Hoppa yfir valmynd
04. nóvember 2024 DómsmálaráðuneytiðGuðrún Hafsteinsd

Grein í Víkurfréttum

Kæra Suðurnesjafólk

Mér er bæði ljúft og skylt að þakka fyrir þann stuðning sem ég fékk á kjördæmisráðsfundi Sjálfstæðismanna nýverið þar sem ég var endurkjörin oddviti Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi. Það var töluverð endurnýjun á lista Sjálfstæðisflokksins og við frambjóðendur erum þakklát fyrir stuðninginn og þá hvatningu sem við höfum fengið á fyrstu vikum kosningabaráttunnar.

Góð sveitarfélög eru byggð upp af öflugu fólki sem lætur sig málin varða og er annt um nærsamfélagið. Mikil gróska er á Suðurnesjum og hér eru mikil tækifæri. Vöxtur sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur verið gríðarlegur á undanförnum árum og atvinnulífið hefur verið í mikilli sókn. Hér hefur verið afar gott að búa og starfa þótt áskoranir náttúruaflanna hafi sett svip sinn á lífið hér. Íbúafjölgun gerist þó ekki af sjálfu sér og halda þarf áfram þrotlausri vinnu við að tryggja að lífsgæði hér á Suðurnesjum verði eins og best verður á kosið.

Íbúafjölgun kallar á öfluga og trausta innviði í samfélaginu okkar. Þar eru samgöngur stór þáttur í auknum lífsgæðum hér í kjördæminu. Þær verða að vera öruggar og góðar, hvar sem er í kjördæminu, annars dafnar hvorki mann- né atvinnulíf. Ég legg áherslu á að klára tvöföldun Reykjanesbrautar enda er um að ræða eitt brýnasta samgöngumál kjördæmisins. Við höfum séð í jarðhræringunum á Reykjanesskaganum undanfarin misseri að Reykjanesbrautin er mikilvægur innviður á svæðinu og ef hún nær ekki að sinna hlutverki sínu, t.d. ef hún lokast, verður af verulegur samfélagslegur kostnaður. Að klára tvöföldun Reykjanesbrautarinnar er gríðarstórt hagsmunamál fyrir kjördæmið og ég mun beita mér fyrir að verkefnið klárist hér eftir sem hingað til.

Það eru önnur brýn mál sem brenna á Suðurkjördæmi. Til dæmis aðgengi að heilbrigðisþjónustu, en ég flutti þingsályktunartillögu um einkarekna heilsugæslu á Suðurnesjum árið 2022. Þess vegna var afar ánægjulegt að sjá Heilsugæsluna Höfða opna um ári síðar.

Þá má einnig nefna atvinnumálin, en við viljum forðast einhæfni og fá fjölbreyttari störf í kjördæmið. Við sjálfstæðismenn höfum talað fyrir fleiri stoðum í atvinnulífinu og verðmætari störfum. Það er okkur öllum til hagsbóta.

Fyrir stjórnmálafólk og aðra sem starfa í almannaþágu er fátt dýrmætara en að fá tækifæri til að hitta fólk og ræða málin. Ég verð á mikilli ferð um kjördæmið næstu vikurnar í kosningabaráttu og hlakka til að heyra ykkar sýn og sjónarmið á því sem skiptir máli í kjördæminu okkar. Það samtal mun halda áfram að þróast og dýpka, enda hvergi nærri lokið.

Við Sjálfstæðismenn horfum fram á veginn full af bjartsýni og eftirvæntingu, einbeitt í því að stuðla að jákvæðum breytingum. Sjálfstæðisflokkurinn stendur einn sem skýr valkostur í komandi þingkosningum fyrir þá sem vilja byggja íslenskt samfélag á einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi með hag allra samfélagshópa í huga. Stefna okkar byggir á traustum grunni mannréttinda, jafnræðis, frelsis og ábyrgðar einstaklingsins.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta