1963 - Bernskuminningar
Aldrei skein sólin eins blítt og í bernsku minni,
eins blítt og verða mátti.
Og ekki sást hærri himinn í veröldinni
en himinninn, sem ég átti.
Og aldrei var túnið jafn fagurt og fífilgult
og fjallið ofan við bæinn svo örlagadult.
Og ekki þekkti ég karla, er kröftugar sungu,
en karlana í bernsku minni.
Og hreinna mál og hispurslausari tungu
ei heyrði ég nokkurru sinni.
Og aldrei síðan eins fallegt fólk ég leit
og fólkið, sem átti heima í minni sveit.
Og aldrei, aldrei var gleðin jafn gagntakandi,
jafngrómlaus af beiskju og trega,
né úthellt þeim kynstrum af kærleik í nokkurru landi
og kvaðst svo ósegjanlega.
Og aldrei síðan var guð með slíkt geysiskegg,
svo gaman að eiga sauðarvölu og legg.
Skáld: Gestur Guðfinnsson
Fjallkona: Kristín Anna Þórarinsdóttir