Hoppa yfir valmynd

1958 - Ávarp fjallkonunnar

I.

Ég, Fjallkonan, móðirin, ykkur við brjóstin mín ól. –

Ásýnd mín birtist í jöklanna drifhvítu földum,

tindum merluðum mjöll og skínandi sól

Og bláfjalla heiðum hring.

 

Þið eigið minningar margar frá sumarkvöldum

og morgnum daggskærum: Fagurt var smáblóma skart,

hlíðin iðgræn, angaði blóðberg og lyng,

og ásýnd mín hug ykkar snart.

 

Og var ekki sælt að fleygja sér í minn faðm

í fjalldal grænum, er hjarta ykkar leitaði friðar,

og hlusta á söng minn í ánni, sem áfram niðar

og úðafoss hvítum.

 

Og hafir þú staðið á háfjallatindi, mitt barn,

og horft yfir land þitt blámóðu fjarskans vafið

í langdrægu skyggni, er logaði jöklanna hjarn

í lágnættissól,

þá minnstu ástarorða, sem hvíslað var

í eyra þér. Fjallkonan talaði, móðirin hvíta,

sem lifir í sál þér og landið í hendur þér fól.

 

II.

– Sé ég í fjarlæga fortíð.

Ein úti í ægi,

ósnortin, fögur, leit ég í spegli sævar

brjóstin mín hvelfd og há

            með línurnar mjúkar,

hvanngrænan möttul skóga

            og augun mín blá.

Framtíðar beið ég. Bjart var um hvamm og móa,

brostu fjallshnjúkar.

 

Ingólfur kom, sá kappinn prúði og frægi

með konungshjartað og trú á guð sinn og landið.

Hug minn unnu hetjur stórar í dáðum.

heiður minn synir juku.

Þó syrti brátt að. Allt loftið varð lævi blandið.

Lýður minn hlóð upp valköstum, úlfúðarfullur,

flæktur í erlendra lævísum Lokaráðum,

sveik mig, fóstruna, seldi hið dýrmæta frelsi.

Í kolsvörtum skýjablæjum ég andlit mitt byrgði

af blygðun og harmi.

 

– En tímarnir breyttust. Nú bjart er um landið kalda,

því barist var djarflega fyrir rétti mínum.

Skúli klauf þorra-styrinn, sterkur og djarfur,

stór í athöfnum sínum.

Ég greindi loks vormerkin. Giftu minni var borgið.

Gróandans menn:

Jónas var jafni hörpu,

Jón sóldægra.

 

III.

Ég er Fjallkonan, ung, þó að aldir í tímans djúp líði.

Anda minn hafið þið skynjað um lífs ykkar stundir,

í sólrisi morguns, vorblæ, er þýtur í víði,

vaxandi gróðurnál og angandi barri.

– Hvort sástu ei bros mitt, sonur, í döggvotu kjarri

og sáðjörð, er höndin þín græðandi moldina snart

og festi ungan vísi í vorprúðar grundir.

 

Þú skynjaðir bros mitt í fögnuði, er fannstu þér innra

– hvort fannst þér ei sonur verða í hug þínum bjart

og dóttir, sem gerðir drauminn minn fagra að þínum.

 

Þið synir mínir, er siglið um hafsins geim,

og sjálfir hafið lokið upp gullkistum þeim,

– sem fóstran ykkar á fólgnar í djúpi bláu –

og flutt minn auð úr Ránarsölunum heim,

þið skynjið eflaust skyldleika ykkar við mig

í skiptum við ægi.

 

Og þið, er siglið og sjáið hin frjósömu lönd

með sígræna, stórvaxna skóga og aldintré,

gnæfandi turna og munað háreistra halla,

hvort munduð þið vilja selja sæbarða strönd,

sóldýrð vorkvölds og frið – ykkar norðlægu vé

fyrir vellyst og veraldar auð?

– Nei, hjarta ykkar mótmælir, þráin sem til mín togar,

þar er Fjallkonan, móðirin, Íslands, sem er að kalla.

 

Og þú, sem ritar og rýnir í fornar bækur

og rykfallin íslensk bókfell horfinna tíða

hvort heyrirð‘ ei tímans elfi í eyrum þér duna,

mín æðaslög heit og þung.

Hvort mun ei stórbrotin sýn fyrir sjónum þér líða.

Minn andi vakir í lesmáli liðinna alda,

ljóðum og sögn, er þjóð minni vakti muna

til framsóknar, frelsis og dáða.

 

Og mæður, sem alið upp íslenska syni og dætur

og akur hjartna þeirra plægið og sáið

fræjum til framtíðargrósku,

hafið á ungum hug þeirra ríkar gætur.

Munið að hjá mér og í mér eru þær rætur,

sem eigi fá dáið.

 

IV.

Þið vitið, börn mín, harmsögu horfinna alda

og hvað ber að varast,

að aldrei verði minning Jóns Sigurðssonar

sólblik á rotnum fleti,

en fórnarlund hans og fölskvalaus ást til mín geti

fætt og glætt í sál ykkar líf þeirrar vonar,

sem fóstran hvíta á fegursta í draumum sínum.

 

 

Skáld: Einar M. Jónsson

Fjallkona: Helga Bachmann

Til baka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta