1965 - Ljóð fjallkonunnar
Fegurð berst í tal
á eyðimörk orðanna.
Öldungur kyngir þorsta sínum. –
„Brunahraunið er fagurt,
af því lind kliðar þar einhvers staðar
ljóð allra daga.“ –
„Ljóð, hvað er það?“
Er spurt upp úr svefndái hillinganna.
Ó, ljóð mitt – söngur vatns,
söngur bergvatns í blænum,
brunna, sem aldir grófu til
og slökkt hafa þorsta kynslóða,
grætt þeim á söndum aldinlundi,
hvelft þeim glitrandi þök regnbogans,
speglað goðkynja þokka Vanadísa,
borið táknmál Skuldar í drauma,
galið völvum feigðarspár,
harmað glötun örfoka vinja,
lokað gleymdum augum til svefns
undir nótt villu og feikna,
sem enga skímu bar,
nema brot hinna fornu kvæða,
uns brumknappar lýsingarinnar,
þyrstar og skjálfandi hendur,
vöktu aftur til morgunsöngva
af vörum fram þær huldu lindir.
Ó, ljóð mitt – söngur vatns,
söngur brunnvatns í blænum,
bergsins undir tungurótum,
lindanna djúpt í vitund þinni, –
mjúkur seimur, dreginn
allt frá morgni tíðar,
og morgundaggir þræddar á,
speglandi hvað sem vildi, –
landið í tign og helgi sinni,
líf þess í stríði og draumum,
launstigu hugans og álfaslóðir,
svipi stigna frá Urðar djúpi,
bernsku kvadda til manndóms
frá blómdvala hvammsins,
frá blindingsleik til skyggni
og hins rauða stáls á aflinum.
Ó, ljóð mitt – söngur sverðs,
þytur sverðstungu í blænum,
svör Sköfnungs, er lýstur niður
yfir blandin mál valdníðinga,
hörð gjöld mildinnar
í hvítum leiftrum
hvassra eggja,
banvænna af dvergakynngi,
vígðra í stríð
til að stilla máttvana grát
og slökkva lífdögg
í sollnar undir,
þar sem neyð kallar
hljómi náttlúðra.
Ó, ljóð mitt – söngur sverðs,
þytur sverðstungu í blænum,
hinnar sömu er ber í myrkvastofu
árgeisla vordagsins;
bylgjuskraut þess eru Surtarlogi
og blárastir hafísa;
á braut undir gunnfánum
í svölu maíregni
rís einfaldur háttur þess
gegn óhæfu og voða;
yfirskyggjandi í krafti sínum
vakir það í glaumnum
sem í ljóskyrrð óttunnar
langt inn‘ á heiði,
þar sem lækur sönglar við tóftarbrot
upp úr auðum blöðum dægranna;
það heilsar enn í dali
um höf með þrestinum,
hlær í tákni gauks
og eilífrar stjörnu
og varpar fölvum geislastöfum
af gömlu og lúðu bókfelli,
sem grettinn þulur skyggnir
undir myrkur, sestur að dröngum.
Ó, ljóð mitt – söngur draums,
musteri draumsins í blænum;
dags önn er grunnur þess
og hvolf þess bæn á náttarþeli;
um kórinn rennur lind, –
og arfar lands míns og tungu
lúta þar höfði andartak,
er kveldi hallar til morguns
í nóttleysu þessa júnídags;
jörðin heyrir óskir þeirra,
og jörðin segir þær himninum
og tíð hinna miklu reikningsskila,
sem vitjar nú allra lýða, –
en lindin ber í hafið
að logaaltari sólar
döggvot blóm,
sem barnshönd fellir í strauminn.
Skáld: Þorsteinn Valdimarsson
Fjallkona: Guðrún Ásmundsdóttir