1955 - Í Vesturbænum
Það kvað vera fallegt í Kína.
Keisarans hallir skína
hvítar við safírsænum.
En er nokkuð yndislegra
– leit auga þitt nokkuð fegra –
en vorkvöld í vesturbænum?
Því þá kemur sólin og sest þar.
Hún sígur vestar og vestar
um öldurnar gulli ofnar.
Og andvarinn hægir á sér.
Ástfangin jörðin fer hjá sér,
uns hún snýr undan og sofnar.
Hér gnæfir hin gotneska kirkja.
Hér ganga skáldin og yrkja
ástarljóð úti við sæinn.
Og ungir elskendur mætast,
óskir hjartnanna rætast,
er húmið hnígur á bæinn.
En sóldaginn sumarlangan
fer saltlykt og tjöruangan
um ströndina víða vega.
Úr grjótinu gægist rotta.
Og gömlu bátarnir dotta
í naustunum letilega.
En áður en sól skín á sjóinn
er síðasti karlinn róinn
og lengst út á flóa farinn.
Þar dorgar hann daga langa,
með dula ásýnd og stranga
og hönd, sem er hnýtt og marin.
En dóttirin? Hún er heima,
og hvað hana kann að dreyma
er leyndardómurinn dýri.
En mjallhvíta brjóstið bærist
og bros yfir svipinn færist
við örlítið ævintýri.
En dapurt er húmið á haustin.
Þá hópast vofur í naustin,
svo brakar hvert borð og þófta.
Og margur saklaus svanni
sat þar með ungum manni
og flýði í fang hans af ótta.
En þó að þagni hver kliður
og þó að draumró og friður
leggist um allt og alla,
ber hjarta manns svip af sænum,
sem sefur framundan bænum
með öldur sem óralangt falla.
Því særinn er veraldarsærinn,
og sjálfur er vesturbærinn
heimur sem kynslóðir hlóðu,
með sálir sem syrgja og gleðjast
og sálir sem hittast og kveðjast
á strönd hinnar miklu móðu.
Skáld: Tómas Guðmundsson
Fjallkona: Guðbjörg Þorbjarnardóttir