Hoppa yfir valmynd

1952 - Ávarp fjallkonunnar

Afmælisdagur Íslands besta sonar,

æskunnar hátíð, tekur þig í fang.

Reykjavík, borgin bjartrar, stórrar vonar,

borgin með nýjan skóg – og fjöruþang.

Langt inn í fjærstu framtíð þig ég eygi,

fegurri æ með hverju ári, er líður.

Draumanna arma eftir þér ég teygi.

Eilífðin handan logns og storma bíður.

 

Fagur var morgunn þinn á þjóðar vori,

þjóðin jafn-glæsta minning aldrei sá.

Oft síðan dreyri draup úr hverju spori

daganna þungu, er aldir liðu hjá.

Margvísleg saga falls og nýrrar frægðar

faldar þitt höfuð björtum reynsluljóma.

Óska eg þér frama‘ og gengis, auðs og gnægðar, –

geymir þú æ hin fornu vé með sóma.

 

 

Fornheilög vé – og fornar, helgar dyggðir

flétti þér æ sinn dýra rósakrans.

Verði þín áhrif út um breiðar byggðir

bæði til sæmdar þjóð og heilla lands.

Íslenska borg, skalt íslensk jafnan vera, –

íslenskt og hreint þér liggi mál á tungu.

Aga þinn hug við kynngi frosts og frera, –

fegurðarþrána kenndu hinum ungu.

 

Blámóða dagsins sveipar fjarlæg fjöllin, –

fagurt er um að litast hér í Vík!

Yfir þér breiðist víðlend himin-höllin, –

hvað þú ert nú af tærri fegurð rík!

Óskabarn mitt þú ert og vona-fylling

allt eins og fyrst, er mannleg augu sáu

á þína dýrð, – og Ingólfs gifta og stilling

einkenni þennan stað við fjöllin bláu.

 

Skáld: Jakob Jóh. Smári

Fjallkona: Þóra Borg

Til baka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta