Hoppa yfir valmynd

1951 - Þjóðhátíð

Um ljósa óttu engill vorsins fer

með ungan júnídag á vængjum sér

og skimar yfir fold og fallinn sæ,

sem flosar steindu brimi úfin sker.

En lengst við norður nætursólin skín

á nakta jökla, er rétta fjöllin sín

til himins móti morgni og sunnanblæ

á meðan jörðin teygar loftsins vín.

 

En þó að sólin lýsi lönd og höf

og liljur vorsins rísi af kaldri gröf,

vér gerum varla veður út af því:

Slíkt verður bara að teljast drottins gjöf.

Samt þennan dag þann gest að garði ber,

sem gervöll þjóðin hefur eignað sér.

Og því skal landsins fánum fylkt á ný,

að fólkið skilji hvað í vændum er.

 

Og sjá, það fólk, sem áður ók í mjöll

með útvarp sitt og skíði og datt um fjöll,

að þinghúsinu safnast upp úr eitt

og ætlar fótgangandi suðrá Völl.

En skrykkjótt heldur skarinn heiman að

og skrúðgöngunni seinkar enn við það,

að enginn maður virðist vita neitt

með vissu hvenær leggja skal af stað.

 

Og æska landsins fylktu liði fer

á fund við kynslóð þá, sem horfin er,

og gróin leiði leggjast undir fót

og lítil krossmörk reyna að forða sér.

Því broshýr vaða börnin upp í hné

þau blóm, er dauðinn lætur þeim í té,

sem hættir eru að sækja svona mót.

Og sjá, þeir látnu draga sig í hlé.

 

Og þannig safnast saman hópur manns

einn sólskinsdag að leiði forsetans

og hlýðir ræðu frá í fyrravor,

sem flutt er, eins og þá, í minning hans.

Og það er yfir öllu helgi og ró,

en erfiðlega gengur mörgum þó

að þræða í anda óskabarnsins spor,

sem aðeins sínu landi vann og dó.

 

En sá, sem fær að tala, tyllir sér

á tá, en skyggir þó, sem betur fer,

í mesta hófi á gamlan granítklett,

sem gnæfir yfir þá, sem koma hér.

Og steininn reisti hrygg og þakklát þjóð

á þrautatímum foringja, sem stóð

á verði um hennar virðing, frelsi og rétt.

Hér var það sem hún kvaddi hann stolt og hljóð.

 

En var ei hennar sorg á sandi reist?

Vér sjáum eldvagn tímans fara geyst.

Og hvort er nú ei miklu meira en fyrr

um menn og flokka, er allir geta treyst?

Svo þó að bærinn kalli oss klukkan þrjú,

vér kveðjum forsetann í þeirri trú,

að steinninn muni standa að ári kyrr

og stefna oss að sömu gröf og nú.

 

Og víst er sælt að geta gengið að

jafn góðum manni á svona vísum stað,

sem auk þess getur enga björg sér veitt,

þótt allt hans líf sé rangfært sitt á hvað.

Því nú er öllum annt um forsetann

og allir landsins flokkar slást um hann,

og þeir, sem aldrei tóku tryggð við neitt,

þeir telja sér hann utanflokkamann.

 

En hvar var þá öll hrifning vor í dag?

Var hún með þeirri rausn og tignarbrag,

er hæfir þjóð, sem aldrei aðhefst neitt

í ósamræmi við sitt hjartalag?

– sem aldrei vildi venja heiminn af

að vænta af sér hins mesta, er drottinn gaf

til brautargengis þeim, er hafa þreytt

í þúsund ár sitt stríð við nyrsta haf?

 

Ó, guð vors lands, ó, Íslands þúsund ár!

Er enginn himinn nógu dýrðarblár,

að hjörtun fái hrifist eina stund

og hafist yfir þras og dægurspár?

– Vér gistum raunar grafreit forsetans,

en gengum vér í dag frá legstað hans

með heilli manndóm, hærri fórnarlund

og hreinni, dýpri trú á guð vors lands?

 

 

Skáld: Tómas Guðmundsson

Fjallkona: Guðrún Indriðadóttir

Til baka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta