Hoppa yfir valmynd

1964 - Ávarp fjallkonunnar

Enn vitjaði átthaga vorra í morgun sá dagur,

sem vænstar ástgjafir hefur þjóð sinni borið.

Og Ísland, sem nam gegnum sólhvítan óttusvefninn

hans svanaflug, kom til móts við hann út í vorið.

Og eins og dagurinn leggur sér land sitt að hjarta

svo leitar hann uppi frá heiðum til ystu miða

hvert barn sinnar foldar og hyggur að hlustandi eyra,

hvort heyri hann enn sínar lindir í harmi þess niða.

 

Þin ættjörð – hér hófst hún af holskeflum eldbrims og flóða.

Að himinskautum stóð nóttin í glampandi báli.

Og svipmeira land hefur aldrei af unnum stigið,

né ávarpað hnött sinn og stjörnur á skáldlegra máli.

Og aldanna hönd tók að rista sitt rúnaletur

á rauðar borgir og fjallbláa hamrasali.

Þar léku á basalthörpunnar stuðlastrengi

þeir stormar, sem báru með regninu moldir í dali.

 

Já, moldir, sem eiga sér miskunn himinsins vísa

og mildar vorskúrir ástríki sínu glæða

– það stenst ekkert líf til langframa þeirra ákall,

og loks mun það veglausa firð yfir útsæinn þræða.

Og hafborin frækorn og flugprúða gesti loftsins

bar fyrsta til landnáms á útmörkum norrænnar slóðar.

Þó helgaðist niðandi lífi og lifandi óði

það land, sem í tiginni einsemd hér beið sinnar þjóðar.

 

Það beið sinnar þjóðar og hingað var ferðinni heitið.

Þinn hamingjudraumur tók svipmót af landinu bjarta,

sem gerðist þín ættjörð og lagði þér ljóð sín á tungu.

Ó, lát ekki rödd hennar farast í æskunnar hjarta.

Það spyr engin saga, það forvitnast aldrei nein framtíð

um fólk, sem er ætt sinni horfið og reisn sinni glatar.

Því land þitt er einnig þín örlagaborg og þitt vígi

og einungis þangað um sál þína hamingjan ratar.

 

En Ísland, þín börn hafa enn ekki þjóð sinni brugðist,

og aldrei í bráðustum háska frá sæmd þinni vikið.

Og þau munu enn verja hugrökk þinn heiður og frelsi

gegn hvers konar voða, sem ógnar þér – nógu mikið.

En biðjum þess einnig, að aldrei megi það henda,

að andi þeirra og sál láti fyrirberast

í slævandi öryggð hins auðsótta veraldargengis.

Nei, önnur og stærri skal sagan, sem hér á að gerast.

 

Því, æska míns lands, það er aldanna hamingjudraumur,

sem á sína ráðningu í dag undir trúfesti þinni.

Ó, opna þú honum þinn barm, þitt brennandi hjarta.

Legg bernskunnar niðandi lindir á fullorðið minni.

Þar geymist sú saga, sem guð hefur trúað þér fyrir.

Þar gefst þér sú ættjörð, sem þér hefur sungið og angað.

Og seytjándi júní – til þess er hann heim til þín horfinn,

að hann á að vígja þér landið og fylgja þér þangað.

 

 

Skáld: Tómas Guðmundsson

Fjallkona: Gerður Hjörleifsdóttir

Til baka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta