Hoppa yfir valmynd

2006 - Einu-sinni-var-landið

Á einu-sinni-var eyjunni óx viður milli fjalls og fjöru

milli jökuls og strandar, sem sagt.

 

Óvenju margt var hvítt. Jökullinn. Fossar.

Og bleikur fiskur þeyttist uppeftir þeim.

 

Enginn var til vitnis um þau glitrandi hástökk

nema einsetumaður frá Írlandi sem lét ekki

                                                           nafns síns getið.

 

Refurinn er ekki það sem við köllum vitni,

og þá ekki langt að kominn farfugl

sem var þá stundina ekki að hugsa um að fara neitt

heldur að kenna treggáfuðum ungum að blaka sér frá jörðu.

 

Ég veit ekki hvað þeir írsku kölluðu þetta einu-sinni-var-land

en svo mikið víst að þeir lofuðu guð hátt og í hljóði

við marga læki og í rjóðrum.

 

Þeir lofuðu hann alveg sérstaklega fyrir að vísa þeim

norður í Paradís, yfir stórt haf. Á eyju sem var græn

eins og sú sem þeir sigldu frá

 

en hún var allt öðru vísi græn, talsvert stærri, og

þessir jöklar. Yfir þá og margt fleira urðu þeir að búa

                                                                                   til orð.

 

En jafnvel orðhagir menn voru orðlausir yfir þessa eyju

og töldu sig vera í sérstakri náð að mega finna hana.

Fá að vera þar.

 

Eitt helsta þakkarefni voru furðulega vel vaxnir fossar.

 

Einsetumaðurinn sem kemur fyrir í þessu ljóði samdi

sérstaka bæn sem hann hafði yfir við hvern foss. Það

gat verið tafsamt og stytt dagleiðina. Því hann var

samviskusamur og reiknaði einföldustu flúðir með.

 

Eitt af því sem hann hugsaði var að hann mundi ekki

eignast skárri paradís að sér dauðum, og tæpast svona

mikið út af fyrir sig.

 

Sú hugsun stangaðist hins vegar á við bókina

og var því ekki nothæf í formlegri bæn.

---

Hann áttaði sig þegar leið á fyrsta sumar.

 

Fyrirheitna landið var til. Jörð lifandi manna.

Unaðsvellir.

 

Og hann var þangað kominn, fyrir náðina.

 

Gróður ekki eins fjölbreyttur og af var látið,

enda kaldara í veðri. Hvergi daðla, náttúrlega.

 

En þetta var það.

 

Ódáinsvellir. Ekki neðansjávar eins og stundum var talið,

heldur risu þessir sérlega mikið úr sjó.

---

Þegar hann áttaði sig hvert hann var kominn

(og hann gerði það ekki smátt og smátt, heldur í

                                                           hugljómun)

varð hann svo utan við sig

að hann féll í fagnaðarleiðslu heilt dægur.

 

Lofaði svo Patrek sinn hástöfum í átta tíma samfleytt

þegar hann kom til sjálfs sín

en þá var því miður farið að rigna.

 

Það sóttu að honum efasemdir í kvefpestinni,

en þær urðu ekki til annars en styrkja hann í trúnni á

fyrirheitna landið þegar hann var orðinn hitalaus.

 

Og hann lofaði dýrling sinn á nýjan leik, í þurru veðri,

og með hléum.

---

Hann samdi sérstaka þakkarbæn fyrir það að

Paradísareyjan var svo umfangsmikil.

 

Þótt hann hefði í sjálfu sér ekkert við þetta flæmi að gera

og færi heldur í stuttar ferðir en langar.

Legði ekki í fleiri ár en þurfti, og ekki jöklana að ráði.

 

Það var ljóst að hann hafði fundið sér besta stað

dýrlega laut í landið, við Urriðavatn sem teygði sig

langt úr sjónmáli, umvafið fjöllum í heilhring og

mosadyngjum.

---

Hann var auðvitað skáld þótt hann hefði ekki

                                                           lýst sér þannig

og hann hugsaði mjög mikið um nöfn, jafnvel á kostnað

                                                                       bænahalds.

 

Þegar hann hvarf frá eyjunni sem hann skírði Ljósgræna

landið af því hún var bæði ljós og græn

hafði hann skírt 1950 fjöll fossa vötn ár læki hnúka

                                                                          gnípur.

 

Vetrarnöfnin risti hann á ísinn: Skuggafell,

                                               Dauðsmannsdalur.

 

Dró sumarnöfnin í sand: Glithlíð, Smjörviðarey,

                                                           Hunangslækur.

 

Fyrsta íslenska skáldið og vissi ekki að það var hann.

 

 

Skáld: Steinunn Sigurðardóttir

Fjallkona: Elsa G. Björnsdóttir og Tinna Hrafnsdóttir

Til baka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta