Hoppa yfir valmynd

2000 - Í upphafi var skip

Eins og skipin öll sem hrekur

útí glórulausan fjarska

og taka land djúpt í myrkvaðri höfn

ber einnig þetta skip á foráttuhaf út

undan afli sem menn fá ekki deilt við

og sem heldur sínu jafnvel fyrir hafinu –

heldur yfir sínu skipi vernd

 

vindar Sögunnar hafa haft veður

af sæbörðu guðsríki einsetumunks

er hefur fleytt sér æði fífldjarfur

á bæn yfir vísan dauðann

að þessu athvarfi utan heimsins:

landi fugla

og sporlausra vegalengda um fjöll

 

þennan dag

horfir Papinn ekki til fjalla

og ekki upp til himins

heldur rýnir útá hafbrautirnar

þaðan sem hann kom, sér hvar

sjóndeildarhringurinn brestur

sér þúst er hægt nálgast

og tekur á sig mynd

af segli, af trjónu ...

 

bænir Papans um frið fyrir mönnum

fengu ekki aftrað því að aldir hlæðust upp

líkt og í útsýnismastur –

heiðið frjótákn

þeirra er flæddu um lönd grimmir sem tíminn ...

og lögðu loks reginhöf

skipi í gegn; þessi brestur

í sjónbaug eylandsins

rofið haft meylandsins

veitti braut því sem ekki varð hamið:

þeim er sá vildu dögum sínum

undir nýjum himni

 

þetta er Sagan, hún skrifar sig sjálf

í löndin, fleytir hér knörrum

inná kálfskinn Landnámu ...

skrifar lifandi orðum

hvert nes, hverja strönd

líkt og menn strekki á milli sín net –

menn og konur – mikið net

er þau svo dýfa í hyl aldanna eftir fleirum

 

og sjá: mannsbörn koma upp hvert af öðru

eins og orð í bók, Íslendingabók

en í upphafi –

okkar upphafi, söltu, rammheiðnu –

var skip

og fleiri skip, þunghlaðin, þung

af því óorðna, óskráða: mér, þér ...

 

 

Skáld: Jónas Þorbjarnarson

Fjallkona: Jóhanna Vigdís Arnardóttir

Til baka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta