Hoppa yfir valmynd
15. júní 2024 DómsmálaráðuneytiðGuðrún Hafsteinsd

Mikilvægt skref í útlendingamálum - grein í Morgunblaðinu

Samfélag okkar er byggt á gildum sem við þurfum að vernda. Það er byggt á stoðum lýðræðis, jafnréttis og réttlætis og við höfum frá aldaöðli lifað eftir því að með lögum skal land byggja og ólögum eyða. Um þetta getum við öll sammælst. Við í Sjálfstæðisflokknum höfum staðið vörð um frelsi einstaklingsins, borgaraleg gildi og réttarríkið. Lögunum er ætlað að hafa vald og slíku valdi getur fylgt hætta, eins og margsagt er frá fornu fari. Valdi laganna er unnt að beita af geðþótta en með réttarríkinu er dregið úr þeirri hættu. Þess vegna er ríkisvaldið bundið og háð lögum en það á einnig við um einstaklinga sem eiga að hlýða réttinum. Við getum ekki látið geðþótta ráða því hvenær íslensk lög gilda og hvenær ekki. Það er mikilvægt að hafa í huga að þeir sem heimta alveg sérstaka málsmeðferð, á svig við lög og reglur, gera það ekki í nafni góðmennsku heldur misréttis.

Það mikla álag sem hefur verið á innviði okkar undanfarin ár er meira en þeir þola. Það á ekki að vera feimnismál að benda á þá staðreynd að 400 þúsund manna samfélag getur ekki takmarkalaust opnað faðm sinn fyrir öllum þeim fjölda fólks sem hingað leitar. Við viljum gera vel, en það getur enginn stjórnmálaflokkur fært haldbær rök fyrir því að eitt fámennasta ríki í Evrópu hafi veikasta regluverkið þegar kemur að útlendingum. Það er risavaxin áskorun fyrir fámenna þjóð þegar fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd hefur aukist um 3700% á rétt rúmum áratug eins og raun ber vitni.

Þrátt fyrir þetta er því enn haldið fram að þessi mikli fjöldi sé ekkert sérstaklega mikill og jafnvel hóflegur – ef dregnir eru frá umsækjendur frá Venesúela og Úkraínu, sem eru tveir stærstu þjóðernishóparnir meðal umsækjenda. Svona málflutningur er til þess fallinn að slá ryki í augu fólks. Í raunveruleikanum breyta leikir að tölum ekki staðreyndum.

Og staðreyndin er að Ísland fær hlutfallslega langflestar umsóknir Evrópuríkja enda er flóttamannastraumurinn eins og vatn sem finnur sér farveg og rennur þangað sem stærstu glufurnar finnast og veikasta regluverkið.

Tölfræðin sýnir hins vegar að við erum að ná stjórn á málaflokknum, með þeim málum sem við leggjum fram á þinginu og með því hvernig við tölum út á við. Umsóknum um alþjóðlega vernd hefur fækkað um nær 60% á þessu ári frá sama tímabili í fyrra.

Sá gríðarlegi fjöldi sem sótt hefur hingað síðastliðin ár hefur skapað áskoranir fyrir okkur sem samfélag og kerfin okkar. Málsmeðferðartíma þarf að stytta umtalsvert og við þurfum að ná auknum árangri í brottflutningi þeirra sem hafa fengið synjun um vernd og ber þar af leiðandi að yfirgefa landið.

Það er sjálfsögð og eðlileg lágmarkskrafa að þeir sem dvelja hér á landi, hvort sem um er að ræða Íslendinga eða aðra, fari eftir íslenskum lögum. Þess vegna segi ég skýrt að það er mín skoðun að ef flóttamaður gerist uppvís um alvarlegan glæp á Íslandi á að svipta hann dvalarleyfi. Það er frumskylda mín sem ráðherra og stjórnvalda að tryggja öryggi borgara í þessu landi og vil ég því setja sambærilegt ákvæði í íslensk lög og finna má á hinum Norðurlöndunum hvað þetta varðar. Það mun verða eitt helsta áhersluátriði frumvarps um frekari breytingar á útlendingalögum sem ég hyggst leggja fram í haust.

Ísland er meðal helstu velferðarríkja heimsins en það er ekki hægt að tryggja og viðhalda velferð nema að hafa stjórn á þeim fjölda sem til landsins kemur. Það er brýnt að við gætum þess að þau sem hér setjist að, búi við sömu tækifæri og við hin til vaxtar og farsældar. Í því samhengi er einna mikilvægast að fólk læri íslensku og taki virkan þátt í samfélaginu. Um þetta getum við öll verið sammála.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað með ábyrgum hætti og þorað að taka ákvarðanir og sett mál á dagskrá í þessum málaflokki. Sagan sýnir að við höfum ítrekað lagt mál fyrir þingið og haft hugrekki til þess að tala fyrir nauðsynlegum breytingum og þjóðin getur treyst því að við munum gera það áfram.

Málefni útlendinga er viðkvæmur málaflokkur og ber að nálgast hann af virðingu. Hann þarfnast stöðugs endurmats og endurskoðunar. Það er engum betur treystandi en Sjálfstæðisflokknum að leiða verkefnið og ég mun hér eftir sem hingað til óhikað koma áherslum okkar í málaflokknum til framkvæmda.

Ég fagna því að frumvarp mitt til breytinga á útlendingalögum var samþykkt í gær. Um er að ræða eina veigamestu breytingu á málaflokknum frá upphafi. Ég hræðist ekki þá mikilvægu vegferð sem framundan er og mun rísa undir ábyrgð við áframhaldandi umbætur í þessum málaflokki.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta