Hoppa yfir valmynd

1948 - Ávarp fjallkonunnar

Ó, unga þjóð míns draums, kom frjáls á fund

þíns fagra dags, er rís af bláum unnum

með gullna jökla, glóbjört elfarsund

og glaðan morgunsöng í lágum runnum.

Svo yndislega vorið vitjar þín.

Samt veistu, að gleðin, sem því fegurst skín,

er vaxin upp af ástúð, harmi og tárum

þíns eigin fólks á þúsund löngum árum.

 

Ó, fólk míns lands, hvað flyt ég þér að gjöf?

Ég flyt þér vorsins óróleik í blóðið,

þann konungsdraum, er stiklar stjörnuhöf,

þann stolta grun, sem yrkir dýrast ljóðið.

En lát þá heldur ekkert ögra þér

til andstöðu við það sem helgast er:

Þá manndómslund, er frjálsum huga fagnar,

en flærð og hatur knýr til gleymsku og þagnar.

 

Svo ver, mín þjóð, til vorsins fylgdar kvödd.

Svo vígist þér hinn ungi júnídagur,

er mælir til þín Íslands innstu rödd

og öllum sumrum rís jafn himinfagur.

Og vit, að aðeins vorsins hjartalag

fær vænst að eignast svona bjartan dag.

Ó, lát hann vaka yfir ættjörð þinni,

geym ástúð hans og tign í svip og minni.

 

Skáld: Tómas Guðmundsson

Fjallkona: Anna Borg Reumert

Til baka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum