Hoppa yfir valmynd
28. september 2024 DómsmálaráðuneytiðGuðrún Hafsteinsd

Ávarp á fundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum 2024

Kæra Suðurnesjafólk, sveitarstjórnarfólk og aðrir góðir gestir.

Ég þakka tækifærið að fá að ávarpa ykkur hér í dag á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Ég hef verið svo heppin að fá að starfa með ykkur í á fjórða ár. Fyrstu tvö árin sem þingmaður Suðurkjördæmis og nú í rúmt ár sem dómsmálaráðherra. Þetta hefur verið líflegur tími, erilsamur og ævintýralegur. Ég þakka ykkur öllum fyrir frábært samstarf og hvet ykkur til áframhaldandi góðra verka í málefnum sveitarfélaganna hér á Suðurnesjum.

Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að ávarpa ykkur hér í fyrra og þá hafði ég orð á því að vöxtur sveitarfélaga á Suðurnesjum hafi verið gríðarlegur. Ég sagði ekkert útlit vera fyrir annað en að vöxturinn haldi áfram enda er gott að búa og starfa á Suðurnesjum. Einnig sagði ég að hér væri allt til alls og miðað við öll þau tækifæri sem finna má á Suðurnesjum væri ómögulegt annað en að svæðið vaxi og eflist enn frekar næstu árin enda væru hvergi á landinu viðlíka gæði.

Þrátt fyrir þær náttúruhamfarir sem hafa dunið hér yfir síðastliðið ár hefur þetta mat mig ekki breyst. Ég stend við það sem ég sagði hér í fyrra. Hvergi á landinu eru viðlíka gæði. Á Suðurnesjum er ein öflugasta verstöð landsins, einn vinsælasti ferðamannastaður landsins og hliðið að Íslandi, Keflavíkurflugvöllur. Hér er orka framleidd, mikil matvælaframleiðsla, góðir skólar og frábært íþróttastarf, hlúð að skapandi greinum og svo mætti lengi telja. Atvinnulífið og sveitarfélögin öll eru í sókn.

En því er ekki að neita að raunir liðins árs hafa kennt okkur heilmargt. Þær hafa kennt okkur mikilvægi öflugra almannavarna og viðbragðsaðila allra. Frá því að ég tók við embætti dómsmálaráðherra hef ég lagt áherslu á að tryggja þurfi öruggt samfélag og almannavarnir eru hluti af því. Á þingmálaskrá minni fyrir komandi þingvetur eru ný heildarlög um almannavarnir sem eiga að endurspegla þá áherslu löggjafans að viðbragðskerfið geti brugðist við áföllum sem ein heild. Reynslan hefur sýnt okkur að það fyrirkomulag og uppbygging á viðbragðskerfi hefur reynst vel og nýtur trausts í samfélaginu. En forsenda fyrir því að kerfið virki sem skyldi er skilvirkt samstarf stjórnsýslustiga og skýrar heimildir til nauðsynlegra framkvæmda í þágu almannavarna.  Reynslan hefur sýnt okkur að fyrirbyggjandi aðgerðir og undirbúningur geta dregið úr áhættu og verndað líf og eignir. Við þurfum að vera vakandi, undirbúa okkur á öllum sviðum samfélagsins og samhæfa okkur þannig að við getum mótað öruggari umhverfi fyrir okkur og komandi kynslóðir.

Þetta á við um viðbragðsaðila alla. Lögreglu, Landhelgisgæsluna, heilbrigðisstarfsfólk, neyðarlínuna, Rauða krossinn, Landsbjörg, flugstoðir og slökkviliðið, sem ég vil nefna sérstaklega vegna þess að það þarf ekki að fara mörg ár aftur í tímann til að sjá hversu mikill aðstöðumunur slökkviliða er í dag. Við þurfum að gera gangskör í forvörnum og ná betur utan um búsetu fólks og tryggja að brunavarnir séu í lagi.

Það hefur verið gríðarlegt álag á slökkvilið suðvesturshornsins síðustu ár. Það hefur verið fjöldi húsbruna en einnig hefur slökkviliðið komið með öflugum hætti að verkefnum tengdum Grindavík og eldsumbrotum á Reykjanesi. Slökkvilið Grindavíkur stóð í ströngu á síðasta ári í gríðarlegum gróðureldum þar sem reyndu á búnað og mannskap. Það fékk mann til að hugsa um allar sumarhúsabyggðirnar þar sem getur auðveldlega á þurrkatímum skapast alvarlegt almannavarnarástand ef eldur brytist út. 

Við erum stöðugt minnt á hættuna sem fylgir náttúruöflum og því er mikilvægt að halda áfram og styrkja samstarf milli allra aðila, hvort sem um er að ræða ráðuneyti, stofnanir, sveitarfélög eða aðra sem hlut eiga að máli.

Í ljósi alls sem á undan er gengið, getum við samt verið full af von og bjartsýni um framtíðina. Með samstilltu átaki almannavarna, sveitarfélaga, viðbragðsaðila og samfélagsins alls erum við betur í stakk búin til að takast á við þær áskoranir sem óhjákvæmilega munu koma. Samvinna, undirbúningur og varkárni eru lykilatriði í að vernda bæði líf og eignir og tryggja áframhaldandi vöxt og þróun Suðurnesja. Ég hlakka til að halda áfram samstarfi okkar og tryggja að Suðurnesin haldi áfram að blómstra, þrátt fyrir áskoranir, í skjóli sameiginlegs öryggis og kraftmikils samfélags. Saman getum við tryggt betri framtíð fyrir komandi kynslóðir.

Kærar þakkir fyrir mig.

 

 

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta