Hoppa yfir valmynd

1981 - Til Íslands við aldamótin 1900

Þú ert móðir vor kær.

Þá er vagga’ okkar vær,

þegar vorkvöldið leggur þér barn þitt að hjarta;

og hve geiglaus og há

yfir grátþungri brá

berðu gullaldarhjálminn á enninu bjarta.

Við hjarta þitt slögin sín hjörtu’ okkar finna,

þinn hjálmur er gull okkar dýrustu minna;

en þó fegurst og kærst’

og að eilífu stærst

ertu í ást og í framtíðar vordraumum barnanna þinna.

 

Þú ert móðir vor kær —

og því engu mun gleymt,

sem vér unnum þér vel eins og systir og bróðir;

þá er nafn okkar gleymt,

sólin sígur þá skær,

og við sofnum þá róleg við brjóstið þitt, móðir.

Við vitum þú átt yfir öldum að skína,

við óskum að börnin þín megi þig krýna,

og þá blessar vor öld

sitt hið síðasta kvöld,

ef hún sendir þeim smáperlur, móðir, í krónuna þína.

 

Mun ei djarfhuga öld

meta Magnúsar sjón,

þegar morgunninn vaknar og tindana roðar?

Mun ei bjart um hann Jón

undir aldanna kvöld,

hvar sem áræðið frelsinu sigurinn boðar?

Mun tungan ei lengi’ yfir Íslandi óma

sem öldin hin nítjánda losaði’ úr dróma?

Ó, þú móðir vor kær,

mun ei máttug og skær

yfir miðsumrum aldanna gígjan hans Jónasar hljóma?

 

Ó, þú fjalldrottning kær,

settu sannleikann hátt,

láttu hann sitja yfir tímanum djarfan að völdum,

svo að tunga þín mær

beri boð hans og mátt,

eins og bylgjandi norðurljós fjarst eftir öldum.

Við öfundum soninn, sem á þig að krýna,

við elskum hvern gimstein, sem þar á að skína.

Fram á tímanna kvöld

raðist öld eftir öld,

gamla Ísland, sem tindrandi stjörnur í krónuna þína.

 

 

Skáld: Þorsteinn Erlingsson

Fjallkona: Helga Þ. Stephensen

Til baka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta