Hoppa yfir valmynd
07. júní 2024 DómsmálaráðuneytiðGuðrún Hafsteinsd

Ávarp á fundi Soroptimista

Góðu konur.

Þakka ykkur fyrir að bjóða mér til ykkar í dag og gefa mér tækifæri til að ræða um málefni sem er ofarlega á baugi þjóðfélagsumræðunnar þessi misseri. Það eru málefni hælisleitenda og flóttamanna.

Það er ljóst að þessi málaflokkur er krefjandi og löngu ljóst að við verðum að gera betur en við erum að gera í dag. Við erum ekki ein í þeirri stöðu og aðrar þjóðir Evrópu hafa þurft að takast á við verulega aukinn fjölda flóttamanna. En hafa skal í huga að ekkert þeirra hefur tekist á við þann fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd eins og við höfum þurft að takast á við. Á rúmum áratug hefur umsóknarfjöldi um alþjóðlega vernd aukist hér á landi um rúmlega 3700% og hefur valdið umtalsverðum kostnaði fyrir ríkið, eða um 20 milljörðum króna árið 2023.

Gildandi lög um útlendinga voru samin á árunum 2014-2016 og taka ekki á þessum nýja veruleika. Árið 2012 fór umsóknarfjöldi þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi í fyrsta sinn yfir 100, en þá sóttu 118 einstaklingar um vernd. Árið 2016, þegar lögin voru samþykkt, fór umsóknarfjöldi í fyrsta sinn yfir 1.000 þegar 1.135 sóttu um vernd. Árið 2022 var annað metár þegar 4.519 sóttu um vernd og í fyrra var fjöldinn litlu lægri.

Við tökum hlutfallslega á móti langflestum umsækjendum miðað við Norðurlöndin, hvort sem við teljum fjöldaflóttafólk frá Úkraínu með eða ekki. Án Úkraínu tökum við árlega á móti 580 manns á hverja 100 þúsund íbúa en með fólki á fjöldaflótta tökum við á móti 1.200 manns á hverja 100.000 íbúa. Til samanburðar má nefna að, án fjöldaflóttafólks, tekur Danmörk á móti 43 umsóknum á hverja 100 þúsund íbúa, Noregur 75, Svíþjóð 159 og Finnland 84. Það er auðséð að við erum ekki að láta okkar eftir liggja í þessum málaflokki heldur þvert á móti. Það er einnig auðséð að við getum ekki haldið áfram á sömu braut öðruvísi en að það bitni á þeim sem raunverulega hafa þörf á vernd og þeim innviðum sem íslenskt samfélag byggir á.

Það liggur í augum uppi að þessi mikla aukning hefur reynt mikið á alla okkar innviði.

Nú ætla ég að leyfa mér að vera persónuleg og segja að ég tel að langflestir Íslendingar vilja hjálpa fólki í neyð. Ég held að flestir vilji kerfi sem virkar. Kerfi sem tekur vel utan um þá sem þurfa á að halda, kerfi sem veitir skjóta málsmeðferð og er hóflega kostnaðarsamt fyrir ríkissjóð. Eins og staðan er núna er þetta fjarlæg hugsýn en þangað erum við að stefna og um þetta tel ég að geti náðst almenn sátt um.

Það virðist oft gleymast í þessari umræðu að flóttamannakerfið er neyðarkerfi ætlað fólki sem óttast um líf sitt og frelsi. Það er nauðsynlegt að fólk sem hingað kemur og þarfnast raunverulegrar verndar gegn ofsóknum og stríði fái vandaða og skjóta úrlausn sinna mála. Alþjóðleg vernd er ekki dvalarleyfisflokkur fyrir einstaklinga sem eru í leit að betri lífskjörum. Það er því nauðsynlegt að tryggja sem best að þeir einstaklingar sem hingað leita og þarfnast raunverulega verndar fái vandaða og skjóta úrlausn mála sinna. Þannig kemst fólk fyrr út úr umsóknarferlinu og getur aðlagast samfélaginu.

Það blasir öllum við að það þarf að gera breytingar og við þurfum að taka þessa stöðu alvarlega. Þess vegna hef ég lagt fram frumvarp um breytingar á útlendingalögum. Það er nú komið út úr nefnd og bíður þriðju umræðu og ég er fullviss um að frumvarpið verði að lögum fyrir þinglok. Markmið frumvarpsins er þríþætt:

  1. Að fækka umsóknum frá einstaklingum sem eru ekki í þörf fyrir alþjóðlega vernd, þ. á m. einstaklingum sem þegar hafa hlotið alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki. Þetta verður gert með breytingum á regluverki en einnig með skýrum skilaboðum stjórnvalda út á við.
  2. Auka á skilvirkni í kerfinu.
  3. Draga á úr kostnaði vegna málaflokksins.

Tölurnar sýna að á meðan við erum með séríslenskar reglur á skjön við það sem almennt þekkist á Norðurlöndunum virka þær sem aðdráttarafl á umsóknir umfram önnur ríki. Það leiðir til mikils kostnaðar auk þess að málsmeðferðartími á Íslandi er langur vegna gríðarlega mikils fjölda umsókna um alþjóðlega vernd.

Ábyrgt regluverk og vel ígrunduð lagasetning skiptir gríðarlega miklu máli. En það skiptir einnig máli hvernig við tölum út á við og hvaða skilaboð stjórnvöld senda frá sér. Tölfræðin sýnir að við erum að ná stjórn á málaflokknum og við erum að sjá um 60% fækkun umsókna í ár frá árinu í fyrra. En við verðum að horfa áfram veginn og ekki sofna á verðinum.

Kærar þakkir fyrir mig.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta