1980 - Íslands börn
Nú koma þau með eld í æðum
á allavega litum klæðum
– og mörgum hleypur kapp í kinn,
er upp mót blámans heiðu hæðum
þau hefja litla fánann sinn.
Og aldrei hefur hópur fegri
né hugumstærri og yndislegri
sér fylkt í íslenskt ævintýr.
Og aldrei storkað elli tregri
jafn ungur tónn og frjáls og nýr.
Því þessi telpa og þessi drengur,
þau þola ekki að búa lengur
í ævagömlum eymdadal.
Og þetta fólk, sem þarna gengur,
er þjóðin – sú, sem koma skal.
Og sína góðu gullaskrínu
hún gefur lýðveldinu sínu,
sú lokkaprúða, litla þjóð.
Og hennar ys í eyra mínu
er eins og fagurt sólskinsljóð.
Á norðurhjarans sögusviði
– í sveit og bæ, á fiskimiði –
mun lífið verða af kvíða kvitt,
ef svona verur fá í friði
að fegra og elska landið sitt.
Því tindar Íslands hljóta að hækka
og hugsjónir þess allar stækka
við svona ástríkt augnaráð,
og slæpingjum og slysum fækka,
ef slíkri gleði er um það stráð.
Og þá mun blómgast byggð, sem stendur,
er bráðum þessar mjúku hendur
á plóginn leggjast allar eitt.
Og drýgð mun verða um djúp og strendur
sú dáð, sem hræðist ekki neitt.
Og hærra en allar ísarnsflugur
mun eitt sinn þessi djarfi hugur
sér lyfta á vængjum móðurmáls.
Því enginn hlutur ómáttugur
er ungri þjóð, sem lifir frjáls.
En vér, sem þykjumst menn, þá megum
ei máttinn draga úr vonum fleygum
né marka efans myrku spor
í svip þess besta, sem vér eigum
og sem er líf og framtíð vor.
Að frelsið aldrei frá oss víki,
sem fæddi af sér hið nýja ríki,
er komið undir kosti þeim
að enginn barnsins eðli svíki,
sem eitt fær skapað betri heim.
Skáld: Jóhannes úr Kötlum
Fjallkona: Saga Jónsdóttir