1993 - Svo vitjar þín Ísland
Það hendir tíðum Íslending úti í löndum
um óttuskeið, er tindrar af heitu myrkri,
að svefn hans er rofinn svölum, skínandi væng,
sólhvítu bliki, sem lýstur hans skynjun og fyllir
allt andrúmið sævarseltu og heiðablæ.
Því þessa nótt hefur norðrið andvökubjarta
í nakinni vordýrð lagt að útlagans hjarta
sitt land, sín fanngnæfu háfjöll og himinsæ.
Svo vitjar þín Ísland, laugað brimhvítu ljósi,
og lind þinnar bernsku er jafnsnemma tekin að niða
í barmi þínum. Frá ofurgnægð lita og ilms
snýr andi þinn langvegu þangað, sem fólk þitt háði
sitt ævistríð um þín örlög við nyrstu höf.
Og þér mun aftur leggjast þau ljóð á tungu,
sem liðnar aldir genginni kynslóð sungu
og fylgdu enni að heiman – frá vöggu að gröf.
Þá skilst þér hve fánýt var leit þín í aðrar álfur.
Frá árdegi tímans er von þín og hamingja bundin
því landi, sem til þín er komið um kynjaveg
og knýr þig upprunans röddu heim á þær slóðir,
sem bjuggu ætt þinni athvarf við fjall og sjó.
Þar hófust þín augu til himins í fyrsta sinni,
og hvort hefur nokkrum lagst tignari ættjörð á minni
en sú, er þér ungum við undrun og barnsgleði hló?
Já, slík er þín ættjörð, og enn skal hún yngjast og stækka.
Sjá ónumin víðerni blasa við fagnandi kynslóð,
sem gengur til liðs við þann guð, sem land hennar skóp:
Hér gefst hennar skáldhneigð að yrkja í hraunþök og sanda
þau kvæði, sem lifa og vonum og trú eru vígð.
En bið þess, hver örlög sem Urður og Verðandi spinna,
að einnig hver dáð, sem þér tekst þínu landi að vinna,
sé heimsbyggð allri til ástar og hamingju drýgð.
Skáld: Tómas Guðmundsson
Fjallkona: Ólafía Hrönn Jónsdóttir