1959 - Fjallkonuljóð
Sjá, ég er konan, landsins leynda sál,
sem lítil börn og skáld til drauma vekur.
Í æðum mér er blóðið orðið bál.
Bylgjunnar niður er mitt tungumál
og brjóst mitt aðeins bjarg, sem undir tekur.
Augu mín hef ég erft frá bláum tjörnum.
Mitt innra blik er skin frá sól og stjörnum,
en höfuðskrautið fönn og fægður ís.
Fjallkona er ég nefnd og jökladís.
Hver lyftir björgum upp úr hafsins hyl?
Hver hreinsar loftsins djúp með stormsins anda
og gefur öllum líf og ljós og yl
og lætur kynslóðirnar verða til
og hetjur leita heimsins ystu stranda?
Í rauðum logum reis ég upp úr sænum.
Er runnu aldir, bjóst ég möttli grænum.
Þó um mig geymist mörg og mikil sögn,
er meira falið órjúfandi þögn.
Ég beið í mínum bláa draumasæ,
uns bar að landi skip með áhöfn glæsta,
djarflega menn með drengilegan blæ.
Við drang og voga reistu þeir sér bæ,
könnuðu landið, klifu tindinn hæsta.
Og allir nefndu Ísland sína móður.
Í örmum mínum spratt hinn frjálsi gróður,
og hvaða land á fegri ættaróð,
sem ortur var af hugumstærri þjóð?
Hver væntir þess, ef vetur fer í hönd,
að vorsins blíðu geislar hjörtum ylji?
Og ísinn kom og kældi mína strönd,
og konungarnir hnepptu mig í bönd,
en undir niðri óx mér þrek og vilji.
Öll örvænting er fjarri fornu skapi.
Fjallkonan ber við loft, þó stjörnur hrapi.
Og ekkert vald gat varnað henni máls.
Nú vegsama ég lífið, ung og frjáls.
Og ennþá á ég margan dýrðardraum
um dáðir minna hraustu óskabarna.
Þó æskan dái meira fljótsins flaum
og fossins nið en þungan undirstraum,
þá logar ennþá landsins heillastjarna.
Og síst má þjóð í heimsins ystu höfum
slá hendi móti nýjum sumargjöfum.
Til nýrra dáða knýr það margan mest
að minnast þess, sem fortíð gerði best.
Hve fögur yrði framtíð þessa lands,
ef fengi vilji minn að ráða lögum.
Ég mundi kveikja sól í sál hvers manns
og seiða frið í innstu vitund hans
og fjölga landsins fögru sumardögum.
Til eru menn, sem faðmi fjallsins gleyma
og flýja lífið – eiga hvergi heima.
En sá, sem heitast ættjörð sinni ann,
mun einnig leita guðs – og nálgast hann.
Hið besta, sem ég býð, er meira starf,
svo blómgist íslensk jörð og þjóðarheiður,
því allra bíður verk, sem vinna þarf,
sem veitir nýrri kynslóð fegri arf.
Þá vitkast þjóð og vex hinn græni meiður.
Í björgum háum blikar óskalindin.
Ég bendi minni þjóð á hæsta tindinn.
Og hennar lífi helgast sál mín öll –
mitt haf, mín fjöll.
Skáld: Davíð Stefánsson
Fjallkona: Bryndís Pétursdóttir