Hoppa yfir valmynd

2007 - Ávarp fjallkonunnar

Að eiga sér stað

 

í staðlausum heimi

eiga þar heima

eiga heima í heimi

eins og ekkert sé.

Eiga þar

varnarþing

viðspyrnu

vé.

 

Að eiga sér mál

í málóðum heimi

sækja í þann sjóð

sagnir

fræði

ljóð

enn og aftur

geta ekki hætt að gruna

né gleymt að muna.

 

Að eiga sér fjall

í flötum heimi

eiga þar skjól

skína við sól

láta sér lynda

leik regns og vinda.

 

Eiga þar

mark

mið

kennileiti.

 

Fjall

að horfa á

inn til lands

að horfa af

út yfir haf.

 

Fjall

kona

karl

er allt

sem

þarf

í arf.

 

Það er sú þrenning

sem rímar á móti menning.

 

 

Skáld: Þórarinn Eldjárn

Fjallkona: Sólveig Arnarsdóttir

Til baka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum