Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2024 DómsmálaráðuneytiðGuðrún Hafsteinsd

Ræða á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins

Kæru félagar og vinir,

Saga Sjálfstæðisflokksins er saga framfara, saga frelsis og þjóðar sem braust úr örbirgð og varð meðal fremstu velferðarsamfélaga heimsins.

Þegar Jón Þorláksson, fyrsti formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði árið 1930 að einstaklings- og atvinnufrelsi væru höfuðþættir í stefnu okkar, var hann að leggja grunn að þeim gildum sem hafa gert Ísland að því sem það er í dag. En varaði okkur líka við þeim öflum sem vilja kúga einstaklinginn, fjötra frelsi hans og taka af honum sjálfsákvörðunarréttinn.

Þetta á enn við í dag, tæpum hundrað árum síðar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt trúað á frelsi einstaklingsins, réttinn til að skapa, starfa og búa til verðmæti. Okkar hugmyndafræði stendur svo traustum fótum að aðrir stjórnmálaflokkar keppast nú um að gera hana að sinni!

En höfum hugfast að fortíð Sjálfstæðisflokksins er ekki ávísun á árangur í framtíðinni. Við höfum öll séð nýjustu skoðanakannanir og þær eru óásættanlegar. Þær gefa til kynna að við eigum ekki erindi, að okkur hafi mistekist að ná til fjöldans. Það hlýtur að kalla á viðbrögð af okkar hálfu. Því árangur næst ekki af sjálfum sér og við sem Sjálfstæðisflokkur þurfum aftur að þora að vera hægriflokkur. Við þurfum að þora að tala fyrir grunngildum okkar, ekki í tómum orðum heldur með verkum.

Á næsta ári göngum við til Alþingiskosninga. Það blasir ekkert annað við en að þétta raðirnar og ganga fylktu liði til þess verkefnis. Sjálfstæðisflokkurinn er stærsta fjöldahreyfing á Íslandi og félög verða aldrei meira en það sem lagt er í þau af félagsmönnum. Styrkur flokksins hefur ávallt legið í okkar öfluga baklandi og engin önnur stjórnmálahreyfing kemst nálægt okkur í þeim efnum. Ekki hin nýja Samfylking, ekki Viðreisn og alls ekki Miðflokkurinn.

Forystan má aldrei hverfa frá grunngildum flokksins eða grasrótinni. Við þurfum að halda áfram að leysa málin sem liggja þungt á þjóðinni, eins og útlendingamálin sem ég mun áfram nálgast af festu og hvergi hvika í því verkefni. Það er nefnilega engin vöntun á stjórnmálaflokkum sem þora ekki að takast á við stóru málin. Samfylkingin talaði hátt og snjallt um að hafa séð ljósið í útlendingamálunum, en þegar kom að því að kjósa um málið á þingi sat hún hjá. Skýrt dæmi um að falleg fyrirheit þeirra voru ekkert annað en innihaldslaust þvaður.

Við í Sjálfstæðisflokknum vitum að þú stýrir ekki landinu með því að sitja hjá heldur með því að takast á við vandamálin, taka afstöðu og þora að standa með henni. Það er undir okkur komið að varðveita þau gildi sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir.

Ef við gerum það, þá munum við ná árangri.

Takk fyrir mig.


 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta