Hoppa yfir valmynd
31. október 2024 DómsmálaráðuneytiðGuðrún Hafsteinsd

Opnunarávarp á ráðstefnu um almannavarnir 2024

Ágætu gestir.

Það er mér bæði heiður og ánægja að opna ráðstefnu Almannavarna sem nú er haldin í þriðja sinn og leyfi ég mér að fullyrða að aldrei hefur mikilvægi almannavarna verið meira.

Ég er gamall skáti og hef þar af leiðandi fylgst vel með starfsemi Hjálparsveitar Skáta í mínum heimabæ Hveragerði í áratugi þó ég hafi nú aldrei starfað í þeirri sveit. En ég á son sem hefur verið í sveitinni um árabil og það hefur gefið mér innsýn inn í ýmis verkefni þegar neyðin kallar hvort sem það eru slys eða náttúruhamfarir. Ég hef einnig fengið að kynnast óörygginu þegar miklir jarðskjálftar hafa orðið og allt í einu finnst þér stafa ógn af húsinu þínu sem á þó alltaf að vera þitt mesta öryggi. Að alast upp á jarðskjálftasvæði markar mann ævina á enda. Mér er minnistætt að á þeim tíma sáu íbúar skilaboð Almannavarna á öftustu síðum símaskrárinnar! Það hefur heldur betur margt breyst og útprentuð símaskráin ekki lengur sá upplýsingamiðill sem við notum eða treystum á. Því er verr og miður.

Frá því að ég tók við sem dómsmálaráðherra hef ég fengið 10 almannavarnarviðbrögð inn á mitt borð. Það segir mikið um álagið í okkar fallega landi sem getur samt oft sýnt á sér grimma hlið. Í öllum þessum atburðum hef ég fyllst stolti og öryggis að sjá og finna hve fagmannlegt og fumlaust allt viðbragð hefur verið.

Áður en lengra er haldið vil ég því þakka viðbragðsaðilum fyrir þeirra óeigingjarna starf ásamt öllum þeim sem komu að skipulagningu þessarar ráðstefnu.
Við stöndum nú frammi fyrir gríðarlegum áskorunum þar sem öryggi þjóða er ógnað. Ógnir sem eru fjölþættar, sem geta hver og ein breytt stöðu samfélaga og þróun. Við höfum, hér á Íslandi, kynnst svo um munar þeirri ógn sem af náttúrunni getur stafað. Ógnir af mannavöldum, þar á meðal hernaðarógn og netárásir, eru þó síður en svo fjarlægur veruleiki.
Ísland er og hefur verið metið öruggasta land í heimi. Það eru mikil lífsgæði fólgin í því að búa á Íslandi en eins og við sjáum svo glöggt, bæði af þróun mála í heiminum sem og þeim ógnum sem við höfum tekist á við hér á landi, að öryggi er ekki sjálfgefið. Að því þarf að vinna markvisst.

Öll lönd eru að horfa inná við og styrkja viðnámsþrótt sinn og öryggi. Ísland er hér engin undantekning. Við þurfum að horfa á okkar öryggisinnviði, styrkja þá og treysta. Það er forgangsmál. Almannavarnir gegna þar lykilhlutverki og því er ekki bara mikilvægt heldur nauðsynlegt að styrkja, efla og bæta okkar almannavarnarkerfi.

Samfélag okkar er sífellt að takast á við áskoranir á sviði almannavarna og við þeim þarf að bregðast. En við getum ekki bara brugðist við þeim ógnum sem að okkur steðja við þurfum að undirbúa okkur samhliða fyrir komandi ógnir. Við þurfum að eiga þetta samtal og vinna í sameiningu að sterkara og öruggara samfélagi.

Undanfarið hafa náttúruöflin haft meiri áhrif á samfélagið en oft áður. Hvergi er þetta sýnilegra en á Reykjanesskaga þar sem jarðhræringar, eldgos og landbreytingar hafa haft varanleg áhrif á mannlíf, byggðir og efnahag. Almannavarnakerfið hefur þurft að takast á við krefjandi stöðu með fyrirbyggjandi aðgerðum og viðbrögðum til að takmarka tjón. Frá árslokum 2019, þegar jarðhræringarnar hófust, hafa Almannavarnir tekist á við nýjar og fjölbreyttar áskoranir í því augnamiði að undirbúa og greina hvernig er best að vernda íbúa og mikilvæga innviði fyrir hraunrennsli ef eldgos hefst. Þessi undirbúningur stuðlaði m.a. að því að þegar fyrsta eldgosið hófst í nóvember 2023 var íslenska viðbragðskerfið eins vel undirbúið og hægt var.

Þetta er í takt við upphaflegt hlutverk Almannavarna frá 1963, sem var að skipuleggja ráðstafanir sem miðuðu að því að koma í veg fyrir að almenningur yrði fyrir líkams- eða eignatjóni af völdum hernaðaraðgerða og veita líkn og aðstoð vegna tjóns sem hefði orðið. Í tímans rás hefur hlutverk Almannavarna vissulega þróast en meginmarkmiðið er enn það sama.

Undanfarin misseri hefur viðbragðskerfi okkar gengið í gegnum prófraunir sem það hefur staðist með miklum sóma. Þekking og reynsla viðbragðsaðila hefur skipt sköpum, ásamt góðu samstarfi þeirra sem sinna mælingum og vöktun, skipulagningu og miðlun upplýsinga. Ég vil hrósa og þakka þeim fjölmörgu aðilum sem hafa unnið sleitulaust að þessu verkefni. Samvinna og hraði hafa reynst lykilatriði, því skammur viðbragðstími getur skipt sköpum.
Við höfum náð eftirtektarverðum árangri. Við horfum þó stöðugt til þess að bæta almannavarnakerfi okkar, umgjörð þess og framkvæmd. Markmiðið er að ná frekar árangri, með auknum undirbúningi, aukinni samstillingu og enn betri framkvæmd almannavarnaaðgerða.

Hér á árum áður, þegar símaskráin var okkar helsti upplýsingamiðill, voru aðstæður um margt frábrugðnar því sem er í dag. Við skulum ekki gleyma þeim framförum sem hafa orðið í að koma á framfæri tímanlegum og mikilvægum upplýsingum til almennings. Tekin hafa verið stór skref fram á við í miðlun upplýsinga til íbúa, ferðamanna og fyrirtækja. Þetta hefur stuðlað að trausti almennings á almannavarnakerfinu. Þetta er mikilvægt, því án trausts erum við í hættu á að missa það mikilvæga samband milli almennings og stjórnvalda sem er grundvallarforsenda árangurs og þarf að byggja á skilningi allra aðila.

Þá hefur um árabil staðið yfir endurskoðun almannavarnalaga í dómsmálaráðuneytinu en núgildandi lög voru sett árið 2008. Lögin hafa sætt takmörkuðum breytingum frá gildistöku, en með núverandi áskorunum er ljóst að við þurfum að setja nýja og öfluga stefnu sem tekur mið af breyttum aðstæðum og áskorunum. Markmiðið er að búa til lagaumgjörð sem er sveigjanlegri, öflugri og gerð til að standast þær áskoranir sem okkur hafa verið færðar á undanförnum árum. Frumvarpið hefur verið unnið á tímabili mikils almannavarnaástands, í víðtæku samráði um land allt. Ný heildarlög um almannavarnir munu styrkja okkur í að byggja áfram á traustum grunni samhæfingar, fyrirbyggjandi og skilvirkra aðgerða auk endurreisnar. Ragna Bjarnadóttir, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu, mun kynna frumvarpið betur hér á eftir.

Nú liggur fyrir að um ár er liðið frá því sá atburður sem nú er í gangi á Reykjanesinu, með ítrekuðum eldsumbrotum, hófst með rýmingu í Grindavík og í Svartsengi. Þessu hafa fylgt aðgerðir sem hafa haft mikil áhrif á allt samfélagið í Grindavík og nærumhverfi. Það er nauðsynlegt að líta yfir farinn veg og þær aðgerðir sem viðbragðsaðilar hafa gripið til. Ég hef lagt á það áherslu að fram fari ytri rýni á aðgerðum viðbragðsaðila, líkt og almannavarnalögin gera ráð fyrir. Sú vinna er nú formlega komin af stað og hefst með fyrsta fundi rýnihópsins í næstu viku. Þetta er mikilvægt skref í þeirri vegferð okkar að efla almannavarnakerfið til framtíðar.

Almannavarnakerfið verður að hafa nægan mannafla, þekkingu og sveigjanleika til að takast á við hvaða ógn sem er. Í ár hefur mitt ráðuneyti stutt við þessi markmið með fjölgun starfsmanna á almannavarnasviði ríkislögreglustjóra, auk þess sem áhersla hefur verið lögð á styrkingu almannavarna á undanförnum árum með auknum fjárframlögum til lögregluembætta um allt land. Þrátt fyrir þessa viðbót er enn þörf á frekari styrkingu almannavarnakerfisins, þar sem áherslan verður að beinast að fyrirbyggjandi aðgerðum til að draga úr líkum á áföllum.

Almannavarnir hafa alla tíð notið náins stuðnings frá ráðuneytum og ríkisstjórn, sem hefur reynst ómetanlegt í átökum við stór og viðamikil verkefni, eins og þau sem tengjast jarðhræringunum á Reykjanesi. Mikilvægt er að þetta samstarf haldi áfram. Stjórnvöld, sveitarstjórnir og lykilinnviðir þurfa markvisst að styrkja eigið viðnámsþol til að vernda afhendingaröryggi og minnka álag á almannavarnir. Slík vinna dregur úr neikvæðum áhrifum náttúruhamfara og veitir samfélaginu öryggi.

Einnig er nauðsynlegt að frumvarp um endurskoðun almannavarnalaga nái fram að ganga. Aðgerðarhæfni almannavarnakerfisins þarf að vera þannig byggð upp að bæði sé hægt að takast á við stórar áskoranir og sinna öðrum lykilverkefnum eins og áhættugreiningu, fyrirbyggjandi aðgerðum, fræðslu og upplýsingamiðlun. Enn frekari styrkingar eru nauðsynlegar til að almannavarnir geti í samstarfi við ábyrgðaraðila sinnt betur lögbundnum verkefnum sínum bæði á friðartímum og á hættustundum.

Við berum öll okkar ábyrgð. Það er ekki síður mikilvægt að leggja áherslu á ábyrgð almennings, því eins og við vitum erum við öll almannavarnir. Með því að búa íbúa landsins undir hættur og veita þeim fræðslu og upplýsingar um hvernig þeir geti hjálpað til í hættuaðstæðum erum við að styrkja heildina. Það er mikilvægt að við hvetjum samfélagið til að taka þátt í almannavörnum, hvort sem það er með aðild að björgunarsveitum eða með því að vera vel upplýst og tilbúin til að bregðast við ef á þarf að halda.

Góðir gestir!

Lykilinn að öflugu almannavarnakerfi er samvinna. Með því að tengja saman einstaklinga, stofnanir og sveitarfélög, áætlanir og rannsóknir, getum við skapað almannavarnakerfi sem er sveigjanlegt og snjallt, og getur aðlagast að breyttum aðstæðum. Það er ekki spurning um hvort nýjar hamfarir muni eiga sér stað, heldur hvenær þær gera það. En með samstilltu átaki, traustri þekkingu og staðfestu getum við verið vel undirbúin.

Við verðum að hafa hugfast að móðir jörð hefur alltaf síðasta orðið, en með réttum undirbúningi getum við samt lagt okkar af mörkum til að draga úr skaða, bjarga lífum og tryggja öryggi sem flestra. Því ber að fagna því að samfélagið, stofnanir og ráðuneyti eru öll hér í dag og sýna vilja til að vinna saman að sameiginlegum markmiðum.

Það er okkar sameiginlega verkefni að byggja saman sterkari og traustari almannavarnir.

Gangi ykkur vel í öllum ykkar störfum.
Kærar þakkir!


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta