsir eldri lögreglumenn mjög óhressir með að ungar konur skyldu taka af þeim störfin. Konurnar áttu að vera heima að hugsa um heimili og börn.

Við þetta tilefni sögðu þær stöllur aðspurðar að „þær neituðu því ekki að sumir vinnufélagarnir gátu ekki leynt því að þeir töldu okkur ekkert erindi eiga í lögregluna.“ Þær sögðust hafa fundið fyrir vantrausti og þær hafi í sífellu þurft að sanna sig og tilverurétt sinn. Hins vegar hafi einkennisbúningurinn orðið þeim mikil hvatning. Það fór síðar svo að Dóra Hlín varð fyrsta konan í rannsóknardeild lögreglunnar.

Fyrir tilviljun sá ég frábæran heimildarþátt í sjónvarpinu um þessar merku konur. Þátturinn heitir Brautryðjendur og þar komu fram gamansögur ásamt öðrum fróðleik. Til dæmis kom fram að á þessum tíma hafi eiginkonur lögreglumanna beðið yfirstjórn lögreglunnar um að eiginmenn þeirra yrðu ekki settir einir á bíl með lögreglukonunum. Á þessum tíma fengu konurnar að vera í sama húsnæði og karlarnir og fengu að hafa fólksbifreið til umráða, en þeirra helstu verk voru rannsóknir umferðaróhappa og umferðareftirlit.

Í þættinum var haft eftir Dóru og Katrínu eftirfarandi: „Þegar við vorum búnar í skólanum vorum við settar í hinar ýmsu deildir. Fyrst í umferðardeild og við höfðum enga búninga heldur vorum við í okkar fötum. Það var ekki búið að ákveða hvert við ættum fara og hvernig við ættum að starfa þannig við fórum í almennu deildina. Í umferðardeildinni vorum við kannski settar með lögreglumönnum í bíl, vorum á millivakt, náðum tveimur vöktum með strákunum í bíl og vorum á radar. Við vorum eins og ritarar, skrifuðum skýrslurnar en þeir fóru út og stöðvuðu bílana.“

Við það tækifæri sagði Bjarki Elíasson yfirlögregluþjónn: „Við bjóðum þessum konum sömu laun fyrir sömu vinnu og þær koma til með að fá sömu tækifæri og karlmennirnir í starfinu.“

 

Loks kom að því að þær fengu búninga á kosningadaginn árið 1974. Þær lýstu því að þær hafi næstum ollið slysum því ökumenn horfðu svo á þær í búningunum enda voru þær í stuttum pilsum og uppi voru hugmyndir um að jakkinn ætti að vera mittisjakki. Við þetta tilefni sagði Katrín: „Ég hef nú alltaf verið hrifin af karlmönnum í einkennisbúningi og einnig konum og því var ég stolt af því að vera í búningi. En mér leið ekkert alltaf vel í einkennisbúningi. Ég fann alltaf fyrir því að ég var einkennisklædd.“

Sagan sýnir að hlutur kvenna innan lögreglunnar hefur sem betur fer farið vaxandi. Hlutfall kvenna í lögreglu hér á landi var 4,3% árið 1996. Hlutfall kvenna meðal yfirmanna var tæplega eitt og hálft prósent. Fjórum árum síðar hafði hlutfall kvenna innan lögreglunnar tvöfaldast og var orðið um 8%.

Ef við lítum nær okkur í tíma kemur fram í löggæsluáætlun stjórnvalda fyrir tímabilið 2019 til 2023 að eitt af markmiðum áætlunarinnar sé að hlutfall lögreglukvenna verði komið upp í 30% fyrir árið 2028. Hlutfall kvenna meðal menntaðra lögreglumanna var komið upp í 25% í fyrra, eða árið 2023 og því standa líkur til þess að markmið löggæsluáætlunarinnar muni nást. Árið 2019 gerðist það svo að heildarhlutfall starfandi lögreglukvenna hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fór í 30,5%. Árið 2022 var hlutfall kvenkyns lögreglumanna hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 36%, rétt er að taka fram að inn í þeim tölum eru einnig lögreglumenn sem ekki hafa lokið menntuninni. Einnig er hér vert að nefna að árið 2023 var hlutfall kvenna meðal rannsóknarlögreglumanna komið upp í 37% en hlutfall kvenna er almennt lægra í hærri starfsstigum eins og meðal yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna. Fyrsti kvenkyns yfirlögregluþjónninn var skipuð árið 2018.

Sagan sýnir því að samhliða auknu jafnrétti og fjölbreytileika innan lögreglunnar hefur löggæslan orðið öflugri og þjónusta við almenning betri. Innkoma kvenna í lögregluna hefur ekki einungis stuðlað að jöfnuði heldur einnig aukið skilvirkni og fagmennsku innan stéttarinnar. Konur í lögreglunni hafa sýnt ómetanlega færni, árverkni og staðfestu í að tryggja öryggi landsmanna.

Þegar við horfum til framtíðar er ljóst að hlutverk kvenna í löggæslu verður enn mikilvægara. Fjölbreytileikinn eflir lögregluna og gerir hana betur í stakk búna að takast á við síbreytilegar áskoranir nútímans. Við verðum að tryggja að konur fái áfram stuðning og tækifæri til að vaxa og blómstra í því mikilvæga starfi sem lögreglan er.

Það er minn vilji að efla stöðu kvenna enn frekar, tryggja jöfn tækifæri og stuðla að því að lögreglan verði staður þar sem allar raddir fái að heyrast og allar raddir eru metnar að verðleikum.

Ég þakka ykkur kærlega fyrir og treysti á að við höldum áfram að byggja upp sterkari lögreglu til framtíðar.

Takk fyrir mig.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta