Hoppa yfir valmynd
16. október 2024 DómsmálaráðuneytiðGuðrún Hafsteinsd

Ávarp við opnun Suðurhlíðar

Ágætu gestir. Takk fyrir að mæta hingað í dag að fagna þessu mikilvæga skrefi í baráttunni gegn ofbeldi.

Í dag erum við hér saman komin til að marka tímamót í réttindabaráttu þolenda ofbeldis. Með opnun Suðurhlíðar, þessarar nýju miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis á Suðurnesjum, erum við að taka stórt skref fram á við til að tryggja þeim, sem orðið hafa fyrir ofbeldi, þann stuðning sem þeir eiga rétt á. Það er mér bæði heiður og djúpt persónulegt mál að fá að taka þátt í þessum áfanga. Baráttan gegn kynbundnu ofbeldi hefur verið eitt af mínum helstu áherslumálum í mínu starfi sem ráðherra.

Ofbeldi, sérstaklega kynferðisofbeldi, skilur eftir sig varanleg sár hjá þeim sem verða fyrir því. Það er því grundvallaratriði að þolendur fái ekki aðeins stuðning heldur réttlæti. Þetta er markmið okkar í stjórnkerfinu, að tryggja að þau sem verða fyrir ofbeldi séu aldrei látnir bera byrðarnar ein.

Við höfum unnið að því að styrkja réttarvörslukerfið í meðferð kynferðisbrotamála. Með því að auka fjármagn um 200 milljónir króna til að fjölga stöðugildum innan lögreglunnar, ríkissaksóknara og héraðssaksóknara höfum við tekist á við eitt af þeim helstu áskorunum sem réttarvörslukerfið stendur frammi fyrir — málsmeðferðartímann. Við sjáum nú þegar marktæka lækkun á fjölda opinna kynferðisbrotamála, og það er ánægjulegt að geta sagt að málsmeðferðartími kynferðisbrotamála hefur styst umtalsvert. Þetta er ekki aðeins tölfræðilegur árangur heldur einnig huggun fyrir þolendur sem þurfa ekki að bíða eins lengi eftir réttlætinu.

En þrátt fyrir árangurinn, þá erum við hvergi nærri hætt. Við vitum að það er enn margt sem má bæta. Kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi eru af þeim toga að þau hafa djúp áhrif ekki aðeins á þolendur heldur á allt samfélagið. Því er óhjákvæmilegt að við leggjum áherslu á að stytta enn frekar málsmeðferðartíma slíkra mála og tryggja að þau séu í forgangi hjá réttarkerfinu.

Við verðum líka að tryggja að réttarvörslukerfið virki eins vel og mögulegt er fyrir brotaþola. Það er ekki ásættanlegt að þolendur finni fyrir því að kerfið sjálft sé ekki til stuðnings heldur hindrun.

Opnun Suðurhlíðar er mikilvægt skref í þessari vegferð. Hér munu brotaþolar geta leitað sér aðstoðar og stuðnings í öruggu umhverfi þar sem hlustað er á þá og þeirra reynsla metin að verðleikum. Hér fá brotaþolar aðgang að sérhæfðu starfsfólki sem vinnur í nánu samstarfi við lögreglu, heilbrigðisþjónustu og félagsráðgjafa. Samfélagið okkar þarf á slíkri samvinnu að halda til að tryggja að allir sem verða fyrir ofbeldi fái þá hjálp og réttlæti sem þeir eiga rétt á.

Við höfum öll hlutverki að gegna í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Við sem störfum innan stjórnsýslunnar, lögreglan, heilbrigðisstarfsfólk og samfélagið í heild. Það er verkefni okkar allra að tryggja að þau sem verða fyrir ofbeldi fái þá virðingu og stuðning sem þau eiga skilið.

Réttarvörslukerfið, eins og önnur kerfi, þarf að vera í stöðugri endurskoðun. Við verðum að hlusta á þau sem leita til kerfisins og taka tillit til ábendinga þeirra.

Að lokum vil ég nota tækifærið til að fagna því sérstaklega að Suðurnesin fá nú sína eigin miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Það er von mín og trú að þessi miðstöð verði fyrirmynd fyrir önnur svæði á landsbyggðinni og að hún muni sanna sig sem nauðsynlegur þáttur í þeirri baráttu sem við eigum öll í gegn kynbundnu ofbeldi. Við getum öll verið stolt af þessum áfanga, en við megum aldrei sofna á verðinum. Baráttan heldur áfram, og við verðum að halda áfram að bæta okkur, þangað til við höfum skapað samfélag þar sem enginn þarf að líða fyrir ofbeldi.

Ég þakka ykkur fyrir að mæta hingað í dag og fagna þessum merka áfanga með okkur. Samvinna og samstaða eru lykilatriði í þessari baráttu, og saman getum við breytt samfélaginu til betri vegar.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta